Allt að 70% atvinnuleysi ungs fólks í sumum héruðum á Spáni
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á meðan atvinnuástand er orðið nokkuð gott á sumum svæðum innan Evrópusambandsins, sértaklega í Þýskalandi, er það enn afleitt á öðrum svæðum. Var atvinnuleysið frá 2,1% til allt að 31,3% að meðaltali inna ESB-ríkjanna í lok árs 2016.
Meðaltal atvinnuleysis innan ESB-ríkjanna var 8,6% samkvæmt úttekt Eurostat sem birt var 27. apríl síðastliðinn. Atvinnuleysi ungs fólks rokkaði hins vegar á bilinu 4% til 70%.
Staða ungs fólks víða hrikaleg
Atvinnustaða ungs fólks á aldrinum 15 til 24 ára er enn víða skelfileg. Verst er staða þessa hóps í Ciudad Autónoma de Melilla á Spáni, en þar mældist atvinnuleysið 69,1%, 63,3% í Autónoma de Ceuta-héraði og 57,9% í Andalúsíu á Spáni. Þá er atvinnuleysi ungs fólks einnig mjög mikið, eða á milli 52 til 60% í þrem héruðum í Grikklandi, þrem héruðum á Ítalíu og í Mayotte-héraði í Frakklandi.
Ólík staða hjá þýskum og breskum ungmennum að hluta
Á sama tíma býr ungt fólk í níu héruðum í Þýskalandi aðeins við 4,3 til 6,9% atvinnuleysi. Þá er staða þessa hóps í Berks-, Buckingham- og Oxfordskíri í Bretlandi tiltölulega góð, eða 6,6% atvinuleysi.
Enn afleit staða í Grikklandi og á Spáni
Þegar horft er á svæðisbundið meðaltalsatvinnuleysi allra aldurshópa er staðan verst í Dytiki Makedonia í Grikklandi, eða 31,3%. Þar á eftir kemur Ciudad Autónoma de Melilla á Spáni með 30,8% atvinnuleysi og Dytiki Ellada í Grikklandi með 29,8%. Síðan kemur Andalúsía á Spáni með 28,9% atvinnuleysi, Extreamdura á Spáni með 27,5%, Mayotte í Frakklandi með 27,1%, Kanaríeyjar (Spánn) með 26,1%, Thessalia-hérað í Grikklandi með 25,5%, Sterea Ellada í Grikklandi með 25% og Ciudad Autónoma de Ceuta á Spáni með 24,9% atvinnuleysi.
Best er atvinnustaðan í ESB ríkjunum í Þýskalandi
Best er atvinnustaðan samkvæmt úttekt Eurostat í 7 héruðum í Þýskalandi með þá á bilinu 2,1 til 2,7% atvinnuleysi. Í Prag-héraði í Tékklandi er meðaltalsatvinnuleysið 2,2% og 2,7% í Nyugat-Dunántúl héraði í Ungverjalandi og það sama átti við um Berks-, Buckingham- og Oxfordskíri í Bretlandi.