Reisa vorhús til að skýla lambfé í vorhretum
„Þetta verður fínt skjól,“ segir Ásta F. Flosadóttir en hún og Þorkell Pálsson, bændur á Höfða í Grýtubakkahreppi, hafa reist svonefnt vorhús, skýli fyrir lambfé til nota svo ekki þurfi að hýsa allan skarann inni í fjárhúsi þegar vorhretin ganga yfir.
Ásta segir þau hafi dundað við verkefnið í hjáverkum, en húsið er 12 metrar á lengd og 5 á breidd. Gert er ráð fyrir að um það bil 80 kindur geti leitað skjóls í húsinu. Hún segir að miðað sé við að gefa fyrir utan húsið, „en ef í harðbakkann slær verður hægt að gefa inni,“ segir hún.
Yfirsmiðurinn Helgi Jökull Hilmarsson og Þorkell Pálsson spá í næstu skref í framkvæmdum.
Fyrirmyndin austan úr Þistilfirði
„Við höfum lengi verið að velta þessu fyrir okkur, en við sáum svona hús í Þistilfirði, m.a. hjá Sigurði í Holti og Eggerti í Laxárdal, en þar hafa þau komið að góðum notum þegar kalt er að vorlagi,“ segir Ásta.
„Það er ekki óalgengt að snjói hér um slóðir í maí og því fylgir næturfrost og kuldi. Það er því gott að hafa aðstöðu þar sem lambfé getur leitað skjóls. Það er oft þröngt að hafa allt fé inni yfir sauðburðinn á vorin og mikil vinna og umstang,“ segir Ásta, en planið er að reisa annað svipað vorhús á öðrum stað á jörðinni síðar.
Efniviður í húsbygginguna kemur héðan og þaðan, m.a. má þar finna gamla aflagða rafmagnsstaura úr Bárðardal.
Efniviðurinn héðan og þaðan
Hún segir að þau hafi fyrir nokkru byrjað að viða að sér efni, en segja má að útsjónarsemi, nýtni og endurvinnsla hafi verið þeim Höfðahjónum efst í huga við framkvæmdina. Þau fengu langa rafmagnsstaura sem RARIK var að taka niður í Bárðardal og víðar, 12 metra langa staura sem ákvarða lengd hússins. Þá var verið að gera við þak á Grenivíkurskóla og þar fengu þau einnig efnivið og sömuleiðis þegar gamla kaupfélagsbúðin á Grenivík var rifin. Þakið er fengið úr þeirri byggingu. Þau notuðu einnig timbur úr fjárhúsum sínum, m.a. slitnar spýtur úr króm. „Það má segja að þaksaumurinn sé dýrasti pósturinn í byggingunni,“ segir Ásta.
Vorhúsið er hugsað fyrir lambfé sem skýli þegar vorhretin ganga yfir. Gert er ráð fyrir að um 80 kindur geti leitað skjóls í húsinu.