Hér má sjá aðra kynslóð Skoda Kodiaq jepplinganna. Þetta er vel útbúinn og vandaður bíll með miklu rými. Ættarsvipurinn með öðrum Skoda er skýr, en
línurnar eru orðnar mýkri en áður.
Hér má sjá aðra kynslóð Skoda Kodiaq jepplinganna. Þetta er vel útbúinn og vandaður bíll með miklu rými. Ættarsvipurinn með öðrum Skoda er skýr, en línurnar eru orðnar mýkri en áður.
Mynd / ál
Vélabásinn 27. mars 2025

Tékkarnir klikka ekki

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu nýja kynslóð af hinum vinsælu Skoda Kodiaq, sem er stór og rúmgóður jepplingur með hefðbundinni dísilvél.

Fyrsta kynslóðin af Kodiaq er með mjög afgerandi útlit, með skörpum línum og hvössum hornum. Útlit annarrar kynslóðarinnar er hins vegar orðið mun mýkra og hefur Kodiaq í huga undirritaðs misst aðeins af karakternum. Það fer hins vegar ekki á milli mála að þetta er Skoda, enda fjölskyldusvipurinn sterkur.

Innrétting á pari við lúxusbíla

Þegar stigið er um borð tekur við nútímaleg og vönduð innrétting. Hart plast er í mjög litlum mæli og flest úr mjúkum efnum eða plasti með áhugaverðri áferð. Í miðju mælaborðinu er stór snertiskjár. Stýrikerfið er eins og í öðrum nýjum bílum frá Volkswagensamsteypunni. Það er nokkuð auðvelt að átta sig á því og er grafíkin falleg.

Neðar í mælaborðinu eru þrír snúningstakkar. Takkinn í miðjunni hefur ýmis hlutverk og þarf að flétta á milli þeirra. Takkarnir beggja vegna við hann eru til að stilla hita og virkja hita í sætum fyrir ökumann annars vegar og farþega hins vegar. Jákvætt er að hafa einhverja takka, enda mörgum ekki um geð að reiða sig alfarið á snertiskjá fyrir einfaldar skipanir.

Þægileg leðursæti eru staðalbúnaður.

Miðjustokkur nýtist vel

Nóg er af tökkum í stýrinu, bæði fyrir útvarp, akstursaðstoð, aksturstölvu og hita í stýrið. Á bak við stýrið eru þrjár stangir. Tvær eru þessar hefðbundnu fyrir stefnuljós, rúðuþurrkur og þess háttar og er ein gírstöng af svipuðum meiði og er í nýjustu rafbílunum frá Skoda og Volkswagen.

Með þessu nýtist plássið í miðjustokknum betur fyrir geymslupláss. Þar eru tvær þráðlausar hraðhleðslustöðvar fyrir síma, glasahaldarar og djúpt hólf undir armhvílunni.

Þrír fullorðnir geta vel við unað í aftursætunum.

Fyrirhafnarlaust aðgengi

Hæðin á sætunum er á þann veg að það krefst nánast engrar fyrirhafnar að tylla sér um borð. Framsætin í bílnum eru einstaklega þægileg þar sem þau eru stór og veita mikinn stuðning á allar hliðar og er hægt að lengja sessuna. Þau eru nokkuð stíf miðað við marga bíla, en þar sem þau eru vel formuð og stillanleg á fjölmarga vegu kemur það ekki að sök. Hægt er að draga stýrið vel út sem hentar fyrir þá sem vilja sitja aftarlega. Ökumannssætið er rafknúið, en farþegasætið fram í er stillt með handafli í þessari útfærslu. Leðurklædd sæti eru staðalbúnaður.

Í aftursætunum er gífurlega mikið pláss, jafnvel þó svo að framsætin séu í öftustu stöðu. Hávaxnir geta teygt álkuna og er ekki þrengt að fótum eða öxlum. Í afturhurðunum eru innbyggð sólskyggni sem er fyrirhafnarlaust að draga fyrir. Gott aðgengi er að Iso-Fix festingum í tveimur aftursætum.

