Björgvinsbelti á ferðamannastaði
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Við ætlum okkur í samstarfi við Vegagerðina og Sjóvá að setja upp hundrað Björgvinsbelti við sjó, ár og vötn á vinsælum ferðamannastöðum víða um land.
Fyrstu vestin voru sett upp við Jökulsárlón og síðan munum við halda áfram hringinn í kringum landið og koma beltunum fyrir,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Björgvinsbeltið er hannað af Björgvini Sigurjónssyni, stýrimanni og skipstjóra frá Vestmannaeyjum, en í dag á fyrirtækið Petó ehf. í Vestmannaeyjum réttinn á beltunum og sér um framleiðslu þeirra úti í Eyjum.
„Beltin eiga að stuðla að öryggi ferðamanna, bæði á láð og legi, enda mikið lagt upp úr gæðum þeirra og eingöngu notuð efni í þau sem eru viðurkennd, sterk og endingargóð.
Okkur finnst frábært að taka þátt í þessu verkefni þótt við vonum að sjálfsögðu að aldrei þurfi að nota Björgvinsbeltin á ferðamannastöðum,“ segir Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvár.