Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Á faglegum nótum 11. maí 2020
Sauðfjárbeit og gróðurbreytingar á afrétti Hrunamanna
Höfundur: Sigurður Hjalti Magnússon
Frá landnámi hefur gróðri hnignað verulega á landinu, ekki síst á neðanverðu hálendinu og þá einkum innan gosbeltisins. Þar er nú að finna víðáttumikil örfoka svæði sem áður voru klædd gróðri.
Ástæður þessara breytinga hafa verið raktar til óhagstæðara veðurfars, eldvirkni og til margs konar umsvifa mannsins, ekki síst búfjárbeitar. Í marga áratugi hefur Landgræðslan unnið að uppgræðslu á hálendinu og einnig hafa bændur og ýmsir áhugamenn grætt upp illa farið land á afréttum. Á síðustu árum er sífellt meiri áhersla lögð á að landnýting verði sjálfbær þannig að gróður aukist, jarðvegur byggist upp og að meðferð lands stuðli að bindingu kolefnis. Raddir sem krefjast þess að illa farið land verði friðað fyrir beit verða sömuleiðis stöðugt háværari.
Hér verður gefið yfirlit yfir aðstæður á afrétti Hrunamanna í Árnessýslu og fjallað um gróðurbreytingar sem þar hafa orðið á undanförnum áratugum, áhrif sauðfjárbeitar á gróður og nokkrar sviðsmyndir dregnar upp um uppgræðslu og meðferð lands í afréttinum og hvernig æskilegt sé að standa að verki í náinni framtíð.
1. mynd. Hrunamannaafréttur, sem er um 1000 km² að flatarmáli, er á suðvesturhálendinu austan Hvítár. Hæð yfir sjó er frá um 250 m suðvestast í afrétti upp í 1488 m í Kerlingarfjöllum; 500 m hæðarlína er sýnd með gráum lit. Landgræðslugirðing suðvestast í afrétti er merkt með svartri línu. Helstu rofsvæði eru sýnd í rauðum lit en uppgræðslusvæði græn. Rannsóknasvæðið við Heygil er merkt sem gulur punktur.
Ástand afréttar
Afréttur Hrunamanna, sem er um 1.000 km2 að stærð, liggur á gosbelti landsins (1. mynd). Líkt og á mörgum afréttum innan þess hafa stór svæði orðið gróður- og jarðvegseyðingu að bráð. Afrétturinn er þó mun betur gróinn en margir afréttir á gosbeltinu. Þetta kemur vel fram á gervitunglamyndum og gróður- og vistgerðakortum. Athuganir benda til þess að eyðingin hafi staðið lengi en kortin sýna að um 80 km2 neðan 500 m hæðarmarka eru nú örfoka. Það samsvarar um fimmtungi af því landi sem liggur undir þeim hæðarmörkum. Samhliða rofinu hafa þarna orðið miklar gróðurbreytingar. Birkileifar, sem enn finnast á nokkrum stöðum, leifar af kolagröfum og fornleifarannsóknir benda eindregið til þess að birkiskógur eða kjarr hafi áður verið ráðandi gróður á stórum svæðum sem nú eru örfoka neðan 300 m hæðarmarka. Miðað við núverandi gróðurskilyrði, svo sem hita, úrkomu og landslag, má ætla að samfelldur gróður eigi að geta þrifist á flestum svæðum í afréttinum undir 500 m hæð.
Frá því um 1980 hefur hlýnað talsvert á landinu og hafa rannsóknir sýnt að hlýnunin er einna mest á norðvesturhluta landsins. Ætla má að á þessum tíma hafi hlýnað töluvert á afrétti Hrunamanna. Ársúrkoma verður að teljast ríkuleg en í afréttinum er hún víðast hvar yfir 1200 mm á ári.
Beit í afrétti og fjárfjöldi
Líklegt er að Hrunamannaafréttur hafi verið nýttur til sauðfjárbeitar um aldir og jafnvel frá landnámi. Hversu mikil beitin hefur verið er hins vegar ekki þekkt. Allgóðar upplýsingar eru þó til um fjárfjölda í Hrunamannahreppi frá 1885 sem staðfesta að hann hefur verið breytilegur. Fyrir 1900 voru um 5.000 kindur á vetrarfóðrum í hreppnum en þeim fjölgaði síðan talsvert og voru um 8.500 árið 1925. Þá fór þeim fækkandi og vegna niðurskurðar var fé fæst um 1950, eða um 3.200 fjár. Eftir fjárskipti 1951–1952 fjölgaði fé að nýju og varð flest um 1980, eða 9.200 talsins. Síðan hefur fé fækkað og var fjöldi á vetrarfóðrum árið 2015 um 4.200.
Tölur um fjárfjölda í afrétti eru ekki eins vel þekktar en um 1980 var fé einna flest og hafa eldri fjárbændur í hreppnum áætlað að þá hafi verið á fjalli 12–13 þúsund fjár. Nákvæmari upplýsingar frá síðustu árum benda til verulegrar fækkunar í afrétti en sumarið 2015 er talið að fjöldi fjár hafi verið 5.000 og árið 2019 4.200 talsins.
Hver eru áhrif sauðfjárbeitar?
Óhætt er að fullyrða að áhrifin fara mikið eftir því hversu þung beitin er, en einnig hvenær beitt er, hversu lengi og hvers konar land er beitt. Áhrifin verða einkum með þrennum hætti, í fyrsta lagi með blaðskerðingu, þ.e. þegar plöntur eru bitnar og hlutar þeirra fjarlægðir, í öðru lagi hefur beit áhrif á flutning og hringrás næringarefna og í þriðja lagi vegna traðks sem getur haft áhrif á gróður og jarðvegsyfirborð.
Yfirleitt er það hamlandi fyrir plöntur þegar bitið er af þeim. Lostætar tegundir eru valdar úr gróðri og þegar fer að sneiðast um þær í haganum fer féð að bíta aðrar sem ekki eru eins „bragðgóðar“. Beit á eftirsóttum tegundum getur því orðið veruleg þótt beitarþungi sé lítill, þ.e. tiltölulega fáar skepnur á flatareiningu. Þær plöntur sem ekki eru bitnar fá meira rými og vaxa betur fyrir vikið. Þannig getur beit haft mikil áhrif á tegundasamsetningu þótt beitarþungi sé fremur lítill. Áhrifin fara einnig eftir næringarástandi jarðvegs. Á melum og öðrum svæðum þar sem jarðvegur er næringarsnauður eiga plöntur erfitt með að bæta sér það upp sem tapast við beitina. Sé jarðvegur næringarríkur gegnir hins vegar öðru máli. Beit á melum getur því verið verulega hamlandi fyrir gróður þótt fé sé fátt á meðan sami fjárfjöldi hefur lítil áhrif á gróður í næringarríkum jarðvegi.
Almennt er talið að beit verði til þess að hraða hringrás næringarefna í vistkerfum en á beittu landi flytjast næringarefni hraðar úr gróðri til jarðvegs (með taði og þvagi) en á friðuðu. Það má því segja að beitin valdi því að gróðurvélin gangi hraðar. Á beittu landi flytjast næringarefni einnig auðveldar milli svæða, svo sem með taði og þvagi, en á óbeittu landi. Auk þess getur sauðfé dreift fræi sumra plöntutegunda á nýja staði, annaðhvort innvortis eða útvortis.
Þriðji þátturinn sem rétt er að nefna er traðkið en áhrif þess hafa lítið verið rannsökuð hér á landi. Traðk getur t.d. haft gríðarlega mikil áhrif á hvort fræ ná að safnast fyrir og spíra, sérstaklega þar sem land er að rofna, svo sem á moldum og í rofjöðrum.
Rétt er að taka fram að það sem hér hefur verið sagt á við um hóflega beit. Verði beitin hins vegar of mikil geta áhrifin orðið allt önnur og alvarlegri fyrir vistkerfið.
Uppgræðsla
Eins og á mörgum afréttum landsins geisaði mikil jarðvegseyðing á Hrunamannaafrétti fram yfir miðja síðustu öld. Til að stemma stigu við eyðingunni var árið 1970 sett upp landgræðslugirðing suðvestast í afréttinum (1. mynd). Í fyrstu var þar bæði borið á lítt gróið land og gamalgróið með flugvél í samvinnu sveitarstjórnar hreppsins og Landgræðslu ríkisins. Sauðfé var hleypt inn í girðinguna síðsumars til að létta á beit í afrétti.
Vorið 1992 voru markmið uppgræðslu endurskoðuð og fyrirkomulagi breytt. Ekki var lengur borið á til að létta á beit í afrétti en megináhersla lögð á að stöðva rof og græða upp moldir. Í framhaldi var dreifingu með flugvél hætt og girðingin friðuð fyrir beit. Farið var að græða upp land bæði á friðuðu landi innan girðingar og beittu landi utan hennar. Bændur og aðrir áhugamenn um uppgræðslu tóku nú í fyrsta sinn beinan þátt í aðgerðum.
Aðgerðir hafa verið margs konar. Á beittu landi hefur tilbúnum áburði verið dreift, grasfræi sáð, heyi dreift í rofabörð og á mela. Kjötmjöli og búfjáráburði hefur sömuleiðis verið dreift í litlum mæli. Á friðuðu landi hefur, auk dreifingar á heyi, grasfræi og tilbúnum áburði, verið sáð birki. Einnig hefur víði, hvítsmára og lúpínu verið plantað og seyru dreift.
Á uppgræðslusvæðunum hefur víða tekist að stöðva hraðfara rof og auka gróðurþekju verulega. Á síðustu 10–15 árum hefur verið unnið að uppgræðslu á um 6,2 km2 sem er um 8% af örfoka landi neðan 500 m hæðarmarka (1. mynd). Mikið af því landi sem ekki hefur enn verið tekið til uppgræðslu er óaðgengilegt en það liggur langt frá vegum og slóðum og verður því ekki auðveldlega grætt upp með hefðbundnum aðferðum. Það er þó bót í máli að á síðustu áratugum hefur land víða gróið upp utan uppgræðslusvæða án þess að nokkuð hafi verið gert.
Sjálfgræðsla
Við Heygil á Hrunamannaafrétti hefur greinarhöfundur rannsakað gróður og fylgst með gróðurbreytingum frá árinu 1981 í tuttugu 10x10 m föstum gróðurreitum sem lagðir voru út á land sem í upphafi var á mismunandi stigum rofs og endurgræðslu (1. mynd). Fjórtán reitir eru á beittu landi en sex voru girtir af og friðaðir fyrir beit. Í reitunum hafa ýmsir jarðvegs- og gróðurþættir verið mældir, m.a. heildargróðurþekja, þekja einstakra æðplöntutegunda og jarðvegsþykknun. Þegar rannsóknirnar hófust við Heygil var þarna mikil gróðureyðing, háar torfur, opnir rofjaðrar og mikill uppblástur úr moldum og rofabörðum. Þá var fjárfjöldi í hámarki í afréttinum og gróður mikið bitinn.
2. mynd. Heildargróðurþekja í reitum við Heygil á Hrunamannaafrétti 1981–2019. Friðaðir reitir eru merktir með rauðum lit. Þeir reitir sem eru nokkurn veginn sambærilegir eru tengdir með ferhyrningum. Innan hvers reits var mælt í 10 eins fermetra smáreitum. Lóðrétt strik tákna staðalskekkju.
Niðurstöður mælinga í reitunum sýna að verulegar gróðurbreytingar hafa orðið á þessu svæði og á það við um allar landgerðir sem kannaðar voru, þ.e. moldir, mela og gamalgróið land (2. mynd). Moldir hafa gróið mikið upp en gróðurþekja í melareitum hefur fremur lítið breyst þótt undantekningar séu þar á. Tegundasamsetning hefur hins vegar breyst talsvert í nánast öllum reitum. Á gamalgrónu landi hefur gróska aukist og grastegundir aukið hlutdeild sína. Friðun reita hefur haft talsverð áhrif á tegundasamsetningu en frekar lítil á þekju. Mælingar á jarðvegsþykknun benda til þess að dregið hafi úr áfoki við Heygil á þeim árum sem rannsóknin nær til.
Það er ekki eingöngu við Heygil sem land hefur gróið upp á Hrunamannaafrétti á síðustu áratugum. Athuganir á allstóru svæði innar á afréttinum, neðan 400 m hæðarmarka, benda eindregið til þess að land hafi gróið eða sé að gróa upp líkt og við Heygil. Rofabörð hafa víða lokast, moldir gróið upp og rakir og/eða stöðugir melar eru sums staðar farnir að gróa. Fínkorna og lausir melar virðast hins vegar lítið hafa breyst. Athuganir enn innar á afréttinum og hærra yfir sjó, við Búðarfjöll, í Grjótártungu og Hrísalækjum, benda hins vegar til þess að þar sé enn víða talsvert rof og að land hafi ekki gróið upp í eins miklum mæli og neðar á afréttinum (1. mynd). Líkt og við Heygil hafa moldir þar einkum gróið upp en melar síður.
3. mynd. Áhrif traðks á moldum við Heygil. Bæði utan og innan reits (R18) er klóelfting áberandi. Utan reits er mikið traðk og verulegt landnám merkjanlegt, grashnubbar eru margir. Innan reits er yfirborð jafnara, klóelfting er þar ríkjandi og grashnubbar eru fáir en stórir (ljósmynd 5. ágúst 1999).
Þótt það hafi ekki verið rannsakað sérstaklega má ætla að traðk, teðsla og þvag sauðfjár hafi haft jákvæð áhrif á landnám plantna á moldum og í rofjöðrum (3.–4. mynd). Það er löngu þekkt að fræforði í jarðvegi er langmestur í efstu lögum (≈10–20 cm) jarðvegs en snarminnkar með dýpt. Á stöðum þar sem rof er mikið, svo sem í virkum rofabörðum og á moldum, er því skortur á fræi sökum þess að sá jarðvegur sem rofnar er gamall og nánast frælaus. Vegna rofsins kemur fræregn frá nágrenninu illa að notum því að fræ flyst að mestu í burtu og nær því ekki að spíra í rofinu sjálfu. Við slíkar aðstæður getur traðk ráðið úrslitum um landnám. Í förum eftir sauðfé getur fræ safnast fyrir og náð að spíra. Teðsla og þvag getur síðan hjálpað til og orðið til þess að plöntur komist á legg. Telur greinarhöfundur þetta hafa verið algengt í rofabörðum á afrétti Hrunamanna á síðustu árum. Líklegt er að þessi jákvæðu áhrif sauðfjárbeitar minnki verulega ef beitarálag verður of mikið því að aukin beit á plöntum fer þá að hafa neikvæð áhrif á landnámið.
Hvað gera bændur nú?
