Bjargráðasjóður fær 500 milljónir vegna kal- og girðingatjóna
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun bæta 500 milljónum króna við Bjargráðasjóð vegna kal- og girðingatjóna síðasta vetur.
Það mun þó ekki nægja til að bæta allt tjón frá síðastliðnum vetri, sem var óvenju mikið. Samanlagt tjón er metið á 960 milljónir króna, 800 milljón króna kaltjón og 160 milljón króna girðingatjón, og fyrir í Bjargráðasjóði voru um 200 milljónir króna.
Kristján sagði í svari við fyrirspurn Þórunnar Egilsdóttur, þingflokksformanns Framsóknarflokksins á Alþingi í byrjun október að hann ætlaði að beina því til þingsins við meðferð fjárlaga að öllum óskum um bætur yrði mætt.
Bjargráðasjóður er í dag sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins en var til ársins 2016 að jöfnu í sameign ríkisins og Bændasamtaka Íslands. Bjargráðasjóður starfar samkvæmt lögum nr. 49/2009 og er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Hlutverk hans er að veita einstaklingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiriháttar beint tjón af völdum náttúruhamfara, meðal annars vegna tjóns á girðingum og vegna uppskerubrests af völdum óvenjulegra kulda, þurrka og kals.