Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Bjarni Guðmundsson með Nordland-handsáðvél fyrir grasfræ og fleira. Mynd / Björn Þorsteinsson.
Bjarni Guðmundsson með Nordland-handsáðvél fyrir grasfræ og fleira. Mynd / Björn Þorsteinsson.
Líf og starf 30. október 2020

Yrkja vildi eg jörð

Höfundur: Vilmundur Hansen

Bjarni Guðmundsson, áður prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, hefur sent frá sér bókina Yrkja vildi eg jörð, sem er þriðja bókin í röðinni um íslenska landbúnaðarhætti. Í bókinni er fjallað um jarðrækt á Íslandi, vinnubrögð og verkfæri til ræktunar fóðurs fyrir búfé, túnasléttun, framræslu og mörgu fleiri sem snertir ræktunarhætti á Íslandi.

Bjarni er höfundur nokkurra bóka sem tengjast sögu landbúnaðar á Íslandi. Þar á meðal eru ævisaga Halldórs Vilhjálmssonar, skólastjóra á Hvanneyri, Og svo kom Ferguson, Alltaf er Farmall fremstur, Frá hestum til hestafla, sem fjalla um vélvæðingu til sveita og einnar sem kallast Konur breyttu búháttum og er saga Mjólkurskólans á Hvanneyri og Hvítárvöllum. Hann er einnig höfundur þriggja bóka um íslenska landbúnaðarhætti; Íslenskir sláttuhættir, Íslenskir heyskaparhættir og nú síðast Yrkja vildi eg jörð.

Í bókinni er fjöldi ljósmynda sem sýnir þróun ræktunar og skýringateikningar eftir Bjarna.

Mest af nýræktun túna á seinni hluta 20. aldar var unnið með jarðýtum í félagseign bænda. Hér er unnið að jöfnun ruðninga og kýfingu framræsts lands á Hvanneyri um 1960. Mynd / Magnús Óskarsson.

Sveitamaður í eðli sínu

Bjarni segist vera íhaldssamur sveitamaður í eðli sínu og kynnst sveitastörfum sem barn og þegar verkhættir fóru að breytast og vélvæðast. „Eftir að ég hóf kennslu og rannsóknir fór ekki hjá því að ég kíkti stundum til baka og vildi átta mig á því hvert stefndi og þannig féll til ýmislegt efni sem ég hef raðað til og rannsakað frekar. Það má því segja að bækurnar séu framhald af því sem ég hef haft að meginstarfi þó að allmikill tími hafi farið í að skoða heimildir og vinna úr gögnum, enda aðstaða til þess mjög góð í bóka- og gagnasöfnum hér á Hvanneyri.“

Hann segir að á Hvanneyri sé meðal annars að finna gagnasafn verkfæranefndar ríkisins sem var forveri bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. „Ólafur Guðmundsson, forstöðumaður verkfæranefndarinnar, tók mikið af ljósmyndum sem hafa ratað inn í bækurnar mínar. Auk þess sem í safninu eru fjölmörg gögn um tækni- og verkþróum í landbúnaði. Mig langar líka að minnast á bókasafn Tómasar Helgasonar og Vigdísar Björnsdóttur sem Hvanneyrarskóli fékk að gjöf á 100 ára afmæli sínu og er sennilega heildstæðasta landbúnaðarbókasafn á landinu. Þannig að ég hef haft ljómandi góða aðstöðu til að vinna að bókunum.

Eiginkona mín, Ásdís B. Geirdal, hefur líka stutt mig vel og þolað þessa sérvisku mína og gefið mér tækifæri til að sinna skrifunum. Ég hef líka notið þeirra gæfu að vera góður til heilsunnar og notið þess að sinna þessum verkefnum,“ segir Bjarni.

Sjálfbærni við landnám

Þrátt fyrir að þekkja viðfangsefni nýju bókarinnar segir Bjarni að það hafi eitt og annað komið sér á óvart við vinnslu hennar. „Að hluta er það líklega vegna þess að ég ólst í skólum upp við einhverjar sögur og bækur, sem eru ágætar í sjálfu sér, um þróun landbúnaðar og þá einkanlega félags- og hagsögu greinarinnar. Svo þegar maður fer að kíkja á bakvið sér maður að margt var öðruvísi en af var látið. Það sem ég hef orðið mest hissa á þrátt fyrir allt er hve mikið við höfum tileinkað okkur af erlendri þróun og fylgst vel með hvað hefur verið að gerast í útlöndum.

Fornir túngarðar eru minjar um ræktun fyrr á öldum. Myndin er úr Tungunni í Svarfaðardal. Mynd / Árni Einarsson.

Það kom mér einnig á óvart að í elstu lögum landsins, Grágás og Jónsbók, er að finna stórmerkileg lagaákvæði sem sýna að menn höfðu mikinn og djúpan skilning á ýmsu sem laut að meðferð landsins og ræktun þess. Til dæmis eins og segir hvernig beri að fara með land svo ekki skemmist og hvernig beri að fara með land svo að sem flestir geti notið þess. Það sýnir að við landnám var til staðar býsna mikil þekking og næmur skilningur á því sem í dag kallast sjálfbærni.“

Framfaraskot samhliða vélvæðingu

„Þróun í vélvæðingu landbúnaðar á Íslandi hefur verið nokkuð jöfn eftir að umbætur hófust að einhverju ráði á 18. öld þrátt fyrir breytilegt árferði og sveiflur í efnahag. Þegar kemur fram í byrjun 20. aldar breyttist mikið og þegar fyrstu vélarnar koma til lands eftir 1920 varð talsvert framfaraskot.

Áveituskurður á Söndum í Dýrafirði en áveitur voru allútbreiddur ræktunarháttur fyrr á tímum. Mynd / Bjarni Guðmundsson.

Einstök verkfæri eins og til dæmis norski skerpiplógurinn sem kom til landsins upp úr 1950 naut mikilla vinsælda; það vildu allir eignast plóginn og ekkert land í heiminum sem flutti inn eins mikið af skerpiplógum og Ísland. Svo eftir nokkurra ára notkun fundu menn út að plógurinn var ofnotaður og misnotaður. Menn lögðu hann því til hliðar og tóku til við næsta verkfæri sem var jarðtætarinn. Í framhaldi af því kepptust bændur við að komast yfir tætara og hættu að plægja. Svona bylgjur má sjá innan um í tæknivæðingunni og er eitt af því sem virðist einkenna íslenskt þjóðlíf en ekki bara landbúnaðinn enda Íslendingar vertíðar- og ákafafólk.

Mikið af aðlögun erlendra aðferða að íslenskum aðstæðum gerðist með reynsluvísindum og hyggjuviti en sárafáum og satt best að segja óþægilega fáum rannsóknum. Þannig er ekki undarlegt að eitthvað hafi misfarist, eins og þegar kalið skall á á árunum milli 1965 og 1970 og menn fundu síðar að sumar af orsökum þess mátti rekja til lélegra eða rangra ræktunarhátta.

Með jarðtætaranum og heimilisdráttarvélinni gátu bændur sjálfir fullunnið land til túna; jarðtætarinn vék þó fyrir hentugri gerðum vélknúinna herfa, sem og plógnum er leið að lokum 20. aldar. Mynd / Jón Ólafur Guðmundsson.

Sem betur fer hefur margt færst til betri vegar á seinni árum og jarðræktin hjá mörgum bændum er orðin góð og vönduð og til fyrirmyndar víða,“ segir Bjarni.

Endurheimt votlendis og skógrækt

„Þegar kemur að umræðunni endurheimt votlendis og að fylla upp í skurði, sem ég tel að mörgu leyti góða, er að þegar sú bylting átti sér stað var þurrkun votlendis og mýra ekki gerð af illmennsku gegn landinu. Á þeim tíma var hrópað eftir aukinni matvælaframleiðslu og ódýrari vörum; líka ræktun láglendis til þess að létta beit af afréttum. Vinnuaflið sem áður hafði verið til sveita var flutt í þéttbýlið til annarra atvinnuvega.

Framræsla votlendisins var leið bænda til að losna undan erfiðum og tímafrekum engjaheyskap. Það má því segja að með framræslu votlendis hafi bændur verið að mæta þáverandi þörf í samfélaginu með þeirri þekkingu sem þá lá fyrir og í ljósi viðhorfa er þá ríktu. Hins vegar var vissulega gengið harðar fram í framkvæmdinni en ástæða stóð til.
Vitanlega gerðu menn mistök en við skulum gæta okkar á því að dæma ekki eingöngu með kvarða dagsins.

Í dag viljum við rækta skóg út um allt land en ég ætla ekki að verða hissa þó að eftir 20 til 30 ár verði sett spurningarmerki við eitthvað af þeirri skógrækt þrátt fyrir að skógræktin í heild sinni sé hið besta mál.

Bjartsýnn á framtíðina

Þegar Bjarni er spurður hvort hann vilji spá um framtíð jarðræktar á Íslandi er hann fljótur til og segir: „Helst ekki. „Ekki nema það sem lýtur að þætti þekkingarinnar. Ég hef svo sem ekki nokkrar áhyggjur af því ef menn halda áfram að afla sér þekkingar og nýta hana með markvissum hætti og þá markvissari hætti en oft var gert á síðustu öld. Þá getur framtíðin ekki verið annað en björt. Ég óska þess einnig að okkur takist að auka fjölbreytni ræktunarinnar, til dæmis með því að koma upp skjólrækt í meira mæli en nú er.“

Beðasléttun var ræktunartækni fyrsta skeiðs nútíma túnræktar hérlendis. Hún átti sér erlenda fyrirmynd en breiddist mjög út fyrir áhrif búnaðarskólanna. Í bókinni er sagt frá athugunum á gömlum beðasléttum. Teikning / Bjarni Guðmundsson.

Kennsla og Landbúnaðarsafn Íslands

Bjarni var ráðinn til bútæknideildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og kennslu á Hvanneyri árið 1971 og hann segist síðan hafa kennt við skólann þar mest alla sína tíð. Hann er búfræðingur og búfræðikandidat frá Hvanneyri og að því námi loknu fór Bjarni til náms við landbúnaðarháskólann á Ási í Noregi og lauk þaðan doktorsgráðu í bútæknifræðum með áherslu á fóðurverkun og þurrkun og geymslu heys og korns.

Að sögn Bjarna var árið 1940 settur á fót vísir að landbúnaðarsafni en það lá í láginni og því var lítið sinnt í fjölmörg ár þar til að hann fór að skipta sér af safninu með aðstoð margra á árunum 1976–1977. Það átak endaði með því að árið 2008 varð til á Hvanneyri sjálfseignarstofnunin Landbúnaðarsafn Íslands og starfaði Bjarni við safnið til ársins 2017.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...