Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Fréttir 4. apríl 2018
Flóaáveitufélagið 100 ára
Höfundur: Guðmundur Stefánsson, Hraungerði.
Hinn 8. febrúar 1918 var Flóaáveitufélagið stofnað í Fjölni á Eyrabakka. Það er því 100 ára.
Lög um áveitu yfir Flóann voru samþykkt á Alþingi árið 1917. Þar var kveðið á um að stofna skyldi félag um áveituna og yrðu ¾ fundarmanna lögmæts fundar að samþykkja stofnun áveitufélags.
Fjölmennur fundur
Á stofnfundinn mættu 103 bændur. Tveir voru farnir þegar tillagan um félagsstofnunina kom til atkvæðagreiðslu. Sjötíu og níu samþykktu tillöguna (78%), tuttugu og einn var mótfallinn og einn sat hjá.
Á 19. öld var framfaravakning meðal þjóðarinnar, sem svo oft hafði haft knappt til matar. Á síðari hluta aldarinnar vaknaði áhugi fyrir áveitum á engjalönd, til þess að tryggja og auka heyfeng og þar með framleiðslu búsafurða. Tún voru þá almennt lítil og meirihluti heyskaparins var á útjörð.
Þó að Flóinn hafi löngum blautur verið höfðu Flóamenn áhuga á að fá áveitu á lönd sín með skipulegum hætti og kannske ekki síður að geta síðan veitt því af þegar að slætti leið.
Flóðgáttin opnuð 1927
Flóinn var þrímældur til könnunar og til að skipuleggja um hann áveitukerfi. Fyrst var hann mældur árið 1886, svo 1906 og loks 1914–15. Framkvæmdir við áveituna hófust 22. maí 1922 og var flóðgáttin við Hvítá á Brúnastaðaflötum opnuð í fyrsta sinn og vatni hleypt úr ánni inn á áveitukerfið 27. maí 1927.
Uppskera jókst með tilkomu áveitunnar og heyfengur varð auðteknari. Samkvæmt forðagæsluskýrslum náði heyskapur á áveitusvæðunum hámarki árið 1940, 78.000 hestburðum. Talsvert var um það að utanhéraðsmenn fengju leigðar slægjur á áveitusvæðunum og eitthvað var um heysölu af teig. Það hey er ótalið á forðagæsluskýrslum úr Flóanum.
Mjólkurbú Flóamanna
Til þess að koma auknum búsafurðum á markað gekkst Flóaáveitufélagið fyrir stofnun Mjólkurbús Flóamanna, sem tók til starfa 5. desember 1929.
Um þær mundir sem Flóaáveitan komst loks í gagnið voru möguleikar til túnræktar að aukast. Tilbúinn áburður og grasfræ var kominn á markað og plógar og önnur hestaverkfæri kominn til.
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða
Þegar kom fram á 5. áratuginn fór áhugi á framræslu og þurrkun lands til túnræktar vaxandi og þá var þegar farið að bæta afrennslisskurðina, svo hægt væri að ræsa í þá, jafnframt því sem þeir gegndu áfram því hlutverki að taka við áveituvatninu, þegar því var hleypt af engjunum fyrir slátt. Árið 1946 beitti Flóaáveitufélagsið sér fyrir stofnun Ræktunarsambands Flóa og Skeiða, sem keypti þá þegar vinnuvélar til ræktunarstarfa.
Með vaxandi túnrækt á 6. áratugnum dró svo áfram jafnt og þétt úr engjaheyskap. Árið 1962 er talið að ekki dygðu lengur minni háttar lagfæringar á skurðakerfi áveitunnar. Samþykkt var að láta gera heildaráætlun um framræslu Flóans og á aðalfundi Flóaáveitufélagsins árið 1964 var samþykkt að hrinda áætluninni í framkvæmd. Árið 1970 var að mestu lokið þeim framkvæmdum sem áætlunin gerði ráð fyrir.
Á kalárunum fyrir 1970 bættu sumir sér upp grasbrestinn með engjaheyskap en þegar batnaði var engjaheyskap á áveituengjum Flóans endanlega lokið.
Vatnsmiðlun
Hlutverki skurðakerfis Flóaáveitunnar var þó ekki þar með lokið. Það er nýtt sem vatnsmiðlun. Það er viðtaki vatns úr framræsluskurðum bænda og fleytir fram leysingavatni í hlákutíð, jafnframt því sem í þurrkaköflum á sumrin er hleypt vatni inn á skurðakerfið til þess að halda uppi grunnvatnsstöðu og tryggja búfénaði vatn í högum. Vegna hraunsins sem er undirliggjandi hættir Flóanum við ofþornun í langvarandi þurrkum á sumrin.
Viðhald áveitukerfisins felst í því að halda við flutningsgetu skurðanna og stuðla að sem jafnastri dreifingu vatnsrennslis um þá. Sveitarfélögin í Flóanum eru fjárhagslegir bakhjarlar áveitunnar, en áður fyrr var innheimtur áveituskattur á hvern hektara áveitulands.
Ég held að skurðakerfi Flóaáveitunnar sé hið eina á Íslandi sem er tvíhliða og virkar sem vatnsmiðlun. Flóamenn mega ekki vanrækja þetta æðakerfi sveitarinnar, það er lífsnauðsyn, hvort sem ganga úrfelli eða þurrkar.
Aðalfundur og afmæliskaffi í Félagslundi
Aðalfundur Flóaáveitufélagsins var haldinn í Félagslundi miðvikudagskvöldið 21. febrúar og sóttu hann um 40 manns. Fundurinn fór hið besta fram og fundargerð ritaði Margrét Jónsdóttir á Syðra-Velli. Stjórn félagsins var endurkjörin en hana skipa; Björn Harðarson í Holti sem er stjórnarformaður, Már Ólafsson í Dalbæ og Grétar Sigurjónsson í Smjördölum. Umsjónarmaður Flóaáveitunnar er Guðmundur Stefánsson í Hraungerði.
Að loknum aðalfundarstörfum var drukkið afmæliskaffi Flóaáveitufélagsins 100 ára og héldu nokkrir fundarmanna ræður í tilefni afmælisins.
Meðal gesta var Kirkjuráð Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi og ávarpaði forseti félagsins, Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, samkomuna. Hann færði einnig fundinn og afmælið til myndar eins hér má sjá.
Guðmundur Stefánsson, Hraungerði.