Breytingar á skilyrðum fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum
Matvælastofnun hefur birt breytt skilyrði fyrir blóðtöku úr fylfullum hryssum fyrir árið 2022.
Í þeim fer hámarksfjöldi hryssa í stóði úr hundrað niður í sjötíu hryssur, dýralæknar mega ekki hafa fleiri en 3 hryssur í blóðtöku samtímis, sett er hámarksaldur á blóðtökuhryssu við 24 ár og gerð er ríkari krafa um skráningar við innra eftirlit með starfseminni, s.s. á holdastigun og frávikum við meðferð við rekstur og blóðtöku.
Í skýrslu sem Matvælastofnun birti á vef sínum er farið yfir eftirlit stofnunarinnar með velferð hryssna sem notaðar eru í blóðtöku til vinnslu afurða. Þar eru m.a. tilteknar forsendur mælikvarða á blóðbúskap hryssnanna og það eftirlit sem haft er með folöldum þeirra.
Er það mat stofnunarinnar að blóðtaka úr fylfullum hryssum, eins og hún á að vera framkvæmd hér á landi skv. lögum, reglugerðum og skilyrðum Matvælastofnunar, stangist ekki á við lög nr. 55/2013 um velferð dýra.