Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Lisa Inga Hälterlein og Skafti Vignisson tóku nýlega við búi á Brúsastöðum. Þar er rekið kúabú með tæplega 60 mjólkandi kúm og 97 hekturum af ræktarlandi.
Þau eru ekkert tengd fyrri ábúendum og spurðu að fyrra bragði hvort jörðin væri til sölu.
Lisa Inga Hälterlein og Skafti Vignisson tóku nýlega við búi á Brúsastöðum. Þar er rekið kúabú með tæplega 60 mjólkandi kúm og 97 hekturum af ræktarlandi. Þau eru ekkert tengd fyrri ábúendum og spurðu að fyrra bragði hvort jörðin væri til sölu.
Mynd / ÁL
Líf og starf 27. september 2022

Ungir bændur taka við keflinu á Brúsastöðum

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Skafti Vignisson og Lisa Inga Hälterlein tóku um síðustu áramót við búinu á Brúsastöðum í Vatnsdal. Tóku þau við af þeim Sigurði Ólafssyni og Gróu Margréti Lárusdóttur sem höfðu stundað þar búskap frá árinu 1994. Á Brúsastöðum er rekið bú með nálægt 60 mjólkurkúm sem hefur oft ratað í fréttirnar vegna árangurs.

Skafti er 33 ára, uppalinn á Höfnum á Skaga, og Lisa er 34 ára, uppalin í Slésvík-Holtsetalandi í Norður-Þýskalandi. Þau hafa búið á Blönduósi undanfarin ár þar sem Lisa starfar sem sjúkraþjálfari og Skafti var í vélavinnu.
Hugur þeirra leitaði alla tíð til landbúnaðarstarfa. Skafti útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri árið 2014 og Lisa hefur stundað hestamennsku frá æskuárum.

Íslenski hesturinn heillaði

Lisa umgekkst íslenska hesta úti í Þýskalandi sem varð til þess að vekja hjá henni áhuga á Íslandi. Fyrstu kynni hennar af landinu voru þegar hún kom í hestaferð hingað 14 ára gömul og fann þá að til Íslands þyrfti hún að koma aftur.

Árið 2008 fékk hún vinnu á hestabúgarði í Vestur-Húnavatnssýslu og dvaldi á árinu í eitt ár. Árið 2013 kemur hún aftur með það fyrir augum að setjast hér að og starfaði á hrossaræktarbúi í Austur-Húnavatnssýslu. Skafti og Lisa kynnast árið 2015 og grínast hjónaleysin með að af þeim tveimur sé Skafti mun áhugasamari um búsetu í Þýskalandi.

Brúsastaðir er kúabú með nútímalega aðstöðu, góðan kúastofn og metnaðarfulla jarðrækt. Fyrri ábúendur slógu met í afurðasemi mjólkurkúa
á sínum tíma. Mynd / Aðsend

Sveitin kallar

Fljótlega fluttu þau út á Hafnir og tóku þátt í búskapnum með fjölskyldu Skafta. Bæði voru þau búin að einsetja sér að fara í búskap, en foreldrar Skafta voru ekki tilbúin til að bregða búi og þurftu þau því að leita annað.
Heimaslóðir Lisu kallast sveit á þýskan mælikvarða og dreymdi hana alltaf um að eignast sinn eigin bæ þar sem hún gæti verið í tengslum við náttúruna og gæti ræktað sína hesta. Sjálfur segir Skafti að hann kunni best við sig við sveitastörf og hann vilji helst ekki starfa við neitt annað.

„Við höfum alltaf verið að tala um að fara út í sveit,“ segir Lisa. Samt sem áður höfðu þau ekki gert kauptilboð í neina jörð þar sem lítið sé um að bújarðir séu auglýstar til sölu á svæðinu.

Létu vaða

Árið 2020 ákvað Skafti að hringja í Sigurð, þáverandi bónda á Brúsastöðum, og athuga að fyrra bragði hvort hjónin hefðu íhugað að selja.

„Þetta kemur kannski svolítið flatt upp á fólk þegar maður spyr bara si svona hvort þetta væri til sölu,“ segir Skafti. Fljótlega eftir þetta fyrsta símtal ræddu þeir lengi saman án þess að það leiddi til nokkurs fyrst um sinn. Sumarið 2021 fór hins vegar að færast alvara yfir viðræðurnar.

Skafti og Lisa eru ekkert tengd Sigurði og Gróu. Þegar ábúendaskipti eru á bújörðum er algengast að ættingjar taki við eða einhver vandalaus kaupi eftir að jörðin hefur verið kynnt í gegnum fasteignasölu. Hins vegar er algjör undantekning að ótengdir aðilar kaupi bújörð í rekstri án þess að nokkuð hafi verið auglýst, eins og í tilfelli Brúsastaða.

„Ef maður er búinn að skoða hlutina vel og allt virðist ganga upp þá á maður bara að láta vaða,“ segir Lisa aðspurð um ráð til fólks sem vill fara sömu leið.

ÁBrúsastöðumernýlegtlausagöngufjósmeðeinumLelymjaltaþjón. Mynd/ÁL

Fjármögnunin púsluspil

Þau þurftu sjálf að sjá hvort fjárfestingin gengi upp áður en þau
púsluðu saman fjármögnuninni. Leituðu þau því til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til að reikna rekstraráætlun og skoða búskapinn frá nokkrum hliðum.

Þeir útreikningar sýndu að dæmið gengi upp og voru þau komin með gögn í hendurnar til að sýna lánastofnunum.

„Hjá okkur byrjaði þetta bara sem hugmynd. Þegar hugmyndin fór að verða að einhverri alvöru fórum við að leita að fjármagni úr öllum áttum – hjá fjölskyldu, í eignum, bönkum, Byggðastofnun og nýliðunarstyrk. Ég var ekki bjartsýn á að þetta gengi upp, en síðan náðum við með skipulagningu að finna út úr þessu,“ segir Lisa.

„Við áttum mikið í íbúðarhúsinu okkar á Blönduósi sem auðveldaði helling. Svo klórar maður saman einhverjum krónum og þetta sleppur fyrir horn,“ segir Skafti um það hvernig þeim gekk að fjármagna útborgunina.

Þau leituðu til allra banka og Byggðastofnunar til þess að fjármagna jarðarkaupin. Ferlið segja þau hafa verið flókið og krafist margra símtala. Þrátt fyrir að Byggðastofnun veiti sérstök lán til ungra bænda þá enduðu þau á að fjármagna í gegnum Landsbankann.

Endanleg ákvörðun um að þau skyldu taka við búinu um áramót kom þegar liðið var á nóvember. Því þurftu þau að hafa hraðar hendur og sex vikna biðtími eftir svari frá Byggðastofnun gekk ekki í þeirra tilfelli. „Við vorum búin að lenda í þessu hjá bankanum áður en við fengum svar frá Byggðastofnun,“ segir Lisa.

Þau segjast hafa verið heppin varðandi tímasetningu á kaupunum og telja ólíklegt að fjármögnun hefði fengist eins og ástandið er í dag. Öll aðföng, sem og vextir á lánum, hafa hækkað svo mikið að dæmið myndi ekki ganga upp.

Með ábúendaskiptum á Brúsastöðum hefur samfélagið í Vatnsdalnum fengið til liðs við sig ungt fjölskyldufólk. Börn Skafta og Lisu eru þrjú, Ingimar Emil, 5 ára, Anton, Þór 4 ára og Eyrún Alma, 1 árs. Mynd / Aðsend

Umskiptin tóku nokkrar vikur

Skafti og Lisa tóku formlega við búinu 1. janúar síðastliðinn en umskiptin áttu sér stað yfir nokkrar vikur. Sigurður og Gróa héldu til í gestahúsi skammt frá bænum og þjálfuðu nýju bændurna þangað til þau fluttu yfir á Akureyri í febrúar. Fyrst um sinn héldu Skafti og Lisa til í húsnæðinu sínu á Blönduósi, en um miðjan janúar fluttu þau alfarið á Brúsastaði.

