Birkiryð snemma á ferðinni
Birki er tekið að gulna í skógum víða um land. Ekki eru það haustlitirnir sem svo eru fljótir á sér heldur lætur birkiryðið óvenjusnemma á sér kræla þetta sumarið. Líklega má kenna það vætunni og hlýindunum sem verið hafa í sumar. Greint er frá þessu á vef Skógræktar ríkisins.
Á fyrstu dögum ágústmánaðar varð vart við gulan lit á birki í Vaðlareit í Eyjafirði, gegnt Akureyri. Sums staðar sjást stök tré gulnuð en annars staðar heilir flákar. Úr fjarska er engu líkara en haustlitir séu farnir að færast yfir birkið en þegar nær kemur sést að blöðin eru alsett birkiryði, Melampsoridium betulinium, ryðsvepp sem leggst á íslensku birkitegundirnar, fjalldrapa og ilmbjörk, eins og segir í bókinni Heilbrigði trjágróðurs eftir þá Guðmund Halldórsson og Halldór Sverrisson sem kom út í sumarbyrjun. Þar segir enn fremur um birkiryðið:
Á fjalldrapa er ryðsveppurinn þó ekki algengur. Hér á landi hefur aðeins fundist sumargróstigið eða ryðgróin (uredo). Algengast er birkiryð á blöðum birkiplantna í uppeldi. Þá getur neðra borð blaðanna orðið alþakið gróflekkjum sveppsins. Venjulega sjást flekkirnir þó ekki fyrr en seint í júlí og þeir ná hámarki í byrjun september. Á eldri trjám sést sveppurinn helst á neðri greinum og á trjám í góðu skjóli, en mikill munur virðist vera á því hversu móttækilegir einstaklingarnir eru. Sjaldan er birkiryð svo mikið til vandræða að ástæða sé til þess að úða með varnarefnum. Helst er ástæða til að grípa til þess í uppeldisbeðum.
Eins og hér segir verður ryðsvepps helst vart á birkinu síðsumars og gjarnan fellur gulur litur ryðsveppsins saman við haustliti þannig að fæst okkar taka eftir honum. Þetta árið voraði hins vegar vel og sumarið hefur verið hlýtt og rakt. Telja má nokkuð óvenjulegt að birki sé orðið svo ryðgað í ágústbyrjun sem nú er raunin sums staðar, til dæmis í Vaðlareit eins og áður greinir þar sem stöku tré eru alveg gul og jafnvel orðin brúnleit og lauf farið að falla. Í Grímsnesi spratt ryðið fram á fáeinum dögum fyrir stuttu, raunar bæði á birki og gulvíði þótt ekki sé það sami sveppurinn. Ryðsveppir á lauftrjám sérhæfa sig mjög eftir trjátegundum.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, segir að engu hafi verið líkara en nokkrir hlýir sólardagar hafi sett ryðsveppinn í gang í Grímsnesinu. Þó geti verið að það hafi verið tilviljun að ryðsveppirnir komu fram í kjölfar þeirra og e.t.v. nærtækara að líta til þess að júlí var afskaplega blautur. Ekki segist Hreinn hafa séð neitt ryð í birki á Þórsmerkursvæðinu þegar hann var þar á ferð í fyrradag (5. júlí). Á Rangárvöllum sé ryð ekki orðið áberandi í birki. Böðvar Guðmundsson hjá Suðurlandsskógum segir allt vaðandi í ryðsvepp á birki í neðanverðri Árnessýslu, bæði í kjarrlendum og görðum.
Á Vesturlandi ber líka óvenjumikið á birkiryði þessa dagana og telur Valdimar Reynisson, skógarvörður þar, sömuleiðis líklegt að votviðrasamt og nokkuð hlýtt sumar sé orsök þess. Mikill einstaklingsmunur er á trjám hvað smit varðar eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru í Hvammi í Skorradal og Vaðlareit í Eyjafirði.