Eftir tæplega 30 ára samvinnu við bændur um uppgræðslu á afrétti Hrunamanna telur greinarhöfundur að viðhorf þeirra gagnvart sauðfjárbeit og meðferð lands hafi breyst mikið. Menn hafa nú betri skilning á ástandi lands og mikilvægi þess að fara vel með það og að beit megi alls ekki verða of þung. Bændur hafa staðið sig mjög vel við uppgræðslu sem hefur komið þeim til góða með bættu beitilandi og minna álagi á land utan uppgræðslusvæða. Fullyrða má að fækkun fjár, hlýnandi loftslag og uppgræðsla hafi stuðlað að þeim gróðurbreytingum sem orðið hafa í afréttinum á síðustu áratugum. Þótt land í afrétti sé í framför er þar enn allvíða talsvert rof og enn víðáttumikil, lítt gróin svæði neðan 500 m hæðar sem ættu að geta klæðst samfelldum gróðri.
Í ljósi breytinga á neysluvenjum og viðhorfum í þjóðfélaginu, svo sem minnkandi neyslu lambakjöts, kostnaðar við framleiðsluna, áhrifa sauðfjárbúskapar á kolefnisjöfnuð og á gróður, er eðlilegt að ræða beit og uppgræðslu á afréttum í víðu samhengi. Hér er afréttur Hrunamanna tekinn sem dæmi og settar fram fjórar mismunandi leiðir um nýtingu og uppgræðsluaðgerðir í afréttinum. Tekið skal fram að ein leið þarf ekki nauðsynlega að útiloka aðra. Um eftirfarandi er að ræða:
-
Að beitarfriða afréttinn og láta náttúruna um að græða landið.
-
Að beitarfriða afréttinn og græða hann upp með lúpínu.
-
Að beitarfriða afréttinn og vinna að uppgræðslu líkt og gert hefur verið.
-
Að beita afréttarlandið „hóflega“ en vinna jafnframt að uppgræðslu í samvinnu við bændur o.fl. aðila.
4. mynd (A-B-C). Dæmi um sjálfgræðslu lands á moldum við Heygil. Mynd A var tekin 1988, mynd B var tekin 2009 og mynd C var tekin 2019.
Fyrir miðju á myndunum er friðaður reitur (R18) en annars er land beitt af sauðfé. Þegar rannsóknir hófust við Heygil árið 1981 var þar mikið rof og moldir nánast gróðurlausar.
Land tók að gróa upp, mest eftir 1990. Traðk, teðsla og þvag frá sauðfé hefur væntanlega haft þarna veruleg áhrif og flýtt fyrir landnámi plantna, en einnig fækkun fjár í afrétti og hlýnandi verðurfar.
Skoðum þessar leiðir nánar
Að beitarfriða afréttinn og láta náttúruna um að græða landið er kostur sem kemur til álita. Það myndi hins vegar þýða að land mun sums staðar halda áfram að rofna í nokkrum mæli, að minnsta kosti um alllangan tíma og kolefnisbinding yrði frekar hæg, einkum í byrjun. Með tímanum myndi birki væntanlega breiðast út þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Þetta er aðferð sem flokkast undir náttúruvernd en þar sem um friðun er að ræða myndi hún hafa áhrif á sauðfjárbúskap og hafa neikvæð áhrif á hefðir sem honum tengjast.
Að beitarfriða land í afrétti og græða það upp með lúpínu er vafalaust ódýrasta og fljótvirkasta leiðin til að stöðva rof og binda kolefni. Þessi leið kemur að mati greinarhöfundar þó ekki til greina, aðallega vegna þess að hún myndi gerbreyta vistkerfi afréttarins og ásýnd lands. Lúpína mun t.d. umbylta gróðri ekki aðeins á melum og moldum heldur einnig mun víðar, svo sem meðfram ám og lækjum. Þetta er aðgerð sem getur ekki flokkast undir náttúruvernd og hefur auk þess svipuð áhrif og leið 1 á sauðfjárrækt og hefðir.
