Framleiðslan heldur dampi þrátt fyrir fækkun búa
Tvö eggjabú munu hætta framleiðslu í júní nk. Formaður deildar eggjabænda segir að aðrir framleiðendur hafi þegar aukið framleiðslu sína sem nemur þeirri fækkkun. Þótt markaðurinn sé viðkvæmur og mikill fjöldi ferðamanna kalli á aukna framleiðslu horfi ekki í eggjaskort á árinu.
Alls eru starfandi tíu eggjabú á tólf jörðum á landinu og hefur innlend framleiðsla svarað innlendri eftirspurn eftir ferskum eggjum. Einhver innflutningur hefur þó átt sér stað, aðallega af söltuðum, gerilsneyddum eggjarauðum sem notaðar eru í sósugerð.
Í júní næstkomandi mun allri eggjaframleiðslu með hænum í búrum verða hætt, og eftir það verða allar varphænur í lausagöngu.
„Vegna þess mikla kostnaðar sem er því samfara hafa tveir eggjaframleiðendur hætt sinni eggjaframleiðslu hvað ég best veit,“ segir Halldóra K. Hauksdóttir, formaður deildar eggjabænda hjá Bændasamtökunum og eggjabóndi hjá Grænegg í Sveinbjarnargerði. „Aðrir framleiðendur hafa þó stækkað umfang sitt sem samsvarar framleiðslu þeirra búa.“
Tæp 4.500 tonn framleidd
Eggjamarkaðurinn er viðkvæmur að sögn Halldóru. „Júní, júlí og ágúst eru stærstu eggjasölu- mánuðir ársins og er það til- komið vegna ferðamannafjölda.Því þurfa framleiðendur að taka mið af og mæta aukinni eftirspurn þá mánuði.“
Engar aðgengilegar opinberar hagtölur liggja fyrir um framleiðslu eggja í dag. Nokkur ár eru síðan búfjáreftirlit og Hagstofan söfnuðu saman tölum um fjölda varphæna og framleiðslumagn í hverju héraði.
Framleiðendur þurfa hins vegar að gefa upp magntölur til Matvælastofnunar vegna eftirlitsgjalds og ýmissa rannsókna. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni nam framleiðsla eggja í fyrra 4.453 tonnum. Er það mun meiri framleiðsla en árið 2021 þegar hún nam 3.949 tonnum, en minna en árið 2020 þegar framleiðslan var 4.745 tonn.