Besta afkoma frá stofnun félagsins
Árið 2023 skilaði Sláturfélag Suðurlands bestu afkomu frá stofnun þess. Íslenskt staðfest var rætt á aðalfundi samvinnufélagsins.
Hagnaður SS árið 2023 reyndist 791,7 milljónir króna samkvæmt ársskýrslu. Rekstrartekjur samstæðunnar, sem samanstendur af Sláturfélaginu og dótturfélögunum Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf., voru rúmir 17 milljarðar króna og hafa hækkað um 8,8% frá því árið áður. Reykjagarður hagnaðist um 370 milljónir króna en Hollt og gott skilaði tapi.
Aðalfundur samvinnufélagsins fór fram á Goðalandi í Fljótshlíð 15. mars síðastliðinn. Steinþór Skúlason forstjóri fór þar yfir ársskýrslu félagsins. Samstæða samvinnufélagsins samanstendur af Sláturfélagi Suðurlands og dótturfélögunum Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf., þar sem móðurfélagið SS er með 69% af veltunni, Reykjagarður tæplega 30% og Hollt og gott um 5%. Þrjár megindeildir mynda samstæðuna; matvælaiðnaður, heildsala og afurðafyrirtæki. Steinþór sagði að deildirnar styrki hver aðra og væri lykill að sterkri stöðu og afkomu félagsins.
Samdráttur í svínaslátrun
Í ársskýrslunni er farið yfir afurðir Sláturfélagsins á árinu 2023 en heildarslátrun kjöts reyndist 7.890 tonn. Tveggja prósenta samdráttur var í fjölda sauðfjár í slátrun. Alls var slátrað 97.576 kindum á árinu sem skilaði 1.781 tonni af innvegnu kjöti frá 561 föstum innleggjanda.
Þá var 17% samdráttur í svínaframleiðslu, heildarslátrun reyndist 316 tonn af 3.932 sláturgripum. Aðeins einn fastur innleggjandi er hjá fyrirtækinu. Í máli Steinþórs kom fram að SS hafi helst flutt inn svínakjöt. Fyrirtækið taki þá sláturgripi sem því bjóðist en til að glata ekki markaðsstöðu á vörum úr svínakjöti hafi þeir gripið til þess að flytja inn.
Heildarslátrun nautgripa árið 2023 var 1.314 tonn af 6.482 sláturgripum sem var 126 gripum fleiri en árið áður. Þrátt fyrir það hafi fyrirtækið flutt inn lítið magn af nautakjöti sem Steinþór sagði að hefði verið stýrt inn á veitingamarkað. Hrossaslátrun jókst um 4,5% og var 445 tonn af 3.662 sláturgripum. Heildarslátrun kjúklinga var 4.034 tonn af 2.403.763 fuglum, og reyndist 47 tonnum minni en í fyrra.
Samkeppni við verslanir áskorun
Steinþór kom inn á góða stöðu fyrirtækisins SS á markaði. Þannig reyndist birkireykt hangikjöt félagsins mest selda hangikjötið árið 2023. Pylsur félagsins væru með ráðandi markaðshlutdeild, eða um 90% þegar horft er til sölu á vínarpylsum. Tilbúnir réttir sem félagið framleiðir væru einnig með sterka stöðu en smásöluverslanir væru farnar að sækja í sig veðrið með vörumerkin sín.
Steinþór nefndi að samkeppni við verslanir væru áskorun, en fyrirtækið væri í óþægilegri stöðu við að keppa við viðskiptavini sína. Verslanir væru í auknum mæli að bjóða upp á matvörur undir vörumerkjum verslana og var uggandi yfir því að verslunin væri þannig að reyna að ná valdi á virðiskeðjunni. Í lokaorðum sínum sagði Steinþór að félagið þyrfti að vera á tánum og gefa neytendum á hverjum degi ástæðu til að velja SS þegar verslað sé.
Ætla að hefja samtal við Bændasamtökin
Líflegar umræður sköpuðust í framhaldi og sér í lagi um upprunamerkið Íslenskt staðfest og innflutning félagsins á kjöti. Einn fundarmaður kom beint af Búnaðarþingi sem samþykkti einróma tillögu um að innlendir matvælaframleiðendur í eigu bænda ættu að taka upp Íslenskt staðfest. Allnokkrir fundarmenn stigu í pontu og lýstu yfir stuðningi við innleiðingu merkisins á vörur SS. Fundurinn vísaði því til stjórnar SS að hefja samtal við Bændasamtökin um skilmála Íslenskt staðfest.
Einnig spurði fundarmaður hve hátt hlutfall hráefna í fyrirtækinu Hollt og gott væri innlent og svarað var að hlutfallið væri um tuttugu prósent.
Arður greiddur
Tillaga stjórnar um vexti af stofnsjóði og greiðslu arðs var samþykkt á aðalfundinum. Greiddar verða út rúmlega 36 milljónir króna. Jafnframt verða reiknaðir 10% vextir á höfuðstól inneigna í A-deild stofnsjóðs, tæplega 40 milljónir króna.
Jafnframt var ný stjórn kosin. Aðalmenn: Hallfreður Vilhjálmsson, Guðrún S. Magnúsdóttir, Lilja Guðrún Eyþórsdóttir, Sverrir Gíslason og Þorsteinn Logi Einarsson. Varamenn eru Áslaug Finnsdóttir, Eiríkur Jónsson, Guðmundur H. Davíðsson, Gunnar Sigurjónsson og Magðalena Karlotta Jónsdóttir.
Sláturfélag Suðurlands var stofnað árið 1907 og er rekið í samvinnufélagsformi. Fjöldi félagsaðila í árslok 2023 voru rúmlega 2.200 talsins í stofnsjóði A-deildar en 558 hluthafar í stofnsjóði B-deildar. Stærsti hluthafi í stofnsjóði B-deildar er Birta lífeyrissjóður með 33,71% hlutdeild. Landsbankinn hf. á 20,61%. Í árslok 2023 störfuðu 429 starfsmenn hjá félaginu.