„Það var allt til alls til að búa,“ segir Skafti. Íbúðarhúsið var allt tekið í gegn fyrir nokkrum árum og öll aðstaðan í fjósinu mjög góð. Á jörðinni eru 97 hektarar af túnum sem fyrri ábúendur höfðu lagt mikla áherslu á að halda í góðri rækt.

Fyrstu mánuðir gengu vel

Þau segjast ekki hafa lent í neinum alvarlegum skakkaföllum þessa fyrstu mánuði eftir að þau tóku við búinu, þó auðvitað séu alltaf einhver óvænt verkefni sem þurfi að leysa. Úrlausnarefni eins og júgurbólga, súrdoði eða burðarvandamál komu upp öðru hverju, en það er eðlilegur hluti af kúabúskap.

Þau segja erfitt að segja til um hvernig gangi. „Mig langar bara til að komast í gegnum fyrsta árið og taka svo stöðuna,“ segir Lisa. Þau búast samt ekki við öðru en að reksturinn lukkist ef þau halda vel á spöðunum og fara ekki fram úr sér í fjárfestingum.

Þau eru ekki alveg sammála hvort þau finni fyrir einhverjum þrýstingi þar sem þau eru að taka við einu afurðahæsta búi landsins. Skafti lætur það lítið á sig fá, en Lisa segir að það sé alltaf ákveðin pressa að halda uppi jafn góðum búskaparháttum og voru hjá fyrri bændum.

Þau eiga erfitt með að sjá fyrir hvernig búskapurinn muni þróast á næstu árum. Það sé svo mikill óstöðugleiki í greininni um þessar mundir þegar aðföngin hækka gífurlega hratt. Sem betur fer séu allir þeir sem þau versla við liðlegir varðandi reikninga og greiðslur. „Það er bara að hringja áður en maður er kominn í vandræði,“ segir Skafti.

Yngstu ábúendurnir hafa áhuga á bústörfum. Mynd / Aðsend
Fljót að læra á kýr

„Ég hafði aldrei komið nálægt kúm áður en við tókum við hérna,“ viðurkennir Lisa og segist hafa þurft að læra allt frá byrjun. Kýr séu samt sem áður afar áhugavert viðfangsefni sem hægt er að sökkva sér í.

Margar forvitnilegar hliðar séu á kúabúskap, hvort sem það er spenastig, júgurbólga eða kynbætur og gefandi sé að velta fyrir sér hvernig hægt er að ná betri árangri.

Samfélag gott

Gróskumikið samfélag er í Vatnsdalnum og segjast Skafti og Lisa vera mjög heppin með nágranna í allar áttir. Samvinnan er góð og stökkva allir til ef þörf er á aðstoð. Flestir bændurnir í sveitinni eru sauðfjárbændur, en á Brúsastöðum eru einungis nautgripir og nokkrir hestar. Þau búast við því að missa úr félagslega þættinum sem fylgir sauðfé, sérstaklega réttum og smalamennsku, en reyna að taka þátt og hjálpa eins og þau geta.

Í dalnum eru tvö önnur kúabú og hafa þau fengið stuðning og kennslu frá bændunum þar. „Í hvert skipti sem það er eitthvað óljóst hringi ég í Maríönnu,“ segir Lisa, en hún er kúabóndi á Hnjúki skammt frá Brúsastöðum.

Skafti og Lisa eiga þrjú börn – Ingimar Emil, 5 ára, Anton Þór, 4 ára og Eyrúnu Ölmu, 1 árs. Yngri börnin tvö eru á leikskóla á Húnavöllum og er elsti strákurinn kominn í grunnskóla á Blönduósi.

Skylt efni: ungir bændur

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...