Engar breytingar í sumar á reglum um útrýmingu
Ekki eru fyrirhugaðar neinar breytingar á reglugerð um útrýmingu á riðuveiki í sauðfé í sumar.
Starfshópur var skipaður í lok maí sem var falið að skila tillögum til matvælaráðherra 1. nóvember varðandi nýja nálgun við útrýmingu á riðuveiki. Hópnum var falið að vinna að greiningu á núverandi stöðu, útfærslu á aðferðafræði við ræktun fjár með verndandi arfgerðir og mati á breyttri nálgun aðgerða gegn riðuveiki.
Í svari matvælaráðuneytisins, við fyrirspurn um mögulegar breytingar í sumar á reglunum, kemur fram að á meðan sérfræðingahópurinn sé að störfum mun ráðuneytið ekki leggja til breytingar á þeim reglum sem gilda um útrýmingu á riðuveiki enda munu breytingar byggja á tillögum sérfræðingahópsins. Heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um útrýmingu á riðu muni fara fram þegar sérfræðingahópurinn hefur skilað tillögum sínum.
Í fyrirspurninni var einnig spurt um efni stöðuskýrslu sem til stóð að starfshópurinn skilaði 15. júní. Í svarinu kemur fram að yfirdýralæknir hafi verið í leyfi frá störfum á þeim tíma og því hafi skýrslunni ekki verið skilað, en áætlað sé að henni verði skilað á næstunni.
Af svörum ráðuneytisins er ljóst að ekki stendur til að breyta reglum um bótagreiðslur til bænda sem hafa lent í niðurskurði. Í svörunum kemur þó fram að enn sé unnið að samningum um bótagreiðslur við bændur í Miðfirði.