Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Líf og starf 14. desember 2016
Sauðfjárrækt í „alvörugamni” á Ósabakka 1
Höfundur: Páll Imsland
Hér verður mjög stuttlega sagt frá sauðfjárrækt í alvörugamni. Og hvað er nú átt við með því? Jú, hér er um að ræða ræktun sem tekin er í fullri alvöru og rekin sem slík en þó stunduð meira til gamans og af forvitni en til aukinnar framlegðar á ákveðinni markaðsvöru svo sem ull eða keti.
Þó víkur hún ekki frá því markmiði að vera ræktun á úrvalsgóðu fé. Þessi alvörugamansræktun er stunduð í góðum fjárstofni og er knúin af forvitni um möguleikana sem búa í stofninum og þeirri ánægju sem hafa má af því að ná árangri í aukinni vitneskju um bæði fjárstofninn og einstaka gripi innan hans, ánægjunni af því að uppgötva og finna nýtt, rækta og sjá það sem maður hefur ekki séð áður og veit fyrirfram kannski ekki einu sinni hvort er mögulegt.
Í íslenska sauðfjárstofninum búa eiginleikar sem eru óvenjulegir eða sjaldgæfir ef við tökum mið af hinu algenga og sjálfsagða. Margir ræktendur sauðfjár og framleiðendur sauðfjárafurða hafa litla vitneskju um ýmsa þessa þætti stofnsins, hafa ekki séð þá eða átt, ekki veitt þeim athygli eða haft á þeim áhuga.
Hér verður tæpt á tveim sjaldgæfum svona þáttum í fjárstofninum okkar og sýndar myndir til nánari útskýringa. Um er að ræða fyrirbærin golsubotnótt fé annars vegar og brúskfé hins vegar.
Í allmörg ár höfum við Jökull Helgason á Ósabakka af og til átt spjall um sauðfé, og þá yfirleitt um eitthvað skemmtilegt og óvenjulegt í fari þess. Jökull er mikill og góður sauðfjárræktandi. Hann lætur heldur ekki langt líða frá hugmynd til framkvæmdar og því líður ekki á löngu áður en hann er með gripinn sprelllifandi sem við höfðum verið að bollaleggja og velta vöngum yfir einhvejum misserum fyrr, langað að sjá og þreifa á, og vissum ekki endilega hvernig myndi líta út í smáatriðum ef hann þá væri ræktanlegur.
Þeir gripir sem hér verður sagt frá og sýndar myndir af eru sem sagt orðnir til í fjárhúsum Jökuls og fyrir hans glöggskyggni og röggsemi í ræktun, stundum vegna forvitnispurninga minna.
Golsubotnótt
Fyrir nokkrum árum fór ég að leita að golsubotnóttu fé. Af því virtist vera afar lítið í stofninum og sumir sem ég spurði vissu ekki einu sinni um hvað spurningar mínar snerust. Þegar mynstur þetta er gaumgæft, kemur líka í ljós að einkenni þess eru slík að auðvelt er að láta sér yfirsjást, þótt slíkir gripir beri manni fyrir augu. Ég ræddi golsubotnótt við Jökul og þar sem hann átti bæði botnótt og golsótt fé áttaði hann sig strax og leið ekki nema árið áður en hann var með nokkur slík lömb í hjörðinni.
Hvað er þá golsubotnótt og hvernig lítur það út? Eins og felst í heitinu er golsubotnótt blanda af mynstrunum sem við köllum golsótt annars vegar og botnótt hins vegar. Liturinn sem mynstrið kemur fram í getur verið hvort sem er svartur eða mórauður. Einnig er flekkótt golsubotnótt möguleiki, og hvítt getur hulið golsubotnótt. Til að þetta verði skiljanlegt er líklega nauðsynlegt að lýsa bæði golsóttu og botnóttu mynstri áður en golsubotnótta mynstrinu sjálfu er lýst.
