Tuttugu og sjö ára rennsli
Í iðnaðarhverfi Hafnarfjarðar, nánar tiltekið í Dalshrauninu, má finna félagsskap nokkurra listamanna. Trérennismiða auk meistara útskurðar sem saman mynda skemmtilegan hóp eldri borgara undir nafninu Snúið og skorið.
Örn Ragnarsson, formaður Félags trérennismiða á Íslandi, tekur við orðinu og fræðir lesendur um starfsemi Félags trérennismiða auk þess að kynna blaðamann fyrir hópnum í Dalshrauninu sem samanstendur af alls fjórtán skráðum félögum.
„Ég sá fram á að ég myndi eldast. Það var í rauninni kveikjan að því að ég ákvað að ganga til liðs við þessa höfðingja í Félagi trérennismiða. Svo ég hefði eitthvað að gera þegar ég myndi hætta störfum. Síðustu 13 ár rak ég fatasöfnun Rauða krossins, en þar á undan sinnti ég kennslu í 32 ár, lengst af austur á Eiðum.
Nú, ég datt niður á rennismíðina og hingað kem ég helst á hverjum degi. Líka um helgar og á aðfangadag segir hann glottandi. Mislengi auðvitað, en það sem er mikilvægast er félagsskapurinn enda byrjum við daginn á kaffisopa. Ferill minn hérna hófst reyndar á því að ég byrjaði að læra útskurð og komst inn í hópinn sem slíkur. Svo fékk ég að prófa rennibekk og komst að því að það er miklu meiri aksjón! Enda á ég núna tvo bekki sjálfur.“
Rennismiðir á faraldsfæti
Örn var settur formaður Félags trérennismiða Íslands nú í vor eftir tíu ár sem félagsmaður og tekur hann brýn málefni metnaðarfullum og föstum tökum. Eins og fram kemur í fréttabréfi félagsins frá í maí ákvað hann, meðal annars, að endurvekja starf frumkvöðla nokkurra er kynntu rennismíði á handverks- og bæjarhátíðum fyrr á árum – undir kjörorðunum: „Við rennum við“ og öfluðu með því framtaki fjölda nýrra félaga.
Aðspurður tekur Örn undir upplýsingar fréttabréfsins og segir að eitt sinna hugðarefna sem formaður sé að kynna rennismíðina fyrir landsbyggðinni. „Þann 31. mars sl. lögðum við Brynjólfur og Ebenezer, félagar mínir, land undir fót og héldum af stað í fyrstu kynningarferð Félags trérennismiða á Íslandi á landsvísu. Við heimsóttum bæði Akureyri og Hvammstanga, sýndum glærur er vörðuðu félagið og starfsemina. Einnig renndi ég litla skál og jólatré svona til að sýna áhugasömum hvernig þetta fer nú fram – auk þess sem farið var lítillega yfir mismunandi brýnslu og mikilvægi þess að halda sig við ákveðið kerfi.
Við Ebbi (Ebenezer) héldum svo í svipaða ferð aftur núna í september til þess að kynna félagið frekar og trérennslið sem tómstundagaman. Fórum um nánast allt Austurland, alls með fimm kynningar þar sem aðsóknin var afar góð, eða tæp 80 manns. Svo aftur á Akureyri, Hvammstanga, Ólafsvík og Stykkishólm. Þetta hefur borið ávöxt, við bættust þó nokkrir félagsmenn auk þess, til dæmis á Hvammstanga, er eldri borgara félagið að koma upp aðstöðu með rennibekkjum, tveimur eða þremur. Eldri borgara félagið á Egilsstöðum er að sama skapi með ágætis smíðaaðstöðu og eiga tvo rennibekki eins og staðan er núna. Töluverður áhugi virðist vera í fólkinu þannig ég sé fyrir mér að renna á þessa staði og halda námskeið við tækifæri. Taka þá með 1-2 rennibekki,“ segir Örn.
Þegar handverkshjartað slær
„Þó ég nefni hérna eldri borgara aðallega þá er þetta ekki síður fyrir þá sem yngri eru. Gaman er að segja frá náunga, búsettum á Írlandi, þar sem rík hefð er fyrir rennismíðinni, en hann byrjaði í þessu 16 ára og er nú um fimmtugt. Hann er mikill snillingur enda mín aðalfyrirmynd og heitir Glenn Lucas. Við, hópurinn hérna í Snúið og skorið, fórum til hans á námskeið, fjölmenntum en svo fórum við Binni (Brynjólfur) á masterclass námskeið sem var mjög áhugavert og gaman,“ segir Örn.