Þriðja leiðin, að beitarfriða og vinna jafnframt að uppgræðslu, er kostur sem greinarhöfundur telur að komi vel til greina. Þá væri hægt að einbeita sér, líkt og gert hefur verið, að því að stöðva virkt rof og koma í veg fyrir eyðingu gróðurs og jarðvegs. Jafnframt yrði veruleg sjálfgræðsla í afrétti, birki myndi, líkt og við leið 1, taka að nema land í allmiklum mæli. Aðferðin fellur vel að náttúruvernd en áhrif á sauðfjárrækt og hefðir yrðu svipuð og við leiðir 1 og 2. Vel má hugsa sér að bændum yrði greitt fyrir að vinna að uppgræðslu í stað þess að fjármagni sé veitt úr ríkissjóði til að framleiða lambakjöt. Þeir hafa yfir tækjum að ráða sem nota má við uppgræðslu.
Fjórða leiðin, þ.e. að beita afréttarlandið „hóflega“ og vinna jafnframt að uppgræðslu í samvinnu við bændur og fleiri aðila, er sennilega álitlegasta leiðin. Þá verður að hafa sérstaklega í huga hvað átt er við með hóflegri beit. Eins og áður hefur komið fram er heildarfjöldi í afrétti nú rúmlega 4.000 fjár og beitarálag á gróið land víðast hvar að mati greinarhöfundar ekki úr hófi. Beit á melum er hins vegar afar óheppileg svo ekki sé sterkar til orða tekið. Telja verður æskilegt að fé verði fækkað nokkuð frá því sem nú er og reynt að stýra beit eins og kostur er. Á Náttúrufræðistofnun hafa melar nýlega verið flokkaðir í fjórar megingerðir eða vistgerðir, þ.e. eyðimelavist, mosamelavist, víðimelavist og grasmelavist. Samkvæmt kortlagningu Náttúrufræðistofnunar þekja melavistir á Hrunamannaafrétti um 480 km2 eða 47% af afrétti, en þeir eru algengastir ofan 500 m hæðarmarka. Á örfoka landi undir 500 m hæð er mest af víðimelavist og grasmelavist. Á þessum gerðum er talsverður munur. Líklegt er að beit hamli gróðurframvindu á víðimelum en reynslan frá Heygili bendir til þess að friðun grasmela hafi takmörkuð áhrif á framvindu.
Verði þessi leið valin er afar mikilvægt að sleppa fé ekki of snemma í afrétt þannig að gróður hafi tíma til að jafna sig eftir veturinn og komast í góðan vöxt áður en beit hefst. Einnig má stýra beit að nokkru með því að sleppa fé á þau svæði sem einna best eru til beitar fallin. Með því að beita hóflega nýtast helstu kostir beitarinnar fyrir landnám plantna í rofjöðrum og á moldum (traðk og áburðaráhrif frá fénu) sem myndi draga úr rofi á svæðum sem nú er erfitt að komast að með vélum og tækjum. Líkt og við leið 3 væri hægt að beina kröftunum að því að stöðva rof og græða upp rofjaðra. Með þessari leið myndu áhrif á sauðfjárrækt og hefðir viðhaldast að nokkru leyti. Þá má nefna að beit dregur úr útbreiðslu ágengra tegunda eins og lúpínu og væntanlega einnig skógarkerfils. Verulegur galli við þessa aðferð er hins vegar að hún mun draga úr möguleikum birkis á að nema land á þeim svæðum sem áður voru vaxin birkiskógi eða kjarri. Innan landgræðslugirðingarinnar suðvestast í afréttinum hefur birki verið sáð í nokkrum mæli og eru þar komin tré sem farin eru að sá sér út. Þar stendur nú til að planta birki með það fyrir augum að endurheimta skóg á svæðinu.
Að lokum er rétt að árétta að þessa grein ber ekki að skoða sem lausn á meðferð afréttarlanda á hálendi Íslands heldur sem innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram um það efni á næstunni. Í verkefninu Grólind er nú unnið að því að meta ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu lands. Niðurstöður þess verkefnis munu væntanlega gera menn betur í stakk búna til að taka skynsamlegar ákvarðanir um beit og meðferð lands á hálendinu.