Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 4. ágúst 2020
Engar ákvarðanir um afurðaverð hjá KS og Fjallalambi
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Stefna okkar er að gera ávallt okkar besta í að greiða raunhæft afurðaverð sem byggir á markaðs- og rekstrarlegum forsendum,“ segir Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS.
Ákvörðun um afurðaverð í komandi sláturtíð hjá KS liggur ekki fyrir, en búið er að gefa út álagsgreiðslur fyrir fyrstu vikurnar. Hann segir þó líklegt að farið verði yfir það og metið hvort þörf sé á endurskoðun á því sem áður hefur verið kynnt. Það yrði gert fljótlega.
Ágúst Andrésson.
Ágúst segir að birgðastaða verði í lágmarki þegar slátrun hefst í haust og því minni þörf á útflutningi.
„Það er eins og gengur að sumt fellur með, annað á móti. Við erum að meta þetta og ræða við okkar helstu kaupendur um hvernig verð geti þróast í haust. Þegar það liggur fyrir þá munum við gefa út upphafsverð og meta það svo þegar fram líður hvort við getum bætt einhverju við, eins og verið hefur,“ segir Andrés.
Líklegt að slátrun hefjist 24. ágúst
Stefnt er að því að hefja slátrun hjá KKS dagana 24. eða 25. ágúst en nokkru síðar hjá SKVH á Hvammstanga, eða 7. september. Ágúst kveðst vonast eftir sambærilegu innleggi og á liðnu hausti en félagið gæti bætt við sig.
Aukinn kostnaður við að koma fólki til landsins
Hvað mönnun sláturhúsa varðar segist hann gera ráð fyrir að leysa málin með erlendu vinnuafli líkt og verið hefur undanfarin ár.
„Aðalmálið er að finna út úr því hvað við þurfum að gera til að koma manskapnum til okkar, vinna það í tíma til að gæta fyllsta öryggis í sóttvörnum vegna kórónuveirunnar. Hvernig sem á það er litið þá mun fylgja því aukinn kostnaður,“ segir Ágúst. Sú breyting verður þó á í haust að nýsjálenskir slátrarar verða ekki að störfum hjá KKS í haust og því þarf að þjálfa annað starfsfólk í þær stöður sem þeir áður gegndu. „Við munum að öllum líkindum fara aðeins hægar af stað með minni slátrun hvern dag,“ segir hann.
Fjallalamb tjáir sig ekki um viðmiðunarverð LS
Sláturtíð hjá Fjallalambi á Kópaskeri hefst 15. september og henni lýkur í lok október. Hugsanlega verður einhver forslátrun fyrr, að sögn Björns Víkings Björnssonar framkvæmdastjóra.
Björn Víkingur Björnsson.
Hann segir að margir af starfsmönnum fyrri ára hafi sótt um vinnu í sláturtíð hjá Fjallalambi en kórónuveiran hafi veruleg áhrif þar á. „Það snýst allt um það að koma eins og mögulegt er í veg fyrir að smit komist inn í fyrirtækið. Þess vegna vil ég frekar ráða fólk sem býr á Íslandi, en það er lítið sótt um.“
Björn Víkingur segir birgðastöðu fyrirtækisins nokkuð góða. Hann vill ekki tjá sig um viðmiðunarverð sem Landssamtök sauðfjárbænda gáfu út fyrir nokkru. „En hækkun til bænda hlýtur að vera háð væntingum okkar um hækkanir úti á markaði,“ segir Björn Víkingur.