Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Bætur fyrir gripina verða ekki metnar fyrr en þeim hefur verið fargað
Fréttir 2. febrúar 2018

Bætur fyrir gripina verða ekki metnar fyrr en þeim hefur verið fargað

Höfundur: smh
Nautgripunum frá bænum Eystri-Grund við Stokkseyri sem komust í kjötmjöl sem bannað er að gefa nautgripum, hefur enn ekki verið fargað, þó að úrskurður um það hafi legið fyrir í atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu í lok marsmánaðar á síðast á ári. Á þeim tíma hefur bóndinn þurft að standa straum að fóðurkostnaði fyrir gripina án þess að fá metnar bótagreiðslur fyrir þá.
 
Forsagan er sú að þann 27. mars á síðasta ári lagði Matvælastofnun bann á markaðssetningu afurða frá bænum, slátrun til manneldis og flutning gripanna. Skýringin var sú að um 140 nautgripir á bænum höfðu aðgang að óvörðum og götuðum sekkjum af kjötmjöli sem ætlað var að nota sem áburð. Ekki er heimilt að nota kjötmjöl sem fóður fyrir dýr í matvælaframleiðslu, vegna hættu á kúariðusmiti. Í tilkynningu Matvælastofnunar frá því í mars á síðasta ári kom fram að ummerki á staðnum bentu til að nautgripir hafi verið við sekkina og þeir hafi sleikt og étið kjötmjöl úr þeim.
 
Útgjöld vegna fóðurkaupa
 
Í byrjun þessa árs var greint frá því í fréttum Ríkisútvarpsins að nautgripirnir væru enn á lífi og var haft eftir Sævari Ástmundssyni, bónda á Eystri-Grund, að þessar tafir hefðu kostað hann mikil útgjöld vegna kaupa á fóðri. Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, gaf þær skýringar að skortur á aðstöðu, vangeta sláturhúsa til að taka við nautgripunum og ósk frá bóndanum um að fresta förgun hafi leitt til að drátturinn varð. Vildi bóndinn athuga réttarstöðu sína gagnvart ákvörðun ráðuneytisins og síðan fá staðfestingu á bótum – og þetta tafði málið. Frestun förgunar var hafnað í júní. Annir í sláturhúsum í sláturtíðinni í haust töfðu svo málið enn frekar, því ekki var hægt að taka nautgripina þar inn á meðan.
 
Að aflokinni sláturtíð, þegar til stóð að fara með gripina í sláturhús, var bóndinn ekki tilbúinn að gera það nema staðfesting á bótum lægi fyrir. Samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu verður bótafjárhæðin ekki ákveðin fyrr en búið er að farga dýrunum. 
 
Neyðaraflífun átti ekki við
 
Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, hefur gagnrýnt málsmeðferðina og benti á það í umfjöllun Ríkisútvarpsins að til væru ferlar sem gera ráð fyrir að hægt sé að koma neyðarslátrun við undir þessum kringumstæðum. Dýralæknir geti þannig í krafti embætti síns komið slíkum gripum í gegnum sláturhús og þeim fargað svo fljótt sem auðið er. Hann hefur líka gagnrýnt að ekki sé vilji til að reikna út bætur fyrir Sævar bónda, þar sem fyrir liggur hver aldur og fjöldi gripanna sé. 
 
Viktor Stefán Pálsson, forstöðumaður Samhæfingarsviðs Matvælastofnunar, segir að í tíð eldri reglugerðar um slátrun hafi neyðarslátrun átt við þegar dýr voru aflífuð utan sláturhúss, samkvæmt ákvörðun dýralæknis, vegna slyss eða af öðrum ástæðum. 
 
„Í núgildandi reglugerð er talað um neyðaraflífun og er þá átt við aflífun dýra sem eru með áverka eða sjúkdóm sem hefur í för með sér mikinn sársauka eða þjáningu. Í tilviki nautgripanna á Eystri-Grund var þessu ekki fyrir að fara og engin neyð sem knúði á um að krefja sláturleyfishafa til að breyta sláturplönum og riðla þannig sláturtíðinni með því að taka daga frá til að slátra fjölda nautgripa frá Eystri-Grund,“ segir Viktor.
 
Engar bætur ákvarðaðar fyrr en búið er að farga
 
Elísabet Anna Jónsdóttir, lög­fræðingur í atvinnu- og nýsköpunar­ráðuneytinu, segir í svari við fyrirspurn frá Bændablaðinu að um kostnað og bætur vegna slíkra aðgerða sé fjallað í 6. kafla laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. 
 
„Til að komast að niðurstöðu um bótafjárhæð í málum sem þessum þurfa að liggja fyrir upplýsingar um meðal annars fjölda og aldur gripa, sem liggja ekki fyrir samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur því ekki undir höndum nein haldbær gögn til að styðjast við til að meta bætur vegna málsins,“ segir Elísabet. Hún bætir við að ráðuneytið hafi samið við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins um að taka að sér að aðstoða við mat á bótum vegna málsins. Spurð um það hvort ekki sé hægt að nálgast upplýsingar um aldur og fjölda gripa hjá héraðsdýralækni til að mynda, segir hún að ráðuneytið muni að svo stöddu ekki veita ítarlegri upplýsingar um efnistök málsins sem það hefur til meðferðar. Vísar hún til fyrra svars hvað varðar fyrirliggjandi gögn og þá lagaheimild sem ákvörðun byggir á. 
 
Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun er nú stefnt á að búið verði að farga gripunum í febrúar. 

Skylt efni: kjötmjöl | förgun gripa

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...