Austurríki, Sviss og Þýskaland eru einnig lönd þar sem menning handverks, og þá rennismíðarinnar,er gríðarlega rík og hefur Örn farið á alls fjögur námskeið í Þýskalandi. Nokkrir félagar flutu með í eitthvert skiptið, en þá lærðu þeir að gera penna. Eins og gefur að skilja er slík vinnsla afar fíngerð, og eins og hann kemst að orði þarf að eyða öllum ósiðum sem fólk hefur tekið upp með sjálfum sér. Þarna er mikill agi og nákvæmni nauðsynleg.
Auðséð er að rennismíðin lætur hjarta Arnar slá örar en það sem hann
er hrifnastur af að renna eru skálar. Þessa stundina er hann að renna brúðkaupsgjöf fyrir viðskiptavin, skálar úr hnotu, en þann efnivið kaupir hann erlendis frá. Hnotan er dýr þannig að ekki má gera mörg mistök.
Af íslenska viðnum tekur Örn reyni fram yfir annað, hann sé jafn, mjúkur og skemmtilegur til vinnslu – á meðan grenið er síst, enda kvistótt og hart. Spænirnir fara til bónda sem setur hann undir hænurnar sínar og hesta auk þess sem afsagið er nýtt sem eldiviður í kamínu sumarbústaðar Arnar. Vistvæna hringrás því um að ræða. Annars renna þeir félagar hvað það sem þá lystir hverju sinni, en nú fyrir jólin má finna, á Jólamarkaði Skógræktarfélagsins við Elliðavatn, lítil rennd jólatré eftir þá félaga, hann og Binna.
Snúið og skorið
Er kemur að rými Snúið og skorið í Dalshrauninu, passar það fullkomlega um félagana - hver bás 4x4 fm að stærð. Rennibekkirnir eiga sér þar allir sinn stað og þó stærð þeirra sé mismunandi er nægt rými fyrir eigendurna til að snúa sér í hring. Taka jafnvel nokkur dansspor. Stærðin og þá verðbilið á bekkjunum er frá um 100 þúsund krónum upp í 1,5 milljón króna. Fer þá í raun eftir hvort eigandinn sér fyrir sér að gera smáa og fínlega hluti eða þá sem meiri eru um sig. Geymslurými má svo finna fyrir ofan hvern bás þar sem sést glytta í efniviðinn.
Einn er þó básinn sem ekki hýsir rennibekk, en þar hefur aðsetur hún Anna Lilja Jónsdóttir, útskurðarmeistari staðarins. Gaman er að sjá hvernig listrænir hæfileikar hennar fá að njóta sín frá teikningu að fullgerðu verki og greinilegt að þarna er um reglulega listakonu að ræða.
Allir eru sammála um að félagsskapurinn sé góður en hann hófst fyrir tíu árum og hefur haldist jafn og þéttur síðan. Kaffistofan er á sínum stað, allir með eigið pláss, geta verið í sínu en einnig rabbað við næsta mann ef svo ber undir. Í Snúið og skorið eru allir með lykil og leigunni skipt bróðurlega á milli.
Að lokum
„Í augnablikinu eru félagsmenn í Félagi trérennismiða alls 248 yfir landið, flestir á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Örn. „Hafa félagsmenn aðgang að skemmtilegu fólki á mánaðarlegum fundi sem haldinn er í smíðadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Til viðbótar við skemmtilega fólkið hafa nokkrar verslanir gefið okkur afslátt á verkfærum og slíku,“ bætir hann við.
„Stefnt er að því að taka upp fundina og deila yfir netið svo þeir sem búa utan höfuðborgarsvæðisins geti notið þeirra líka. Við erum alltaf með fræðslu og sýnum rennsli. Nú, farin er ein dagsferð að vori, rennismiðatengd. Síðast fórum við á Stykkishólm og á Ólafsvík og heimsóttum félaga þar, til að styrkja böndin. Svo stefni ég að því að halda svokallaða rennimessu úti á landi. Við héldum eina hér í Reykjavík, en stefnum á Eyjafjörðinn. Rennimessa er í raun þannig að þá koma áhugasamir með bekkina sína og við rennum saman auk þess sem gestum og gangandi er boðið að líta inn og kynna sér hvað við höfum upp á að bjóða. Hvatning inn á við og út á við. Ég get ekki sagt annað en að hagurinn af því að vera í félaginu sé augljós og öllum velkomið að kíkja á mánaðarlegu fundina okkar,“ segir Örn Ragnarsson, formaður Félags trérennismiða, brosandi.