Biðlað til stjórnvalda
Fulltrúar Bændasamtaka Íslands funduðu með atvinnuveganefnd Alþingis 12. október þar sem slæm fjárhagsstaða bænda var til umræðu.
Þórarinn Ingi Pétursson, formaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokks, segir fundinn hafa verið góðan. „Fulltrúarnir komu til fundar við okkur með skýr skilaboð um þessa alvarlegu stöðu. Þau óskuðu eftir því að tilteknar leiðir yrðu lagðar fram af stjórnvöldum; hvað væri í raun í boði til að leysa erfiðasta vandann,“ segir Þórarinn Ingi.
Ekki bein fjárútlát í boði
Hann segir ljóst að málið fari úr atvinnuveganefnd til umfjöllunar í nokkrum ráðuneytum áður en endanlega verður ljóst hvaða úrræði verða í boði. Hann býst ekki við að um bein fjárútlát verði að ræða, til dæmis í gegnum búvörusamninga, heldur verði reynt að finna önnur úrræði. „Kannski eru möguleikar á breytingum á lánafyrirkomulagi; mögulega með aðkomu Byggðastofnunar – við erum með marga bolta á lofti.
Það er þó á hreinu að engin ein leið dugar til, við þurfum að skoða ýmsar aðgerðir. Til dæmis er tollverndin hriplek og svo er fjármagnskostnaðurinn að sliga landbúnaðinn. Kynning þeirra var mjög góð og skilmerkileg og ég heyri hér innan atvinnuveganefndar að það skilar því að menn ganga með opnum huga til verkefnisins,“ segir Þórarinn Ingi.
Fundir fram undan með ráðherrum fjármála og matvæla
Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að farið hafi verið yfir hina alvarlegu stöðu bænda á rekstrarlegum forsendum. „Viðbrögðin voru jákvæð en hvað verður um efndir er erfitt að segja. Við munum funda með fjárlaganefnd á föstudaginn og fara yfir stöðuna.
Jafnframt er fyrirhugað að funda með ráðherrum fjármála og matvæla, vonandi á fimmtudag. Hver árangur verður er erfitt að segja en við höfum ítrekað að vandinn vegna aukins rekstrarkostnaðar, sem viðurkenndur var á síðastliðnu ári, hefur ekki breyst.