Fé fækkað um 3.500 á undanförnum árum
Laugardaginn 2. september var réttað í Ljárskógarétt í Dölum, rétt norðan Búðardals. Að sögn Ágústs G. Péturssonar, bónda í hinu forna höfuðbóli Hjarðarholti í Laxárdal, kom fé þokkalega vænt af fjalli, en smalað var Ljárskóga- fjall í Dölum.
„Miðað við hvernig vorið var þá finnst mér það koma bara nokkuð vel af fjalli og mér heyrist á öðrum hér sveitinni að þetta sé alveg þokkalegt. Það gekk vel að smala, þetta var svona nálægt tvö þúsund sem við rákum í réttina. Fé hér í Dölunum hefur fækkað mjög á undanförnum árum, sérstaklega hér í Laxárdal þar sem mér telst til að hafi fækkað um 3.500 á síðustu fimm til sex árum.
Þetta er mjög slæm þróun þar sem sauðfjárrækt hentar einstaklega vel á okkar svæði.“
Ósáttur við afurðaverðið
Ágúst reiknar með að senda sín lömb til slátrunar á næstu dögum, en honum líst ekki nógu vel á afurðaverðið sem sauðfjárbændum er boðið upp á. „Ég hefði viljað fá það upp í þúsundkallinn fyrir kílóið,“ segir hann. „Núna fáum við ekki þessar greiðslur sem komu úr spretthópnum, vegna áburðarkaupanna – og það munar miklu um það.“
Spurður hvort þau taki eitthvað heim til vinnslu, segir hann að það sé ekkert svigrúm til þess – nóg sé fyrir þau að sjá um sjálfan búskapinn, en þau Björk Baldursdóttir, kona hans, eru með um 800 fjár á vetrarfóðrum. „Við höfum verið með erlendar ungar konur hér í allnokkur ár til að hjálpa okkur bæði á sauðburði og í göngum og réttum. Það hefur verið mjög ánægjulegt og góð kynni tekist með okkur,“ segir Ágúst.