Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Um 4.000 tegundir viltra býflugna eru til í Bandaríkjunum einum. Þær eiga nú undir högg að sækja vegna umsvifa mannsins og notkunar hans á eiturefnum í helstu ræktarlöndum.
Um 4.000 tegundir viltra býflugna eru til í Bandaríkjunum einum. Þær eiga nú undir högg að sækja vegna umsvifa mannsins og notkunar hans á eiturefnum í helstu ræktarlöndum.
Fréttir 20. mars 2017

Býflugurnar hverfa af mikilvægasta ræktarlandi Bandaríkjanna

Kortlagning vísindamanna hjá þrem bandarískum háskólum sýnir skelfilega stöðu býflugunnar í mikilvægustu ræktarlöndum  Bandaríkjanna. Án býflugna kann ræktun á þessum svæðum að skaðast verulega. 
 
Rannsóknin var gerð af sjö vísindamönnum frá University of Vermont (UVA), Franklin & Marshall College, University of California (UC) og Michigan State University (MSU). Er þetta í fyrsta skipti sem svo viðamikil kortlagning á stöðu býflugna í Bandaríkjunum fer fram, en fyrsta kortið var gefið út af National Academy of Sciences í árslok 2015.
 
Staða býflugunnar er orðin afar döpur í þeim 139 sýslum í Bandaríkjunum sem kortlagðar hafa verið. 
 
Fjallað var um málið í Science Daily 19. febrúar. Þar kemur fram að búnir hafi verið til tveir viðamiklir kortagrunnar á landsvísu sem innihalda bæði ræktarland og náttúrulegt umhverfi. Inn í þessa upplýsingagrunna hefur verið safnað gögnum býflugnasérfræðinga sem taka til viðkomu býflugna á 45 gerðum ræktarlands. Var staða býflugna rannsökuð í 139 sýslum víða um Bandaríkin. Þar má nefna landbúnaðarhéruð í Kaliforníu og víðar á Kyrrahafsströndinni, í miðvesturríkjunum, vestanverðu Texas-ríki og á Mississippi-svæðinu. Á þessum svæðum hefur verið misræmi milli þess að villtum býflugum fækkar samfara kröfum um aukna ræktun. 
 
Þá bjuggu vísindamennirnir til líkan sem sýnir lífsskilyrði býflugna við mismunandi aðstæður um öll Bandaríkin. Er þar byggt á því hvaða möguleika býflugurnar hafa til að koma upp búi og sækja sér fæðu í blóm. Með því að meta breytileg áhrif á mismunandi búsvæðum telja menn sig síðan geta spáð fyrir um afdrif býflugnanna.  
 
Varað við hættunni
 
Miklar umræður hafa verið um notkun skordýraeiturs og annarra varnarefna í landbúnaði á liðnum árum, ekki síst í Bandaríkjunum og Evrópu. Fjölmargir vísindamenn hafa bent á hættuna sem skapast vegna þess að býflugur drepast jafnt og þær skordýrategundir sem menn eru að reyna að losna við. Einnig hefur verið sýnt fram á að býflugurnar verða ófrjóar samhliða því að grunnvatnið mengast.  
 
Milljarða hagsmunir
 
„Villtum býflugum fækkar og það kann að skaða bandarískan landbúnað og bændur,“ segir Taylor Ricketts, náttúruverndarvistfræðingur við háskólann í Vermont. Hann er jafnframt doktor við Gund Institute for Ecological Economics. Fjallað var um málið á árlegum fundi AAAS, „American Association for the Advancement of Science“ þann 19. febrúar sl.
 
„Þessi rannsókn gefur mynd af stöðu býflugunnar á landsvísu og áhrif þeirra á frjóvgun plantna,“ sagði Ricketts. Landbúnaður í Bandaríkjunum stólar m.a. á frjóvgun býflugna á nytjajurtum. Sú staðreynd að býflugurnar eru að hverfa mun hafa mikil áhrif á þriggja milljarða dollara veltu í landbúnaði.
Ricketts kynnti einnig á fundi AAAS „app“ fyrir snjallsíma sem á að auðvelda bændum að uppfæra upplýsingar svo hjálpa megi býflugunum. 
 
Mikilvæg náttúruauðlind
 
„Villtar býflugur eru mikilvæg náttúruauðlind sem okkur ber að virða og vernda. Ef komið er fram við þær af varúð geta þær hjálpað okkur við að framleiða landbúnaðarvörur fyrir milljarða dollara og gefið okkur yndislega möguleika á fjölbreyttri næringarríkri fæðu,“ segir Ricketts.
 
Bendir hann á að þær sýslur sem rannsakaðar voru reiði sig mjög á viðgang villta býflugnastofnsins. Þær séu t.d. nauðsynlegur þáttur í ræktun á möndlum, vatnsmelónum, graskerum, perum, ferskjum, plómum, eplum og bláberjum. Þar sem þessar tegundir eru ræktaðar hafa afföllin á býflugunum verið hvað mest. 
Á heimsvísu reiðir ræktun á meira en tveim þriðju hlutum mikilvægustu tegundanna sig á viðgang býflugna. Það á m.a við um ræktun á kaffi, kakói og fjölmörgum tegundum grænmetis og ávaxta. 
 
Eiturefnanotkun ógnar býflugunum
 
Notkun á gróðureyðingarefnum og skordýraeitri samfara loftslagsbreytingum og sjúkdómum ógna nú býflugunum samkvæmt rannsóknunum. Í 11 lykilríkjum, þar sem kortlagningin sýnir að býflugum er að fækka, var ræktun á korni aukin um 200% á fimm árum. Um leið og kornræktin var aukin hvarf graslendi og náttúrulegt umhverfi býflugnanna. 
 
Vandræði hjá býflugnabændum
 
Síðastliðinn áratug hafa hunangsfluguræktendur upplifað hrun býflugnabúa og erfiðleika við að halda lífi í flugunum til hunangsframleiðslu. Þetta hefur valdið auknum kostnaði hjá bændum og fjárhagstjóni. 
„Flest fólk þekkir aðeins eina eða tvær tegundir af býflugum, en tegundirnar eru 4.000 einungis í Bandaríkjunum,“ segir doktor Insu Koh, fyrrverandi rannsakandi sem leitt hefur rannsóknina. Hann segir að þegar eðlileg náttúruleg skilyrði séu fyrir hendi, þá sjá villtar býflugur um megnið af frjóvgun uppskeru í nágrenninu. Jafnvel þar sem stýrð frjóvgun fer fram með ræktuðum býflugum, þá hjálpa villtu býflugurnar til og það getur aukið uppskeruna enn frekar.
 
Það er dapurt að hugsa til þess að nú þurfi maðurinn að fara að notast við  „dróna“, eða fjarstýrðar gerfihunangsflugur eins og þessar, til að frjóvga nytjaplöntur. 

Skylt efni: býflugur

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...