Fellibylurinn Irma eyðilagði 50% af sítrusávaxtauppskeru Flórída
Eyðileggingin í kjölfar fellibylsins Irma er gríðarleg. Mannvirki skemmdust og margir eru heimilislausir.
Fellibylurinn fór yfir mikið af ræktunarlandi og er talið að hann hafi eyðilagt allt að 50% af áætlaðri uppskeru sítrusávaxta í Flórída, en til sítrusávaxta teljast meðal annars appelsínur, sítrónur og lime. Auk þess að valda skemmdum á ræktun fjölda annarra ávaxtategunda. Ein af afleiðingum fellibylsins gæti verið hærra verð á ávöxtum á næstu mánuðum.
Ekki er nóg með að Irma hafi valdið skemmdum á uppskerunni heldur reif fellibylurinn einnig upp heilu ávaxtatrén sem getur tekið mörg ár að rækta upp að nýju áður en þau fara að gefa ávöxt.