Eðlilegt að reikna innflutning á kjöti með beini
Formaður Bændasamtakanna segir að Evrópusambandið reikni innflutning á kjöti með beini og eðlilegt að gera slíkt hið sama hér. Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna reikniaðferðina.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði í samtali við Bændablaðið fyrir skömmu að eðlilegt væri að innflutningur á kjöti verði reiknaður sem kjöt með beini en ekki hreint kjöt eins og nú er gert.
„ESB umreiknar beinlaust kjöt yfir í heila skrokka í mörgum tilvikum. Það er eðlilegt og sanngjarnt að nota sömu stuðla hvort sem kjöt er flutt inn eða út úr landinu,“ segir Sindri.
Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýna að reikna skuli innflutning á kjöti með beini í framhaldi af tollasamningunum sem tóku gildi 1. maí síðastliðinn. Í bréfi til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins segir að Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu gagnrýni boðaðar breytingar á úthlutun tollkvóta þar sem lagt er til að innflutningur á kjöti verði reiknaður sem kjöt með beini en ekki hreint kjöt eins og nú er gert.