Skotthlerinn er rafknúinn og er farangursrýmið með stærsta móti, eins og við er að búast í Skoda. Undir gólfinu er varadekk í fullri stærð. Þar sem gólfið er nokkuð neðarlega flúttir það ekki við skotthlerann eða aftursætin þegar þau eru lögð niður.

Jepplingurinn er fjórhjóladrifinn og með ágætri veghæð.

Eldsnögg sjálfskipting

Aksturseiginleikum bílsins er helst hægt að lýsa sem hefðbundnum. Fjöðrunin er þægilega mjúk og þar sem bíllinn er nokkuð hár fer hann fyrirhafnarlaust yfir flestar hraðahindranir. Veghæðin kemur jafnframt að góðum notum á malarvegum og slóðum þar sem hefðbundnir fólksbílar myndu lenda í vanda.

Bíllinn er fljótur að ná upp hraða og merkilega snöggur miðað við dísilbíl. Þar spilar sjálfskiptingin stórt hlutverk, en skiptingarnar eru eldsnöggar. Hljóðvistin er góð á hvaða aksturshraða sem er, en þar sem þetta er dísilbíll er alltaf smá titringur og ómur frá vélinni. Akstursaðstoðin skilar sínu vel og stýrir bíllinn og heldur fjarlægð frá næsta ökutæki af öryggi, nema í erfiðum aðstæðum eins og þegar ekið er inn í hringtorg.

Að lokum

Skoda höfðar með þessum bíl til þeirra sem vilja hefðbundna bíla með öllu sem flestir þurfa, miklu rými og engu kjaftæði. Sá jepplingur sem er sambærilegastur við þennan er Kia Sorento með dísilvél og er nánast ómögulegt að gera upp á milli þeirra.

Skoda Kodiaq með tveggja lítra dísilvél kostar frá 9.590.000 í Selection útgáfu, en það er sú útgáfa sem tekin var fyrir hér. Þar fyrir ofan eru Style og Sportline útgáfur með meira af staðalbúnaði. Þá er jafnframt hægt að fá tengitvinnbíla með 1,5 lítra bensínvél og 18 kílóvattstunda rafhlöðu. Dísilvélin er með 193 hestöfl, fjórhjóladrif og 2,3 tonna dráttargetu. Nánari upplýsingar fást hjá Heklu bílaumboði.

Tékkarnir klikka ekki
Vélabásinn 27. mars 2025

Tékkarnir klikka ekki

Bændablaðið fékk til prufu nýja kynslóð af hinum vinsælu Skoda Kodiaq, sem er st...

Áður óþekkt tegund fundin
Vélabásinn 13. febrúar 2025

Áður óþekkt tegund fundin

Bændablaðið fékk til prufu dýrustu útgáfu Xpeng G9 sem nefnist Performance. Hér ...

Alvöru fjallajeppi
Vélabásinn 30. janúar 2025

Alvöru fjallajeppi

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu kynslóð hinna vinsælu Land Cruiser-jeppa frá ...

Eftirminnilegustu tæki ársins
Vélabásinn 16. janúar 2025

Eftirminnilegustu tæki ársins

Á síðasta ári voru 22 tæki tekin fyrir í Vélabásnum hjá Bændablaðinu. Hérna verð...

Ekkert kjaftæði hér
Vélabásinn 2. janúar 2025

Ekkert kjaftæði hér

Bændablaðið fékk til prufu nýjan Dacia Duster í Extreme-útfærslu. Hér er á ferði...

Flytur fjölskyldur með stæl
Vélabásinn 13. desember 2024

Flytur fjölskyldur með stæl

Hér er á ferðinni nýr rafmagnsbíll frá Renault sem hefur fengið mikið lof hjá ev...

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...