Danskir fjárfestar sýna Íslandi áhuga
Um miðjan ágúst næstkomandi er væntanlegur til landsins hópur danskra fjárfesta sem hafa áhuga á að skoða möguleika á minkaeldi hér á landi. Hugmynd fjárfestanna er annaðhvort að kaupa bú í rekstri og eða byggja nýtt frá grunni.
Björn Halldórsson, bóndi og fyrrverandi formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir að aðdragandi komu Dananna sé sá að danski loðdýrabóndinn Finn Nielsen hafi haft samband við sig fyrir hönd danskra fjárfesta sem hafi áhuga á að koma til landsins og skoða möguleikann á loðdýraeldi á Íslandi.
„Hugmynd Dananna er að koma inn í loðdýra- eða minkaræktina hér með því að annaðhvort og helst að kaupa bú sem hægt er að koma í rekstur sem fyrst og eða að byggja upp nýtt bú. Áætlun Dananna gerir ráð fyrir að með tímanum muni þeir framleiða um 100 þúsund skinn á ári og því nokkuð stórt plan.“
Unnið að söfnun upplýsinga
Björn segir að hugmynd Dananna hangi á því hvort hér fæst byggingapláss og hver verði líkleg þróun efnahagsmála. „Mitt hlutverk er að safna upplýsingum um möguleika á að koma verkefninu á koppinn með því að ræða við forsvarsmenn sveitarfélaga sem eru nálægt fóðurstöðvum og líka þá sem reka fóðurstöðvarnar og eigendur aflagðra minkahúsa.
Að mínu mati er full alvara að baki hugmyndinni og ég tel að ef við höldum rétt á spöðunum og þeir telji aðstæður nægilega ákjósanlegar geti hún orðið að veruleika, enda Ísland vænlegur kostur til minkaeldis í dag.“
Hágæða og náttúruleg vara
„Satt best að segja veit ég ekki hvaða fjárfestar þetta eru annað en að þeir eru danskir. Ég er búinn að heyra nöfnin á þeim en þekki þá ekki að öðru leyti. Ég þekki aftur á móti Finn Nielsen vel og átti í viðskiptum við hann í fjölmörg ár. Það sem ég veit er að fjárfestarnir eru ekki tengdir Copenhagen Fur eða loðdýrarækt eins og hún var í Danmörku. Samkvæmt því sem Nielsen hefur sagt mér er sá sem er í forsvari fyrir hópinn fullorðinn endurskoðandi.
Danirnir vita að loðdýra- og minkaeldi á framtíðina fyrir sér og að notkun á skinnum á eftir að aukast enda um hágæða og náttúrulega vöru að ræða,“ segir Björn Halldórsson að lokum.