16% minni afli en á síðasta ári en verð hærra
Alls stunduðu 250 bátar grásleppuveiðar á nýlokinni grásleppuvertíð. Heildaraflinn í ár var 4.542 tonn sem er 16% minni afli en á vertíðinni í fyrra.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, sagði í samtali við Bændablaðið að vertíðin í ár hafi staðið frá 20. mars til 14. ágúst og að veiðidagar í ár hafi verið óvenju margir.
„Landinu er skipt í átta veiðisvæði og hafði hver bátur leyfi til að stunda veiði í 46 daga samfellt á sínu svæði en undanfarin ár hafa þeir verið 32.“
Veiði undir meðallagi
Að sögn Arnar var veiði á vertíðinni misjöfn eftir svæðum. „Víða var hún léleg, og þegar á heildina er litið er veiðin nokkuð undir meðaltali.
Langmestu var landað í Stykkishólmi, 919 tonnum. Næstmest var landað á Bakkafirði, 294 tonn, og á Drangsnesi 290 tonn sem er tæpur helmingur þess sem var á vertíðinni í fyrra.“
Verð hærra en í fyrra
Örn segir að Landssamband smábátaeigenda hafi ávallt brýnt fyrir grásleppukörlum að veiða ekki umfram það sem þeir hafa markað fyrir, þannig að komið verði í veg fyrir offramboð.
„Á síðasta ári var veiði undir eftirspurn og skilaði það verðhækkun. Sú verðhækkun hefur gengið eftir á helstu mörkuðum fyrir grásleppukavíar. Grásleppan er ein fárra fisktegunda sem skilar hærra verði til sjómanna í ár en í fyrra.“