Áhyggjufullir vegna sýklalyfjanotkunar í landbúnaði í Bandaríkjunum
Einn af möguleikum Breta eftir að úrsögn þeirra úr Evrópusambandinu tekur að fullu gildi er að flytja inn landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af slíkum innflutningi út frá lýðheilsusjónarmiðum.
Notkun á sýklalyfjum sem vaxtarhormóns í Bandaríkjum Norður-Ameríku er mun meiri í Evrópu og á Bretlandseyjum. Að öllu jöfnu er talið að notkun á sýklalyfjum sem vaxtarhormóns sé fimm sinnum meiri í Bandaríkjunum en á Bretlandseyjum. Notkunin er misjöfn milli búfjárstofna og mest er hún í nautgriparækt, eða sextán sinnum meiri og dæmi um að hún hafi verið þrjátíu sinnum meiri í Bandaríkjunum en á Bretlandseyjum. Notkun sýklalyfja í kjúklingarækt er þrisvar sinnum meiri, sex sinnum meiri í svínarækt og fimm sinnum meiri í kalkúnaeldi í Bandaríkjunum en í Bretlandi. Notkun á sýklalyfjum sem vaxtarhormóns er bönnuð á Íslandi.
Innflutningur á nautakjöti frá Bandaríkjunum er bannaður víðast í Evrópu vegna þessa.
Mikil notkun á sýklalyfjum í landbúnaði sem vaxtarhormóns og hættan á útbreiðslu á sýklalyfjaónæmum bakteríum er eitt af stærstu yfirvofandi heilbrigðisvandamálum heimsins í dag, að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og fleiri aðila sem láta sig lýðheilsumál varða.
Eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu standa Bretar í samningaviðræðum við Evrópusambandið um áframhaldandi innflutning á matvælum til landsins. Einnig eru Bretar að skoða möguleika á því að flytja inn landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum.
Ekki eru allir á eitt sáttir við að gerðir verði samningar við Bandaríkin um innflutning landbúnaðarvara og bera fyrir sig lýðheilsusjónarmiðum og segja hættuna á sýkingu og jafnvel faraldri af völdum sýklalyfjaónæmra baktería vera of mikla.