Ferðalag með Feng - 3. hluti
Höfundur: Jón Baldur Lorange
Í þessum 3. hluta greinaflokksins Ferðalag með Feng er fjallað um þróun skýrsluhalds í hrossarækt á fyrstu árum þess hjá Búnaðarfélagi Íslands og um nýtt forrit, sem kom til sögunnar árið 1994 og 1995 1. og 2. hluti birtust í Bændablaðinu 14. desember 2017 og 11. janúar 2018.
Merkt starf Búnaðarfélagsins
Vægi vinnu við skýrsluhald í hrossarækt hjá Búnaðarfélagi Íslands fór vaxandi frá og með árinu 1991, en fyrir þann tíma var vinna við skýrsluhald í sauðfjár- og nautgriparækt í algjörum forgangi. Enda má segja að þær búgreinar hafi lengi búið við skipulagt skýrsluhalds sem byggði á sterkum stoðum, öflugu ræktunarstarfi og almennri þátttöku bænda um allt land. Búnaðarfélagið lagði mikla áherslu á að byggja einnig upp skýrsluhald í hrossarækt með tilkomu skýrsluhaldskerfisins Fengs, eins og komið hefur fram í 1. og 2. hluta þessa greinaflokks. Þannig fór meiri en fjórðungar vinnutíma skráningarfólks í tölvudeild félagsins í vinnu vegna skýrsluhalds í hrossarækt á árunum 1992-1994, sem var svipað hlutfall og vinna við skýrsluhald í sauðfjárrækt. Næstu tvö árin á eftir fór þetta hlutfall í um 40%. Greinarhöfundur skrifaði í starfsskýrslu sína vegna ársins 1994:
,,Skýrsluhaldið í hrossaræktinni hefur fest sig í sessi. Þó að stærsti hluti vinnunnar fari nú orðið í hið árlega skýrsluhald fer mikill tími ennþá í að yfirfara og skrá eldri upplýsingar um kynbótadóma og ætterni hrossa. Það er hins vegar ljóst að sú endurskipulagning og það átak sem ráðist var í árið 1991 hefur skilað góðum árangri. Þetta verða þúsundir hrossaræktenda, um allt land, varir við í sínum störfum og lýsti greinarhöfundur Morgunblaðsins fyrir hrossaræktina þessari endurskipulagningu sem „grettistaki“ og Jónas Kristjánsson ritstjóri DV m.m. lýsti ánægju með „merkt“ starf Búnaðarfélagsins í þessum efnum í formála árlegrar bókar sinnar um hrossarækt.“ (Búnaðarrit 1995, 108. árgangur).
Í upphafi árs 1993 var kynbótamat eða kynbótaspá hrossa, sem var reiknað með svokallaðri BLUP-aðferð með forritum dr. Þorvaldar Árnasonar, búfjárkynbótafræðings, orðið hluti af Fengsforritinu.
Í lok árs 1994 höfðu 61.270 hross verið skráð í gagnagrunn Fengs, sem var fjölgun um 20.000 hross á tveimur árum. Unnið var samhliða að því að skrá inn kynbótadóma af kynbótasýningum á Íslandi og höfðu 19.332 dómar verið skráðir í lok árs 1994. Bæði var um að ræða dóma þess sýningarárs en ekki síður eldri kynbótadómar, en áhersla var lögð á skráningu allra kynbótadóma til styrkja stoðir kynbótamatsins (BLUP). Skráning á ætterni kynbótahrossa þjónaði sama tilgangi. Stærð gagnasafns Fengs innihélt, 27. janúar 1998, 99.425 hross, 23.780 kynbótadóma, 66.198 fangfærslur og upplýsingar um 9.787 eigendur hrossa.
Í Morgunblaðinu 12. október 1994 er Búnaðarfélag Íslands hrósað fyrir að hafa lyft grettistaki í endurskipulagningu skýrsluhalds hrossaræktarinnar. Þar sagði orðrétt:
„...hverjum þeim sem fylgst hefur með endurskipulagningu skýrsluhalds hrossaræktarinnar hjá B.I. síðustu árin dylst ekki að þar hefur verið lyft grettistaki.“
Greinarhöfundur var Valdimar Kristinsson, en hann skrifaði reglulega um hrossarækt í Morgunblaðinu.
