Bekkir umhverfis Mývatn
Félag eldri Mývetninga hyggst setja upp bekki á fyrirhuguðum göngu- og hjólastíg umhverfis Mývatn en búið er að leggja um 5 km af honum nú þegar.
Hjóla- og gönguleiðin, alls um 36 km löng, á að gera fólki sem velur þann ferðamáta kleift að fara umhverfis vatnið með öruggum hætti en oft og tíðum eru malarvegirnir þröngir og taka illa við mikilli umferð akandi, hjólandi og gangandi. Bekkirnir sem Félag eldri Mývetninga safnar nú fé til að kaupa eru framleiddir hjá Steinsmiðju Akureyrar og er markmiðið að fyrirtæki og einstaklingar kaupi bekki sem verða þá merktir viðkomandi og þeir settir með reglulegu millibili umhverfis vatnið. Tólf bekkir hafa þegar verið pantaðir og verið að koma þeim fyrstu fyrir þessa dagana. Ásdís Illugadóttir í Reykjahlíð heldur utan um verkefnið fyrir hönd félagsins og segist ánægð með viðbrögðin. Hún upplýsir að þegar sé búið að ganga frá um 5 km af stígnum með bundnu slitlagi, frá Reykjahlíð að Geiteyjarströnd og undirbyggja næstu 10 km langleiðina að Skútustöðum. Vegagerðin greiði 80% kostnaðar við stíginn en sveitarfélagið Þingeyjarsveit 20%.
„Við í Félagi eldri Mývetninga hófum átakið með því að gefa tvo bekki á stíginn,“ segir Ásdís. „Við skrifuðum m.a. fyrirtækjum í Mývatnssveit beiðni um að styrkja verkefnið.“ Hún segir um langtímaverkefni að ræða og fleiri bekki vanti til að setja á þá 15 km af stígnum sem séu þegar í augsýn og svo áfram allan hringinn.