Efling byggðar við Bakkaflóa
Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra um eflingu byggðar við Bakkaflóa. Tillögurnar voru settar fram í skýrslu nefndar sem ráðherra skipaði til að fjalla um málefni byggðarinnar. Í nefndinni sátu fulltrúar fimm ráðuneyta.
Í skýrslunni er lagt til að aflaheimildir til ráðstöfunar í Bakkafirði verði auknar, vegagerð um Brekknaheiði flýtt, byggðin tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir, samfélagssáttmáli gerður milli íbúa, sveitarstjórnar og ríkis og loks að starfsstöð í náttúrurannsóknum verði sett á fót í Bakkafirði.
Nefndin leggur til að ríkið verji allt að 40 milljónum króna á ári í fimm ár til undirbúnings verkefna á Bakkaflóasvæðinu. Fjármunum verður varið til að styðja við ýmis uppbyggingarverkefni í tengslum við tillögur nefndarinnar.
Kostnaður vegna aflaheimilda og vegagerðar eru utan þessa kostnaðar. Fimm megintillögur eru lagðar fram í skýrslu nefndarinnar.
Auknar aflaheimildir
Lagt er til að 150 þorskígildistonnum verði að lágmarki bætt við aflaheimildir til ráðstöfunar í Bakkafirði og óskað eftir samstarfi um nýtingu þeirra. Jafnframt verði kannað hvort ná megi fram jákvæðari áhrifum á samfélagið með því að slá af kröfum um vinnsluskyldu á Bakkafirði fyrir þessar viðbótarheimildir, að minnsta kosti tímabundið.
Bundið slitlag á Langanesströnd
Tekið er undir áform Vegagerðarinnar og eindregið lagt til að lagning bundins slitlags á Langanesströnd hefjist á árinu 2019 og að verkinu ljúki eigi síðar en 2021. Í beinu framhaldi verði hafist handa við vegagerð um Brekknaheiði sem er á samgönguáætlun.
Brothættar byggðir
Lagt er til að byggðin við Bakkaflóa verði tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir og verkefnisstjóri ráðinn til að stýra verkefninu. Nefndin leggur til að verkefnisstjóri verði í fullu starfi og hafi búsetu á Bakkafirði ef kostur er.
Samfélagssáttmáli um þjónustu og umhverfismál
Nefndin leggur til að gerður verði samfélagssáttmáli á milli sveitarstjórnar, íbúasamtaka og ríkis. Þar verði meðal annars lýst yfir vilja til að snúa við neikvæðri byggðaþróun og settar fram skuldbindingar hvers aðila fyrir sig. Í umræddum samfélagssáttmála mætti taka á ýmsum málum, svo sem átaki í að efla nærþjónustu og átaki í umhverfismálum.
Starfsstöð í náttúrurannsóknum
Loks er lagt til að skoðað verði að koma á fót starfsstöð í náttúrurannsóknum á Bakkafirði sem hefði það hlutverk að rannsaka lífríki Bakkaflóa, þar með talið lífríki Finnafjarðar og nágrennis. Um væri að ræða útibú frá annaðhvort Náttúrufræðistofnun Íslands eða Náttúrustofu Norðausturlands.