Út-Fengur var nýtt systurforrit Fengs sem var smíðað í tölvudeild Búnaðarfélagsins árið 1995 til að halda utan um útflutning á hrossum og útgáfu upprunavottorða. Út-Fengur umbylti vinnufyrirkomulagi við útgáfu upprunavottorða, og byggði upp gagnasafn um öll hross sem flutt voru úr landi.
Fengur heim í hlað
Með upplýsingatækninni jókst aðgengi almennings að upplýsingum. Upplýsingatæknin opnaði marga heima og eins og greinarhöfundur skrifaði í inngangi fyrrnefndrar starfsskýrslu þá færði upplýsingatæknin ,,heiminn heim í hlað”. Þó að Fengur hafi upphaflega skrifaður sem miðlægt gagnavörslukerfi fyrir skýrsluhald í hrossarækt á landsvísu, kom fljótt upp áhugi á, að gerð yrði útgáfa fyrir einmennistölvur, afbrigði af Feng, sem nýttist hinum almenna hrossaræktanda. Árið 1994 var Internetið ennþá handan við hornið, og því þurfti að smíða forrit fyrir einmennistölvur, sem voru að verða almenningseign. Búnaðarfélag Íslands ákvað að slá til og fól greinarhöfundi að smíða forrit með afriti af gagnagrunni Fengs. Í mars mánuði 1994 kom út prófunarútgáfa, útgáfa 0,7, en í desember sama ár kom á markað útgáfa 1,0 af forriti fyrir einkatölvur í Dos-stýrikerfinu. Forritið hlaut nafnið Einka-Fengur og kom forritið á 16 disklingum, enda gagnamagnið 22 Mb að stærð og gagnagrunnurinn innihélt upplýsingar um 60 þúsund hross. Forritið var skrifað í hlutbundna forritunarmálinu Turbo Pascal og gagnagrunnshluti forritsins var skrifaður með Paradox Engine gagnaköllum og gagnagrunnur var Paradox. 60 eintökum af fyrstu útgáfu Einka-Fengs var dreift fyrir árslok 1994 til fimm landa auk Íslands. Áskrifendum fjölgaði á næstu árum með aukinni tölvueign og fjölgun áhugafólks um íslenska hestinn. Útgáfa 1,5 kom út í nóvember 1995 með gagnauppfærslu þar sem bættust við 15 þúsund hross, uppfært kynbótamat og kynbótaspá fyrir ófætt afkvæmi. Útgáfa 1,5A kom út árið 1996 með vandaðri notendahandbók en með útgáfu 2,0 árið 1997 var Einka-Fengur leystur af hólmi með Veraldar- og Íslandsfeng og voru þá áskrifendur orðnir um 200 talsins í 12 löndum.
Einka-Fengur kynnti til sögunnar ,,heimaréttina“, sem ennþá gegnir lykilhlutverki í Feng nútímans, WorldFeng. EinkaFengur opnaði hrossaræktendum og áhugafólki um hrossarækt hér á landi og erlendis aðgang að yfirgripsmiklum upplýsingum um íslensk hross, svo sem um ættir hrossa, eigendur og kynbótadóma. Jafnframt því að opna notendum aðgang að gagnasafni Búnaðarfélags Íslands um hrossarækt gat hver og einn auðgað gagnasafn forritsins með því að skrá upplýsingar um eigin hrossarækt. Árlega fengu áskrifendur uppfærslu af gagnasafni Búnaðarfélagsins. Þar var um að ræða kynbótadómar hvers árs og viðbætur frá þátttakendum skýrsluhaldsins á landsvísu, upplýsingar um frostmerkingar og nýtt kynbótamat. Alþjóðleg útgáfa af Einka-Feng var gefin út undir heitinu PC-Fengur á ensku og þýsku á árinu 1996.
Í viðtali við dagblaðið Dag á Akureyri 1. febrúar 1995 sagði Kristinn Hugason, hrossaræktarráðunautur, reikna með því að framsæknir og nútímalegir hrossabændur, sem hefðu tölvuvæðst á annað borð, mundu fá sér
Einka-Feng. „Sá kunni ræktandi Sveinn Guðmundsson og fjölskylda hans á Sauðárkróki voru með þeim fyrstu til að fá sér forritið en einnig er forritið sérlega hentugt fyrir þá sem taka að sér hrossasölu og útflutning.“
Einka-Fengur var síðan leystur af hólmi með Veraldarfeng árið 1997 og Íslandsfeng árið 1998, og verður fjallað um það í 4. hluta Ferðalags með Feng.