„Mér hefur oft blöskrað ástandið á landinu í nágrenni höfuðborgarinnar“
„Ég starfa nú sem líffræðikennari við Menntaskólann við Hamrahlíð en hef lengst af verið viðloðandi háskólakennslu. Áhugi minn á náttúru Íslands nær langt aftur og hefur samtvinnast við útivistaráhuga.
Mér hefur oft blöskrað ástandið á landinu í nágrenni höfuðborgarinnar sem víða er tötrum klætt eftir ósjálfbæra landnýtingu fyrri alda,“ segir Atli Jósefsson náttúrufræðingur.
„Flestir borgarbúar telja víst að flagmóar og melaskotnar mosaþembur á Mosfellsheiði séu náttúrulegt ástand gróðurs. Líklega hefur þetta svæði verið klætt birkiskógi við landnám og ég tel að við skuldum sjálfum okkur það að reyna að endurheimta hluta af fyrri landgæðum. Þar sem opinberir aðilar hafa ekki aðhafst mikið ákvað ég að fara af stað með mitt eigið verkefni með von um að það verði öðrum hvatning þó ekki sé það stórt í sniðum,“ segir Atli. Verkefni hans hefur vakið athygli enda ekki mikið um að einstaklingar taki að sér svona stórt svæði til uppgræðslu í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið.
Bakkaplanta komin í jörð. Grjót til varnar frostlyftingu.
Fjármagnar verkefnið sjálfur
Verkefni Atla miðar að því að endurheimta birkiskóga á Elliðakotsheiði (suðvesturhluta grágrýtisdyngjunnar, sem almennt er kölluð Mosfellsheiði). Í dag einkennist landið af gamburmosabreiðum, melum og mólendi en heimildir eru um að þar hafi vaxið birkiskógur á öldum áður og leifar hans til staðar allt fram yfir aldamótin 1800. Land þetta er innan fjárgirðingar höfuðborgarsvæðisins og hefur Atli fengið góðfúslegt leyfi landeigenda til landbóta á svæðinu. Stefnan er að notast eingöngu við íslenskar lykiltegundir, birki, gul- og loðvíði, auk uppgræðslufræja fyrir melana.
„Nú þegar hef ég sáð um tíu skókössum af birkifræi, stungið niður um 1.000 víðigræðlingum og gróðursett rúmlega 500 birkiplöntur. Stefnan er að gróðursetja 1.000 birkitré á næsta ári en minna verður um fræ þar sem árið í ár var ekki gott fræmyndunarár hjá birki.
Ef allt gengur vel munu þessi tré vera farin að mynda fræ sjálf áður en áratugurinn er úti og taka þannig við verkinu af mér. Verkefnið er alfarið fjármagnað af mér með stuðningi góðra vina,“ segir Atli stoltur.
Gulvíðigræðlingur í ágúst, sem stungið var niður í rofdíl í maí.
Spírandi uppgræðslufræ á mel. Síðar mun Atli dreifa birkifræjum á svæðinu.