Fjarfundir fyrir kúabændur hjá RML
Á vegum Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) verður haldinn fjarfundur fyrir kúabændur á morgun, undir heitinu Fjósloftið, vegna aðstæðna á tímum COVID-19.
Meiningin er að þetta sé fyrsti fundurinn af fleiri af sama meiði, þar sem formið verður á þann veg að fyrst er flutt stutt framsaga, tíu til fimmtán mínútur, um tiltekið efni og síðan verður henni fylgt eftir með umræðum.
Á vaðið mun ríða Sigtryggur Veigar Herbertsson en hann ætlar að ræða um atferli kúa í lausagöngufjósum. Fundurinn verður á morgun miðvikudag 15. apríl kl. 13.00.
Í tilkynningu RML er tekið fram að ekki sé nauðsynlegt að vera með Microsoft Teams uppsett í tölvunni til að geta tekið þátt í fjarfundinum.
Miðvikudaginn 22. apríl mun svo Jóna Þórunn ræða um hjarðstýringu í mjaltaþjónafjósum.
Til þess að tengjast fundinum er hægt að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.