Athyglisverður árangur í hrossarækt
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Ellefu hrossaræktarbú eru tilnefnd til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, ræktunarmaður ársins. Valið stóð á milli 62 búa eða aðila sem náð höfðu athyglisverðum árangri á árinu.
Aðstandendur hrossaræktarbúanna munu hljóta viðurkenningar á ráðstefnunni Hrossarækt 2017 sem haldin verður í Harðarbóli, félagsheimili hestamannafélagsins Harðar, laugardaginn 28. október næstkomandi. Ræktunarmaður/menn ársins verða svo verðlaunaðir á Uppskeruhátíð hestamanna sem haldin verður á Hilton Reykjavík Nordica um kvöldið.
Til að afmarka val ræktunarbúa eru fyrst tilgreind öll hrossaræktarbú eða aðilar sem sýnt hafa fjögur eða fleiri hross í fullnaðardómi á árinu, eða er fram kemur í tilkynningu frá Fagráði í hrossarækt.
Að auki verða minnst tvö að hafa náð aðaleinkunn 8,0 eða hærra. Aðaleinkunnir hrossanna eru þá leiðréttar fyrir aldri og kyni líkt og gert er við útreikning á kynbótamatinu.
Þá er búum/aðilum raðað upp eftir fjölda sýndra hrossa og leiðréttum aðaleinkunnum. Afkvæmahross (fyrstu verðlaun fyrir stóðhesta og heiðursverðlaun fyrir hryssur og stóðhesta) sem hljóta viðurkenningu á árinu telja einnig til stiga. Í ár var þeirri aðferð breytt þannig að t.d. heiðursverðlaunahryssa bætir einu hrossi við fjölda sýndra hrossa og hækkar meðaleinkunn búsins um 0.05 stig.”
Árangur tilnefndra búa eru hér kynnt í stafrófsröð.
Berg, Anna Dóra Markúsardóttir og Jón Bjarni Þorvarðarson
Í ár hlutu 7 hross fullnaðardóm frá ræktunarbúinu Bergi. Meðalaldur hrossanna er 6,14 ár og meðaleinkunn þeirra er 8,35.
Hæst dæmda hross frá búinu er stóðhesturinn Sægrímur undan Hríslu frá Naustum og heiðursverðlaunastóðhestinum Sæ frá Bakkakoti. Hrísla á nú 7 afkvæmi með fyrstu verðlaun, þar á meðal Urð og Hæng sem einnig voru sýnd á árinu.
Múli frá Bergi á Fjórðungsmóti Vesturlands, setinn af ræktanda sínum, Önnu Dóru Markúsardóttur.
Mynd / ghp
Daníel Jónsson og Hilmar Sæmundsson, Efsta-Seli
Sex hross úr ræktun þeirra Daníels og Hilmars hlutu fullnaðardóm í ár, en þau eru kennd við ólíka bæi. Meðalaldur hrossanna er 6 ár og meðaleinkunn þeirra er 8,46.
Hæst dæmda hross ræktunarbúsins er stóðhesturinn Árblakkur frá Laugasteini sem hlaut hæstu einkunn allra hrossa fyrir kosti á árinu, 9,20. Árblakkur er undan Áróru frá Laugasteini og Ágústínusi frá Melaleiti.
Apollo frá Haukholtum undir stjórn ræktandans Daníels Jónssonar. Mynd / Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir
Garðshorn á Þelamörk, Agnar Þór Magnússon og Birna Tryggvadóttir Thorlacius
Fimm hross frá Garðshorni á Þelamörk hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 5 ár og meðaleinkunn þeirra 8,27.
Hæst dæmdur er landsmótssigurvegar 4 vetra stóðhesta árið 2016, Sirkus sem er undan Sveiflu frá Lambanesi og Fáfni frá Hvolsvelli. en Höfðingi er einnig undan Fáfni. Adrían, Arya og Vænting eru öll undan Eldingu frá Lambanesi, dóttur Sveiflu.
Nýjasta ungstirni ræktunarbúsins er Adrían sem ræktandinn Agnar Þór tekur hér til kostanna.
Mynd / Birna Tryggvadóttir
Mynd / Birna Tryggvadóttir
Hemla II, Lovísa H. Ragnarsdóttir og Vignir Siggeirsson
Fjórar skemmtilgar hryssur frá ræktunarbúinu Hemlu II hlutu fullnaðardóm á árinu. Meðalaldur þeirra er 6 ár og meðaleinkunn 8,32.
Hæst dæmd er Katla undan Skýr frá Skálakoti og Spyrnu frá Síðu. Þá stendur ræktunarhryssan Gná frá Hemlu II að baki þeirra Hugrúnar, Gleði og Ásdísar.
