Búnaðarþing 2015 - Upprunamerkingar
Búnaðarþing 2015 hefur samþykkt ályktun þess efnis að nauðsynlegt sé að styrkja sérstöðu íslenskra búvara í sessi og tryggja upplýsingagjöf til neytenda.
Búnaðarþing hvetur Bændasamtök Íslands til að halda áfram samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Neytendasamtökin um bættar upprunamerkingar á matvælum. Allir þeir sem framleiða og markaðsfæra íslenskar búvörur skulu fara yfir sínar upprunamerkingar og hafa þær ávallt skýrar og ótvíræðar. Stjórnvöld þurfa einnig að sjá til þess að regluverk um efnið sé í lagi og því sé fylgt fast eftir. Þrýst verði á stjórnvöld að samþykkja reglur um notkun íslenska fánans til merkingar á íslenskum búvörum.
Stjórn BÍ er falið að fylgja málinu fast eftir. Með vaxandi innflutningi matvæla er afar mikilvægt að þessu verkefni verði sinnt af krafti.