Blautt vor og kollurnar skiluðu sér illa
Síðastliðið vor var einstaklega votviðrasamt í Árneshreppi á Ströndum og dúntekja í ár ein sú minnsta í fjöldamörg ár. Kollur skiluðu sér seint og illa á hreiður.
Hrefna Þorvaldsdóttir, bóndi í Árnesi 2 í Árneshreppi, segir að dúntekja í sumar hafi verið lítil miðað við undanfarin ár. „Miðað við undanfarin ár var hún reyndar mjög lítil.“
Fuglinn skilaði sér illa
„Vorið hér í Árneshreppi var rosalega votviðrasamt og með því úrkomumesta sem menn muna eftir. Fuglinn skilaði sér ekki allur á hreiður og kollurnar sem gerðu það komu seinna en vanalega og vegna bleytunnar var erfitt að safna dúninum. Fyrir vikið var mun minna af honum og hann lélegri.
Meira að segja krían sem vanalega kemur hingað 8. maí eins og eftir dagatali frestaði varpinu og verpti seinna í ár vegna mikilla rigninga.“
Svipað ástand hjá öllum í hreppnum
Samkvæmt upplýsingum Bændablaðsins er ástandið svipað á Dröngum og í Ófeigsfirði í Árneshreppi þar sem einnig er stunduð dúntekja.
Að sögn Hrefnu dregur hátt gengi krónunnar úr útflutningi á dúni. „Og það er ekki að hjálpa okkur heldur.“