Danskir kannabisbændur
Heilbrigðisráðherra Dana hefur samþykkt að danskir bændur sem fá til þess sérstakt leyfi megi rækta kannabis sem nota á í lækningaskyni.
Ráðherrann, Ellen Trane Nørby, sagði þetta í samtali við Ritzau-fréttastofuna fyrr í sumar.
Leyfileg ræktun í lækningaskyni
„Nú er orðið leyfilegt að rækta kannabis sem nota á í lækningaskyni í Danmörku og ég vona að bændur sjái sér hag í ræktuninni. Ég vona einnig að bændur þrói aðferðir sem henti vel til ræktunar á kannabis til lækninga. Lengi hefur verið vitað að kannabis hefur verkjastillandi áhrif og það notað til slíks af sjúklingum sem þjást af krabbameini, heila- og mænusigi eða mænuskaða svo dæmi séu tekin,“ sagði Nørby.
Danska stjórnin samþykkti lög sem taka gildi 1. janúar 2018, sem leyfa sjúklingum að nota, undir eftirliti lækna, kannabisdropa til að lina þjáningar.
Heilbrigðisráðherrann leggur áherslu á að ræktunin muni fara fram undir ströngu eftirliti til að tryggja gæði framleiðslunnar.