Ásdís undir stjórn ræktandans Vignis Siggeirssonar. Mynd / Lovísa Herborg Ragnarsdóttir
Ketilsstaðir/Syðri-Gegnishólar, Bergur Jónsson og Olil Amble
Fimmtán hross frá ræktunarbúinu Ketilsstöðum / Syðri-Gegnishólum hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 6,3 ár og meðaleinkunn 8,24.
Hæst dæmda hrossið er Frami frá Ketilsstöðum undan Framkvæmd frá Ketilsstöðum og Sveini-Hervari frá Þúfu. Þá hlaut Katla frá Ketilsstöðum, undan Ljónslöpp frá Ketilsstöðum og Gaum frá Auðsholtshjáleigu tímamótadóm þegar hún fékk fjórar tíur.
Katla frá Ketilsstöðum og Bergur Jónsson á Landsmóti hestamanna 2016. Mynd/ghp
Prestsbær, Inga Jenssen og Ingar Jenssen
Fimm hross frá ræktunarbúinu Prestsbæ hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 6,6 ár og meðaleinkunn 8,35.
Hæst dæmda hross búsins, sem ennfremur hæst er dæmda hross í heimi, er Þórálfur undan heiðursverðlaunahrossunum Þoku frá Hólum og Álfi frá Selfossi. Þoka er móðir allra þeirra hrossa sem sýnd voru frá búinu, fyrir utan að vera amma Skiptingar.
Þórálfur fór fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í sumar. Knapi er Þórarinn Eymundsson.
Mynd / Marius Mackenzie
Mynd / Marius Mackenzie
Rauðilækur, Eva Dyröy, Guðmundur Friðrik Björgvinsson og Kristján Gunnar Ríkharðsson
Fimm hross frá Rauðalæk hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 5,2 ár og meðaleinkunn 8,32. Hæst dæmdur er Elrir undan Elísu frá Feti og Arnþóri frá Auðsholtshjáleigu. Undan Elísu er einnig Gustur, 4 vetra, sem hlaut dóm í ár.
Jökull undan Hrímni frá Ósi og Karítas frá Kommu. Knapi er ræktandinn Guðmundur Björgvinsson. Mynd / Eva Dyröy
Skipaskagi, Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir
Átta hross frá ræktunarbúinu Skipaskaga fengu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 4,88 ár og meðaleinkunn 8,24.
Hæst dæmdur er stóðhesturinn Meitill undan Skynjun frá Skipaskaga og Steðja frá Skipaskaga, en Steðji er einnig faðir Sveðju. Þá á Skaginn frá Skipaskaga fjögur afkvæmi í hópnum, þau Fjólu, Svart, Kvarða og Gleipnir.
Krús sigraði flokk 4 vetra hryssa á Fjórðungsmóti Vesturlands. Knapi er Daníel Jónsson.
Mynd / Óðinn Örn Jóhannsson
Mynd / Óðinn Örn Jóhannsson
Torfunes, Baldvin Kr. Baldvinsson
Tíu hross frá ræktunarbúinu Torfunesi hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur þeirra er 5,5 ár og meðaleinkunn þeirra 8,27.
Hæst dæmdur er stóðhesturinn Grani sem fór fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótið í sumar og sigraði þar flokk 5 vetra stóðhesta. Hann er undan Röst frá Torfunesi og Korg frá Ingólfshvoli en undan Röst er einnig Vívaldi.
Grani á heimsmeistaramótinu, knapi er Sigurður V. Matthíasson. Mynd / Sofie Lahtinen Carlsson
Varmilækur, Björn Sveinsson og Magnea K. Guðmundsdóttir
Þrjú hross frá ræktunarbúinu Varmalæk hlutu fullnaðardóm í sumar. Meðalaldur þeirra er 6,3 ár og meðaleinkunn 8,28.
Hæs dæmda hrossið er Nátthrafn. Þá hlaut hryssan Kolbrá heiðursverðlaun í ár og telur því til stiga, en bæði Kolbrún og Nátthrafn eru undan henni.
Nátthrafn undan Kolbrá sem fékk heiðursverðlaun. Knapi er Björn Sveinsson.
Mynd / Magnea Guðmundsdóttir
Mynd / Magnea Guðmundsdóttir
Þúfur, Gísli Gíslason og Mette Mannseth
Níu hross frá ræktunarbúinu Þúfum í Skagafirði hlutu fullnaðardóm í ár. Meðalaldur hrossanna er 6,1 ár og meðaleinkunn þeirra 8,21.
Hæst dæmda hrossið er stóðhesturinn Kalsi undan Trymbil frá Stóra-Ási og Kylju frá Stangarholti en Kveðja er ennfremur undan Kylju. Þá á Trymbill þrjú afkvæmi í hópnum, auk Kalsa. Þau Eldar, Stimpil og Nótu.
Kalsi á Fjórðungsmóti Vesturlands undir stjórn ræktandans Mette Mannseth. Mynd / ghp