Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Frelsi, þekking og þroski
Fréttir 7. maí 2018

Frelsi, þekking og þroski

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í kynningu um Lýðháskólann á Flateyri segir að skólinn sé samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru frelsi, þekking og þroski.

Helena Jónsdóttir, skólastjóri Lýðháskólans á Flateyri, segir að mikil undirbúningsvinna liggi að baki stofnun skólans við skipulagningu og gerð námskrár. „Í janúar síðastliðinn var svo farið á fulla ferð eftir að fékkst fjármagn til að ráða framkvæmdastjóra til að keyra verkefnið áfram. Formlega var skólinn síðan settur á laggirnar 15. apríl síðastliðinn og auglýst eftir umsóknum.“

Tvær námsbrautir

Að sögn Helenu verða kenndar tvær námsbrautir við skólann og er hver tvær annir með sex til sjö námskeiðum, Hafið, fjöllin og þú og Hugmyndir, heimurinn og þú, sem hver um sig tekur við að hámarki 20 nemendum.

„Á námsbrautinni Hafið, fjöllin og þú er lögð áhersla á að nýta þær auðlindir sem til eru í náttúru, menningu og samfélagi á Flateyri og í nærsveitum og með námskeiðum er lögð áhersla á færni, þekkingu og verkefni sem miða að því að nemendur verði færari í að ferðast um í náttúrunni, njóta hennar og nýta sér auðlindir hennar á öruggan og umhverfisvænan máta.

Á hinni brautinni, sem kallast Hugmyndir, heimurinn og þú, er lögð áhersla á hugmyndavinnu og sköpun og útfærslu í hvers kyns formum, auk tjáningar og miðlunar. Með námskeiðum er lögð áhersla á ólík skapandi verkefni sem miða að því að nemendur öðlist færni í heimildaöflun, markvissri hugmyndavinnu og sköpun í ólíkum formum auk miðlunar til samfélagsins.

Námskrá skólans er óhefð­bundin og við leyfðum ímynduna­raflinu að ráða og leituðum til þeirra auðlinda sem er að finna á Flateyri, bæði sem samfélag og náttúran í kring og úr því urðu til þessar tvær námsbrautir.“

Úti í öllum veðrum

Að sögn Helenu fer aðeins hluti námsins við skólann fram innandyra og í hefðbundnum kennslustofum. „Við verðum á mismunandi stöðum og stundum úti, í öllum veðrum og stundum við líkamlega krefjandi aðstæður. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að vera hreyfanlegur og til í ýmislegt. Það er mikilvægt að nemendur séu opnir fyrir nýjum upplifunum og því að reyna á sig við aðstæður sem þeir hafa ekki verið í áður."


Uppbygging námsins

Kennsla við skólann hefst 19. september næstkomandi og eru öll námskeið kennd í tveggja vikna stuttum en hnitmiðuðum lotum.

Helena segir að með stuttum námslotum sé auðveldara fyrir nemendur og kennara að einbeita sér að hverju námskeiði fyrir sig og kynna sér viðfangsefnin til hlítar. „Einnig gefst svigrúm fyrir kennara og nemendur til að staldra við áhugaverð viðfangsefni hverju sinni. Þetta fyrirkomulag skapar jafnframt aukin tækifæri til að fá reynslumikið fólk og fagaðila víðs vegar að af landinu og utan úr heimi til að kenna námskeið við skólann.“

Flateyri tilvalinn staður fyrir lýðháskóla

„Umhverfi eins og á Flateyri býður upp á flest sem þarf til sköpunar. Hér er stutt í náttúruna og auðvelt að skapa eitthvað í tengslum við hana.“

Helena segir að ein hugmyndin að baki skólans sé byggðaþróun. „Flateyri er einstakt samfélag sem tekur vel á móti nýju fólki. Samfélagið er mjög mannlegt og íbúar innan við 200 og þar sem lýðháskólar eru oft starfræktir í minni og jaðarsamfélögum þótti Flateyri tilvalinn staður fyrir skólann.“

Skólagjöld og umsóknir

Nemendur við Lýðháskólann á Flateyri greiða skólagjöld sem eru 200 þúsund krónur fyrir hvora önn.
Innifalið í skólagjöldum er morgun- og hádegismatur alla virka skóladaga, námsefni og ferðir og verkefni sem tengjast vinnu og verkefnum við skólann.

Ekki er um eiginlegan umsóknarfrest að ræða. Opnað var fyrir umsóknir 15. apríl. Afgreiðsla umsókna hefst 1. maí og verða umsóknir sem berast fyrir þann tíma settar í forgang. Eftir það verða umsóknir afgreiddar jafnóðum og þær berast.

Hver sem náð hefur 18 ára aldri við upphaf námsannar getur sótt um skólavist við Lýðháskólann á Flateyri.

„Námsmat og endurgjöf fæst ekki með hefðbundnum prófum og einkunnum fyrir vinnu nemenda heldur í gegnum fundi og samtöl við aðra nemendur, kennara og íbúa samfélagsins sem umkringir skólann. Þetta gefur lýðháskólum frelsi til að mennta og þroska nemendur með óhefðbundnum en árangursríkum leiðum,“ segir Helena.

Hægt er að sækja um á lydflat.is en einnig má nálgast nánari upplýsingar á Facebook.com/Lydhaskoli.

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...