Dráttarvélarisinn John Deere útnefnir Íslyft sem umboðsaðila á Íslandi
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Markaðsmiðstöð dráttarvélaframleiðandans John Deere á svæði 2 í Mannheim í Þýskalandi sendi frá sér yfirlýsingu 30. mars. Þar var því lýst yfir að Íslyft ehf. sé frá og með þeim degi umboðsaðili fyrirtækisins á Íslandi.
Þar segir einnig að Íslyft hafi verið valið úr hópi nokkurra fyrirtækja sem skoðuð voru. Fyrirtækið hafi verið valið vegna góðrar sögu á markaði og reynslu af þjónustu með vörur fyrir landbúnað og til annarra nota. Íslyft muni því annast alla sölu- og varahlutaþjónustu fyrir John Deere á Íslandi. Þá segir að með beintengingu og aðstoð frá John Deere muni Íslyft geta veitt þjónustu í hæsta gæðaflokki til að sinna þörfum núverandi og framtíðar viðskiptavina John Deere á Íslandi.
Íslyft er með aðstöðu í Vesturvör 32 í Kópavogi. Fyrirtækið er m.a. þekkt fyrir sölu gaffallyftara frá Linde og á skotbómulyfturum frá Merlo. Einnig hefur fyrirtækið annast sölu á ýmiss konar rekstrarvörum. Þá hefur Íslyft annast sölu á Goupil rafbílum með góðum árangri.
– Nánar um nýja umboðið á bls. 24 í nýjasta tölublaði Bændablaðsins.