Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ekki allt sem sýnist þegar horft er yfir uppgrætt land
Fréttir 4. janúar 2016

Ekki allt sem sýnist þegar horft er yfir uppgrætt land

Höfundur: Vilmundur Hansen

Okkur hættir til að horfa eingöngu á gróðurþekju og tegundafjölda við mat á árangri uppgræðslustarfs. Það segir þó aðeins hálfa söguna. Land sem við fyrstu sýn lítur út fyrir að vera vel uppgróið og hæft til beitarnota á ný getur verið í svo viðkvæmu ástandi að það þolir jafnvel ekki létta beit.

Ástand og þol endurheimtra vistkerfa byggir nefnilega ekki síður á ástandi jarðvegsins. „Fólk veltir þætti jarðvegsins í heildarsamhengi landgræðslu allt of sjaldan fyrir sér,“ segir Jóhann Þórsson, vistfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins.

„Frjósöm mold er forsenda beitarþolinna vistkerfa og ekki allt sem sýnist þegar horft er yfir uppgrætt land. Það getur vissulega litið vel út en undir örþunnri gróðurhulu er kannski sandur sem á lítið skylt við frjósama mold. Sendinn jarðvegur er erfiður þegar kemur að uppgræðslu. Hann er laus í sér og rofgjarn og þolir því ekki mikið rask. Auk þess er sandurinn ófrjósamur og allt veldur þetta því að gróður á slíkum svæðum á erfitt uppdráttar.

Því þarf að huga vel að landnýtingu á slíkum svæðum. Vanþekking á eðli jarðvegarins getur því valdið því að uppgræðsluaðgerðir fari fyrir lítið.“

Landgræðsla er kostnaðarsöm

Að sögn Jóhanns er ekki þar með sagt að sendinn jarðvegur sé ónýtingarhæft land. „Landið í kringum Gunnarsholt á Rangárvöllum er mjög sendið og þar hafa verið ræktaðir upp miklir akrar á tiltölulega skömmum tíma sem gefa vel af sér. Þar hefur jarðvegurinn náð nægjanlegri frjósemi til að unnt sé að nýta landið.  Forsenda þess að ná slíkum árangri er að nægilega sé borið á landið í upphafi, það nái að þróast og þroskast, og að vel sé fylgst með því. Það er augljóslega kostnaðarsamt og því ekki raunhæft með beitarnýtingu sem meginmarkmið nema þá að landið gefi þeim mun meira af sér. Ef það gefur lítið af sér, til dæmis á hvern hektara, eins og beitiland gerir gjarna þá er þetta ekki raunhæft markmið. Beitiland á sandsvæðum verður alltaf viðkvæmt.“
Skortur á köfnunarefni

„Oft er það svo að fólki finnst lítið vera að gerast á landgræðslusvæðum og árangurinn af starfinu takmarkaður. Þetta á sérstaklega við ef um að ræða hrjóstrug svæði. En það er ekki allt sem sýnist.
Þótt hágróður, grös og blómjurtir virðast eiga erfitt uppdráttar eftir að áburðaráhrifin fjara út er þarna líf, en það dylst okkur því það er smágert og við erum ekki vön að horfa eftir því. Þörungar, mosar og fléttur ásamt margvíslegum örverum eru að mynda þekju, skán, og grös og blómplöntur eru líka að mynda fræ og fjölga sér þótt í smáum stíl sé.

Ég hef stundum kallað þetta sinustigið. Þetta er í rauninni fyrsta framvindustig landgræðslusvæða þegar köfnunarefni fer að skorta, en örverur sem brjóta sinuna gera miklar kröfur til köfnunarefnis. Þarna er komið að ákveðnum þröskuldi framvindunnar sem við eigum ekki svo gott með að ráða við og lítið annað í boði en að bíða, því með tímanum binda þessar lífverur köfnunarefni sem verður smám saman til reiðu fyrir annan gróður. Þegar því stigi er náð förum við að sjá verulegar breytingar. En þetta getur tekið langan tíma og óhætt er að tala um áratugi í því samhengi. Þetta sjáum við glögglega til dæmis á þeim svæðum sem voru grædd upp með Þjóðargjöfinni 1974. Þau svæði eru mörg hver núna fyrst að taka verulega við sér, 40 árum síðar. Við getum auðvitað stytt okkur leið og notað áburð en það er dýrt og óraunhæft miðað við umfang þessara svæða, og mikil áburðargjöf getur haft neikvæð áhrif á náttúrulega framvindu.“

Svipað ástand og eftir ísöld

„Ef horft er til baka þá gerum við ráð fyrir að land hafi verið nærri gróðurlaust við lok ísaldar. Ástandið var væntanlega eitthvað í líkingu við mörg örfoka landgræðslusvæði eins og við þekkjum þau í dag.

Samkvæmt frjókornagreiningum í jarðvegssniðum tók það um 1000 ár frá lokum ísaldar þangað til það fóru að sjást gras- og birkifrjókorn um nánast allt land. Það hefur semsagt tekið um 1000 ár fyrir gróður að nema Ísland.

Það er hinn raunverulegi tímaskali þegar við erum að horfa á framvindu innan stórra svæða, við erum að tala um áratugi eða frekar árhundruð ef átt er við algerlega örfoka landslag, ekki síst ofan 400 metra hæðarmarka. Þessum tímaskala getum við breytt  með því að auka framboð á köfnunarefni eða búið til fræuppsprettur með uppgræðslum inni á þessum svæðum. Köfnunarefninu getum við miðlað með áburði eða með lúpínu en þar þurfum við í upphafi endinn að skoða. Með þessum inngripum erum við að stýra framvindunni inn á ákveðnar brautir og það er ekki víst að það sem verður til sé það sem við höfðum í huga í upphafi.“

Moldin er undirstaðan

„Undirstaðan er alltaf moldin og það er hún sem við erum í rauninni að búa til með uppgræðslustarfi.  En hún myndast mjög hægt. Þess vegna er þetta svona mikilvæg auðlind sem við verðum að vernda, og  jafnframt þurfum við að átta okkur á því hversu óskaplega langan tíma það tekur hana að myndast,“ segir Jóhann Þórsson, vistfræðingur og sérfræðingur hjá  Landgræðslunni. 

Skylt efni: Landgræðsla | uppgræðsla

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...