Aukið samstarf við íslenska kornbændur
Mikil aukning var á síðasta ári í framleiðslu og sölu á íslensku viskíi hjá Eimverki Distillery. Notaði brugghúsið 50 prósent meira af byggi á síðasta ári en árið á undan, eða samtals 150 tonn.
Í byrjun síðasta árs sagði Haraldur Haukur Þorkelsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, frá stórum sölusamningum við Kínverja, Bandaríkjamenn og Þjóðverja í viðtali hér í blaðinu. Vegna þeirra þyrfti að auka hráefnisframleiðsluna hratt á næstu tíu árum. Fara þyrfti úr 100 tonna byggframleiðslu í 10 þúsund tonn á tíu árum til að geta staðið við samninga. Stefnt yrði að auknu samstarfi við íslenska kornbændur, enda verði hráefnið til viskíframleiðslunnar að vera alíslenskt.
Rækta sambandið við bændur
Eimverk hefur á undanförnum árum ræktað sjálft mest allt korn til framleiðslunnar, á sínu ræktarlandi í Bjálmholti í Holtum og nálægum löndum Gunnarsholts og Lækjar, sem það hefur verið með á leigu.
„Það er rífandi gangur hjá okkur, erum að reisa nýja aðstöðu í Bjálmholti, þar sem verður geymsla fyrir viskítunnur og bætt aðstaða fyrir kornverkun, samtals 500 fermetrar.
Þá höfum við bætt við okkur nokkrum ökrum fyrir rúgræktun næsta haust, fyrir nýja rúgviskíið okkar, og við stækkuðum aðstöðuna í Garðabæ þar sem bruggverksmiðjan er. Við erum nú að plana sumarið, það verður ekki endilega mikil aukning í eigin ræktun en við erum að rækta sambönd við fjölmarga bændur fyrir næstu skref og samstarf,“ segir Haraldur.
Hann segir að salan hafi gengið vel á síðasta ári, aukist um 30 prósent frá fyrra ári. Öll stækkun og framleiðsluaukning taki hins vegar sinn tíma, það taki í það minnsta þrjú ár að fara í gegnum kerfið því það er sá tími sem þarf að geyma viskíið að lágmarki.
Umsókn um verndað afurðaheiti
Eimverk var stofnað árið 2009 með það markmið að framleiða úrvals viskí úr alíslensku hráefni. Fyrstu tíu árin fóru í að sanna að hægt væri að framleiða slíka gæðavöru. Á síðustu árum hefur vöxturinn verið hraður og eftirspurn vaxið langt umfram mögulega framleiðslu. Ef áformin til næstu tíu ára ganga eftir mun framleiðsluaukning vera orðin hundraðföld á árinu 2033.
Eimverk hefur sótt um að „íslenskt viskí“ verði verndað alþjóðlegt afurðaheiti og hefur umsóknin legið nokkuð lengi hjá Matvælastofnun til umfjöllunar. Haraldur telur brýnt að fá þessa vernd líkt og íslenska lopapeysan og íslenska lambakjötið hafa fengið, svo ekki þurfi að standa í samkeppni við aðra viskíframleiðendur sem kynnu að merkja sínar vörur sem „íslenskt viskí“, án þess að nokkurt íslenskt hráefni væri í því.