Ástæðan fyrir útbreiðslu Ebólu?
Sett hefur verið fram sú tilgáta að eyðing skóga í vestanverðri Afríku hafi verið ástæðan fyrir Ebólufaraldrinum sem geisaði á svæðinu síðari hluta árs 2014.
Samkvæmt tilgátunni leiddi eyðing skóga í Vestur-Afríku til þess að búsvæði ávaxtaleðurblaka hafi verið eyðilögð og vegna þess hafi þær leitað fæðu og skjóls í mannabústöðum. Vitað er að umræddar leðurblökur bera í sér Ebólavírusinn og að hann getur borist úr þeim í menn.
Gríðarlegt skóglendi hefur verið fellt í löndum Vestur-Afríku eins og Gíneu, Síerra Leóne, Líberíu, Fílabeinsströndinni og Gíneu Bissá. Allt lönd þar sem Ebólufaraldurinn skall á með miklum þunga. Skógar hafa verið felldir til að ryðja landi fyrir matvælaframleiðslu, námuvinnslu og til útflutnings á harðviði.