Golsótt einkennist af því að kindin er ljós að ofan og niður eftir hliðunum en dökk undir kvið og hefur dökka fætur og dökkan haus. Dökki liturinn teygir sig upp eftir lærum innan- og aftanverðum allt upp með dindli og gjarna líka upp eftir hálsi að framan og upp undir kverk. Liturinn á haus og leggjum er ekki eintóna heldur tekur á sig mismunandi litblæ, mjög gjarnan svokallaðan saffranóttan litblæ, dökkan írauðan eða gulan lit. Þá sést stundum að dauf lituð mön teygir sig frá hnakka og mislangt aftur eftir baki. Ofan og framan augna og aðeins niður eftir nefbeini utanverðu er mjög gjarnan dökk rönd. Litaskil ljóss og dökks eru skörp á mörkum kviðar og síðu.
Botnótt einkennist af því að kindin er ljós á kviðinn en dökk að ofan og niður eftir hliðunum. Ljóst teygir sig, aðeins mismikið þó, upp eftir brjósti og hálsi og þá gjarnan alveg fram undir kverkina og um neðri vör. Ljóst teygir sig upp eftir fótunum innan- og aftanverðum og upp meðfram dindlinum hvort sínum megin megin, en hann er þó dökkur sjálfur. Haus og fætur eru dökk en taka ekki á sig sambærileg litbrigði og gerist hjá golsóttu. Ljós rönd er þó stundum á hausnum ofan augna, sambærileg við dökku röndina á golsóttu en yfirleitt minni og óskýrari. Litaskilin eru skörp á mörkum kviðar og síðu eins og í fyrra tilvikinu.
Hvernig er þá hægt að búa til nýtt mynstur úr þessu tvennu, þar sem þessi tvö mynstur virðast í grundvallaratriðum vera andstæður hvað varðar dreifingu ljóss og dökks? Því skal nú lýst.
Golsubotnótt lýsir sér í því að mest öllum lit úr hinum tveim mynstrunum er eytt, þó ekki alveg. Golsubotnótt hefur ljósan kvið og líka ljósan efri hluta. En þar sem litaskilin eru hjá botnóttu og golsóttu verður eftir mjó dökk rönd. Þessi rönd er á mörkum síðu og kviðar og sést líka í mörgum tilvikum þvert yfir kvið framan við júgrið. Upp eftir hálsinum framanverðum teygir sig gjarnan veik litrönd og eins upp eftir lærunum aftanverðum. Þessar rendur eru ekki útlínuskarpar og eru fljótar að hverfa í ullina þegar féð gerist loðið. Þær sjást hins vegar vel á nýrúnum kindum, eins og meðfylgjandi myndir sýna. Á nýrúnu má sjá að það er eins og liturinn á efri hluta kindarinnar hverfi ekki algjörlega. Aðeins eimir eftir af honum, en þetta er ósýnilegt með öllu á fénu loðnu. Botnóttu eða öllu heldur golsóttu einkennin á höfði og fótum eru til staðar en eru stundum ekki eins sterk eða glögg og hjá hreingolsóttum kindum. Í stuttu máli má segja að ljósu einkennin hjá botnóttu og golsóttu mynstrunum séu lögð saman í golsubotnóttu.
Á myndunum sem sýna þetta og teknar eru á Ósabakka er þremur gimbrum, botnóttri (A), golsóttri (B) og golsubotnóttri (C) stillt upp hlið við hlið og þær sýndar bæði undir kvið og svo aftan frá. Þær eru allar nýrúnar og einkennin eru því skýr. Þar má m.a. sjá að aðeins vottar fyrir meiri lit á síðum þeirrar golsubotnóttu en á kviðnum. Einnig er áberandi litur á hálsi hennar og aftan á lærum. Hins vegar er línan þvert yfir kviðinn framan júgurs ekki heil alla leið yfir.
Þessar þrjár gimbrar eru allar fæddar síðastliðið vor, 2016, og er ekki beinn og náinn skyldleiki með þeim. Sú sem kölluð er A á myndunum er nefnd Strípa og kemur við sögu í frásögninni hér á eftir líka. Strípa er undan Töffa, sem er svartgolsubotnóttur á lit og Stungu, sem er hvít. Gimbur B á myndunum er Jóna, undan sæðingarhrúti, sem heitir Jónas og er svartgolsóttur flekkóttur og Botnu, sem er svartbotnótt. Gimbur C á myndunum er Dúfa undan Hafri, sem var svartgolsóttur og Örnu, sem er svartbotnótt arnhöfðótt.
Brúskfé
Það munu vera um tvö ár síðan ég nefndi það við Jökul að mig langaði mikið að sjá stóran mislitan og ábúðarmikinn ferukollóttan hrút. Sá hrútur er ekki enn vaxinn úr grasi en til hans hefur verið stofnað og í þeirri viðleitni hafa komið fram afar athyglisverðar gimbrar.
Ferukollótt er kollótt fé með erfðavísi fyrir ferhyrndu. Það hefur kannski aðeins annað höfuðlag en hefðbundið kollótt fé sem ekki hefur ferhyrndar erfðir. Það sem einkennir ferukollótt um leið og litið er á það er hárbrúskur á hausnum. Stundum er þessi brúskur rýr en stundum afar mikill og vel krullaður, líkist helst slöngulokkuðu hári. Í viðleitni Jökuls, sem að ofan greinir, til að rækta ferukollótta hrútinn væna, eru þegar komnar fram nokkrar gimbrar með einkennin. Tvær þeirra eru alveg sérlega vel hærðar til höfuðsins og bera brúsk sem sérhver tískudama gæti verið hreykin af.
En hvernig er auðveldast að ná fram svona brúski, langhærðum, vel krulluðum og stórum? Gimbrarnar sem að ofan greinir eru báðar af ferhyrndu kyni, systur undan ferhyrndum hrúti, en hornagerð mæðranna er ólík. Önnur ærin er ferhyrnd en hin ferukollótt. Báðar þessar ær hafa dálítinn brúsk en mun minni en dæturnar hafa og sömuleiðis er dálítill brúskur í hrútnum, þó ekki sé mikið pláss fyrir hann vegna umfangsmikils hornastæðis.
Báðar eru þessar gimbrar svartbotnóttar að lit og vel gerðar til líkamans, einkum önnur, báðar þó góðar ásetningsgimbrar. Önnur þeirra, Strípa, er ekki bara með mikinn brúsk á höfði heldur eru í honum hvítar strípur og eru þær sannkallað krúnuskraut. Hin, Brúska, er með hreinan svartan brúsk vel krullaðan.
Í þessum ættum er lítill brúskur á bak við föðurinn, Töffa, en hornalag hans er hins vegar stórkostlegt. Öll hornin fjögur eru stór. Framhornin teygjast upp og svigna í hreinum boga fram og niður á við.
Hliðarhornin er dálítið minni en sterkleg og svigna í vægum boga niður og inn á við án þess að fara í hálsinn. Öll eru hornin aðeins rúnnuð fremur en köntuð. Ferhyrnda móðirin, Stunga, er brúsklítil með sæmileg upp- og framstæð framhorn, ekki mjög löng, en veikari hliðarhorn. Ferukollótta móðirin, Robba, er sömuleiðis ekki með mikinn brúsk. Í ættunum að báðum gimbrunum er brúskur alltaf minni en hann er á þeim sjálfum. Þær má því kalla sanna foreldrabetrunga í þessu samhengi.
Eitthvað lengur og meir þarf þó að gera tilraunir með þessa ræktun til þess að staðfesta af öryggi hvernig hornalag og brúsklag er best að hafa í gripunum til þess að framleiða undan þeim brúskfé með tignarlegan brúsk, eins og þessar tvær glæsilegu Ósabakkagimbrar hafa.