Afkoma garðyrkjubænda hefur almennt versnað
Í nýlegri rekstrargreiningu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins á garðyrkju á Íslandi 2019 til 2021 segir að afkoma greinarinnar hafi almennt versnað á tímabilinu. EBITHDA, sem hlutfall af veltu, stendur í stað hjá kartöflubændum en lækkar mikið í ylræktinni.
Samkvæmt greiningunni versnaði afkoma þeirra garðyrkjubænda sem tóku þátt í verkefninu á þeim þremur árum sem greiningin fór fram.
Allur kostnaður hækkað
Fastur kostnaður hækkaði mikið á tímabilinu og mest á liðunum rafmagn og vatn, eða um 77%. Breytilegur kostnaður sem krónur á hektara hækkar töluvert milli áranna 2019 og 2020 en lækkar heldur árið 2021 þannig að hækkunin er um 8% á þessu þriggja ára tímabili.
Afkoma versnaði bæði í yl- og kartöflurækt en mikil hækkun á jarðræktarstyrk kemur í veg fyrir enn verri afkomu þeirra sem hann fá.
Hópurinn sem vann að greiningunni er sammála um að nauðsynlegt sé að halda greiningunni áfram og fjölga þeim sem taka þátt í verkefninu til þess að hægt sé að fá enn fyllri mynd af stöðu greinarinnar. Einnig benda þeir á að útvíkka megi verkefnið og taka inn fleiri tegundir grænmetis í útiræktun og blóm og gera greininguna að enn öflugra verkfæri fyrir framleiðendur og greinina.
Sjá nánar á blaðsíðu bls. 48–49. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins