Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Blekkingarleikur fjármála-kerfisins heldur áfram
Fréttir 4. febrúar 2015

Blekkingarleikur fjármála-kerfisins heldur áfram

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Ekki hefur tekist að koma efnahagslífi ESB-landanna á réttan kjöl og hefur evran hríðfallið gagnvart dollar á undanförnum vikum. Þá hefur verðhjöðnun, sem er að leiða til stöðnunar atvinnulífs, leitt til þess að í síðustu viku kynnti Seðlabanki Evrópu neyðarráðstafanir sem felast í botnlausri innistæðulausri peningaprentun til kaupa á ríkisskuldabréfum.

Ekki bæta úrslit þingkosninga í Grikklandi um nýliðna helgi úr skák. Sigurvegari kosninganna þar í landi var Alexis Tsipras, og vinstri flokkurinn Syriza sem hann er í forsvari fyrir. Það hefur valdið því að nú hriktir í Evrópusambandinu. Alexis Tsipras óskaði eftir skýru umboði kjósenda þar í landi til að fella úr gildi niðurskurðarskilmála ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það umboð hefur hann nú fengið. Þeir skilmálar voru skilyrði fyrir lánveitingum til Grikkja, en þýskir bankar eiga þar gríðarlegra hagsmuna að gæta. Eru úrslitin eins og blaut tuska framan í Angelu Merkel Þýskalandskanslara og aðra  æðstu ráðamenn ESB sem óttast að fleiri þjóðir í myntsamstarfinu, eins og Spánverjar og Ítalir, sigli í kjölfar Grikkja og heimti niðurfellingar skulda.

Úrslit kosninganna í Grikklandi kunna líka að skekkja verulega nýjustu hagstjórnaraðgerðir evruríkjanna. Mario Draghi, bankastjóri evrópska seðlabankans (European Central Bank - ECB), tilkynnti það fimmtudaginn 22. janúar að dælt yrði út í hagkerfið glænýjum samtals 1,14 billjón evrum (1.140.000.000.000) á 19 mánuðum, eða sextíu milljörðum evra á mánuði til loka september 2016, til  kaupa  á ríkisskuldabréfum. Í kjölfarið fór verðbréfavísitala DAX í Þýskalandi upp í nýtt met og gengi verðbréfa á fleiri mörkuðum rauk upp, en evran snarféll í verði samkvæmt fréttum AP, AFP og Reuters. Ef endursemja þarf við Grikki og afskrifa stórfelldar skuldir ríkisins gæti þessi peningaprentun valdið enn meira hruni evrunnar.

Í útskýringum Mario Draghi fyrir þessum aðgerðum kom fram að það hafi verið farið að valda mönnum áhyggjum að verð á neysluvörum hafi verið að lækka, sem þýddi að ekki tækist að halda verðbólgunni uppi í þeim 2% sem áætlað var.

Gamalkunn ráð

Það sem er að gerast með evruna er ekkert flókið og Íslendingar ættu að þekkja þjóða best afleiðingar slíkra aðgerða með tilheyrandi verðbólgu. Íslendingar þekkja líka mátt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og kröfur. Gegndarlaus seðlaprentun mun aðeins þýða það að eignarhald á raunverðmætum íbúa ESB-landanna mun, vegna verðfalls evrunnar og verðbólgu, flytjast til þeirra sem njóta vaxta og eiga seðlana.

Allt er þetta í grunninn afleiðingar af notkun vaxta í hagstjórnarkerfum heimsins. Vextir sem eru ekki ávísun á nein raunverðmæti hafa skekkt fjármál heimsbyggðarinnar svo mikið að farið er að hrikta illilega í. Um 1% íbúa veraldarinnar hafa sölsað undir sig megnið af öllum verðmætum heimsbyggðarinnar með því að spila á vaxtakerfið og setja á svið blekkingakerfi fjármálavafninga. Með þessu kerfi er stöðugt verið að framkvæma eignaupptöku hjá þeim sem eiga einhverjar rauneignir  eða nýta sitt vinnuafl til að framleiða verðmæti. Undantekninga­laust er þetta gert með aðstoð ríkisstjórna við­komandi landa  sem almenningur fær náðarsamlegast að kjósa í „lýðræðislegum kosningum“.

Til bjargar bankakerfinu

Ef horft er til Evrópu þá hafa seðlabankavextir víðast hvar verið lækkaðir mikið frá hruninu 2008 og allt niður undir 0%. Þegar efnahagslífið gengur út á notkun vaxta til að liðka fyrir viðskiptum, þá gengur eðlilega ekki upp að bankar geti ekki náð vöxtum út úr kerfinu til að viðhalda glansmynd sinni. Vextir og hagstæður vaxtamunur eru jú forsendan fyrir því að hægt sé að búa til fallega ársreikninga.

Berrassaðir eins og keisarinn

Seðlabanki Evrópu var kominn upp að vegg. Bankakerfið, sem er ekki að framleiða nein raunverðmæti, er ekki í neinum fötum frekar en keisarinn góði í ævintýrinu. Það er ekki heldur að fá vaxtatekjur sem geta staðið undir ofurlaunum bankastjóra og botnlausum bónusum. Þótt Þjóðverjar, sem eru illa brenndir af tveim styrjöldum, hafi fyrir löngu áttað sig á því að það þurfi raunverulega verðmætasköpun til að standa undir hagkerfinu, þá máttu þeir sín lítils vegna þrýstings frá öðrum þjóðum innan evrusvæðisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

Útþynntir kardimommudropar

Niðurstaðan var sú að seðla­bankastjóri Evrópu gaf út skipun í síðustu viku um gangsetningu seðlaprentvélanna. Nú á að dæla út í hagkerfi Evrópu seðlum sem tæknilega eiga að vera ávísun á verðmæti sem nemur 100 ára þjóðarframleiðslu Íslendinga. Þannig er bakstuðningur peningakerfisins í raunverðmætum þynntur út, rétt eins og hjá rónunum sem drýgja kardi­mommu­dropana með vatni. Vísað er til þess að sams konar aðgerð hafi lukkast svo vel í Banda­ríkjunum. Menn éta hins vegar ekki peninga og þeir eru einskis virði ef þeir eru ekki ávísun á nokkurn skapaðan hlut. Þetta mun því fyrr eða síðar leiða til nýs höfuðverkjar, eða um leið og áhrifanna af útþynntu „kardimommudropunum“ dvínar.

Verðmætin flutt enn á ný frá almenningi

Seðlabanki Evrópu er eins og áður sagði ekki að framleiða nein raunverðmæti, frekar en aðrir bankar, hvorki bíla, matvæli, föt eða annað. Því eru engin raunverðmæti til á bak við þessa gríðarlegu seðlaprentun. Sniðugheitin felast í því að flytja til raunverðmæti. Verðbólga mun koma hreyfingu á atvinnulífið því fólk sem fær minna fyrir hverja evru þarf að leggja meira á sig við að framleiða raunverðmæti til að standa undir kaupum á lífsnauðsynjum. Þannig mun bankakerfið og snjallir peningamenn fara með krumlurnar á kaf í vasa almennings enn eina ferðina til að tryggja eigið fjármálaveldi. Örugga breytan í þessu plotti er að eina prósentið fræga mun styrkja stöðu sína og fá nýtt tækifæri til að verða enn ríkara.

Aðdragandinn að þessum aðgerðum Seðlabanka Evrópu sem kynntar voru í síðustu viku er sú verðhjöðnun sem nú er orðin staðreynd inna evrusvæðisins. Fréttastofa BBC greindi þá frá því að mikill þrýstingur hafi verið á Seðlabanka Evrópu um að grípa til aukinna aðgerða til að örva efnahagslífið. Í ársbyrjun ákvað bankinn svo að fara út í gríðarleg kaup á ríkisskuldabréfum þeirra landa sem standa að myntbandalagi Evrópu – evrusvæðinu. Ljóst var að það yrði ekki gert nema með stórfelldri peningaprentun.

Gengi evrunnar það lægsta síðan 2003

Daginn eftir að Seðlabanki Evrópu tilkynnti um peningaprentun sína og stórfelld kaup á ríkisskuldabréfum var greint frá því að evran hafi hríðfallið gagnvart dollar eða um 2% á einum degi og hafi ekki verið lægri síðan 2003. Sem sagt plottið svínvirkaði.

Þótt íslenska krónan hafi eitthvað styrkst gagnvart evru hefur Seðlabankinn samt  að mestu látið krónuna sökkva með evrunni. Afleiðingin er að Bandaríkjadollar er nú í himinhæðum gagnvart íslensku krónunni og kostar hver dollar um 135 krónur. Það þýðir að líka er seilst í vasa almennings á Íslandi varðandi allt sem flutt er inn og verðlagt í dollurum. Einnig er komið í veg fyrir að almenningur fái að njóta stórfelldra lækkana á eldsneyti sem skráð er í dollurum. Það er greinilega ætlunin að láta íslenskan almenning blæða í takt við íbúa ESB-ríkjanna. Það er umhugsunarefni hvers vegna það heyrist hvorki hósti né stuna frá ASÍ né samtökum neytenda út af þessu.

Enn hrikalegt atvinnuleysi

Fyrir utan tvísýna fjármálastöðu ríkja Evrópusambandsins, þá er atvinnuleysi enn gríðarlega mikið og í evruríkjunum var það 11,5% að meðaltali í nóvember. Þar var atvinnuleysið minnst í Austurríki, eða 4,9% og um 5% í Þýskalandi. Á Spáni var hins vegar 23,9% atvinnuleysi og 25,7% í Grikklandi.

Kynt undir nýrri efnahagskreppu

Ítalinn Mario Draghi, sem er hagfræðingur, segir að verðhjöðnun geti haft alvarleg áhrif á efnahag almennings og ríki innan evrusvæðisins. Um leið og tekjur og skattar dragist saman í þessum ríkjum verði sífellt erfiðara að ráða við ástandið. Allt er þetta rétt, en spyrja má um leið af hverju niðurkeyrsla vaxta dugði ekki til að  koma efnahagshjólunum í gang eins og ætti að gerast samkvæmt kenningunum sem unnið er eftir.

„Við höfum verið að vara við því að nú sé orðin hætta á að verið sé að kynda á ný undir efnahagskreppu á vissum svæðum,“ segir Draghi.

Öfugt við vaxtalækkanir evrópskra banka sem miðuðu að því að örva hagkerfið, þá hefur íslenski seðlabankinn haldið uppi ofurvaxtastefnu að því er sagt er til að slá á „þenslu“. Það skilar sér beint inn í bankakerfið sem hefur vaxið hraðar en púkinn á fjósbitanum. Bankarnir eru nefnilega með mikla fjármuni í ávöxtun hjá Seðlabankanum og ná þar miklum vaxtamun á sínum innlánum og útlánum. Á þessu stórgræða væntanlega einnig erlendir kröfuhafar bankanna. Raunverðmætin á bak við þessa vaxtafjármuni verða ekki til í íslenska seðlabankanum frekar en þeim evrópska, heldur verða þau á endanum varla sótt annað en í vasa almennings.

Skylt efni: peningamál | Evra

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...