Gauragangur í Þingeyjarsveitinni
Liðsmenn Leikdeildar Eflingar heldur úti leiklistarstarfi í Reykjadal í Þingeyjarsveit en nú í nóvember hófu þau æfingar á verkinu Gauragangi eftir Ólaf Hauk Símonarson.
Sagan gamalkunna fjallar um hetjuna hann Orm Óðinsson, nemanda á síðasta ári í gagnfræðaskóla, lífsviðhorf hans, upplifanir og öflugt félagslíf.
Kitlar taugar margra
Var bókin um Orm útgefin í fyrsta skipti árið 1988 og naut mikillar hylli enda kitlaði söguhetjan taugar margra. Á það við jafnt ungra sem aldinna og geta eflaust einhverjir enn þann dag í dag sett sig í spor þessa gæðings sem er að feta fyrstu spor sín í átt til fullorðinsáranna. Ólafur Haukur gaf í kjölfarið út sjálfstætt framhald sögunnar, Meiri gauragangur, sem einnig átti vel upp á pallborðið hjá lesendum. Er leikverkið sem slíkt einnig afar vinsælt og verður gaman að sjá tilþrifin sem Leikdeild Eflingar býður upp á nú í febrúar.
Þarna stíga á svið bæði gamalreyndir meðlimir áhugaleikhússins auk nokkurra nemenda framhaldsskólans, en að verkinu koma upp undir 20-30 manns sem bæði vinna fyrir framan og bak við tjöldin, og leikstjóri er hún Jenný Lára Arnardóttir.
Stefnt er á frumsýningu fyrstu eða aðra helgina í febrúar og því mikil spenna í lofti, bæði hjá þeim sem bregða sér í hlutverkin svo og þeim er munu á horfa.
Setið í hring
Skemmtilegt er að segja frá því að í stað hefðbundins leiksviðs verður uppsetningin á nýstárlegan hátt, sitja gestir í hring, við borð – kvenfélagið býður upp á vöfflukaffi – en leikendur láta ljós sitt skína inni í hringnum.
Sýnt verður á Breiðumýri að venju, og áætlaðar eru um tíu sýningar. Miða er hægt að kaupa í gegnum tölvupóst og síma og verður auglýst þegar nær dregur og um að gera að festa sér einn slíkan sem allra fyrst.