Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lífrænn jarðvegur á framræstu landi telst vera um 45 prósent ræktarlands.
Lífrænn jarðvegur á framræstu landi telst vera um 45 prósent ræktarlands.
Mynd / Landgræðslan
Fréttaskýring 2. mars 2023

Endurmat á losun gróðurhúsaloft­tegunda frá ræktarlöndum bænda

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Matvælaráðuneytið og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafa falið Landgræðslunni að stýra endurmati á losun gróðurhúsalofttegunda frá ræktarlöndum bænda. Tilgangurinn er að afla nýrra gagna með uppfærslu á losunarstuðlum fyrir mismunandi jarðvegsgerðir svo bæta megi losunarbókhald Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum.

Gert er ráð fyrir að um samstarfs­verkefni verði að ræða með Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Flokkur landnýtingar ekki á beinni ábyrgð

Samkvæmt skuldbindingum Íslands gagnvart Evrópusambandinu (ESB) telst losun gróðurhúsalofttegunda frá íslenskum landbúnaði vera á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Landnýtingarhluti landbúnaðarins, sem innifelur uppgjör frá ræktarlöndum og skógrækt er það hins vegar ekki, heldur fellur í flokkinn landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF). Þó þarf að gera grein fyrir þeirri losun í losunarbókhaldi Íslands gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum. Möguleikar eru á að telja sér bindingu koltvísýrings í þeim flokki að einhverju leyti sér til tekna í losunarbókhaldinu.

Nú liggur fyrir að Ísland þarf að gera upp skuldir sínar á þessu ári vegna skuldbindinga gagnvart seinni Kýótóbókuninni, tímabilið 2013 til 2020. Samkvæmt þeim skuldbindingum bar Íslandi að draga úr losun um 20 prósent árið 2020, miðað við losun ársins 1990. Ísland og Evrópusambandið gerðu með sér tvíhliðasamning til að ná markmiðum sínum í sameiningu. Samkvæmt þessum samningi fékk Ísland úthlutaðar losunarheimildir fyrir losun á beinni ábyrgð Íslands og heimild til að nýta sér bindingareiningar frá landnotkun og skógrækt. Umhverfisstofnun heldur utan um losunarbókhald Íslands og samkvæmt upplýsingum þaðan losaði Ísland á tímabilinu tæpar 7,7 milljónir tonna koltvísýringsígilda (CO2­íg) umfram heimildir. Leyfilegt var að telja tæplega 4,3 milljónir tonna CO2­íg fram til frádráttar sem bindingareiningar.

Þar af leiðandi var losun Íslands á þessu tímabili um 3,4 milljónir tonna CO2­íg umfram losunarheimildir og bindingareiningar – og Ísland þarf að kaupa losunarheimildir fyrir þessu magni. Samkvæmt upplýsingum úr umhverfis­, orku­ og loftslagsráðuneytinu liggur kaupverð á losunarheimildum ekki fyrir en í fjárlögum 2023 sé gert ráð fyrir 800 milljóna króna fjárheimildum vegna uppgjörsins.

Rannsókn RALA frá 1975

Ræktarland er skilgreint sem tún og akrar. Sá starfshópur, sem sér um útreikninga fyrir LULUCF­ flokkinn í losunarbókhaldi Íslands, samanstendur af fulltrúum Land­ græðslunnar og Skógaræktarinnar.

Í losunarbókhaldinu er ræktar­ landinu skipt í tvennt; land sem er í ræktun og notkun og svo það sem ekki er ræktað eða nýtt. Land getur flust á milli þessa flokka, en upplýsingar um þessa landnýtingu eru sóttar í gagnagrunna Hagstofunnar og Ráðgjafarmiðstöðvar land­búnaðarins ár hvert.

Á árunum 1945 til 1973 stóð Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) fyrir tilraun á fjórum stöðum á landinu þar sem kolefnisforði í íslenskum steinefnajarðvegi var rannsakaður og breytingar á honum yfir tímabilið. Síðan voru gögnin tekin saman úr þessum tilraunum árið 1975 og hafa frá árinu 2018 verið notuð til að áætla losun gróðurhúsalofttegunda frá þessari jarðvegstegund í losunarbókahaldi Íslands, sem er um 55 prósent alls ræktarlands Íslands.

Áætluð losun frá lífrænum jarðvegi

Lífrænn jarðvegur á framræstu landi, telst vera um 45 prósent ræktarlands. Stór hluti heildarlosunar gróður­ húsalofttegunda frá landnýtingar­ hluta landbúnaðarins er áætlaður frá þessum landnýtingarflokki. Ekki er til íslenskur reiknistuðull fyrir losun frá þessu landi og því hefur verið notast við stuðla sem Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) gefur út.

Alls er ræktarland metið einungis um eitt prósent af heildarflatarmáli Íslands, sem skýrir kannski að einhverju leyti hvers vegna þessi landnýtingarflokkur hefur ekki verið í forgangi við mat á losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Miðað við þá reiknistuðla sem notaðir hafa verið, losar ræktarland þó um 22 prósent af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í LULUCF­-flokknum. Stærðarhlutfall annarra undirflokka LULUCF, af heildar­ flatarmáli Íslands, eru: mólendi 58 prósent, auðnir 31 prósent, votlendi níu prósent, þéttbýli er með meira en eitt prósent og skógar um eitt prósent. Af þessum undirflokkum er mólendi stórtækasti losunarvaldurinn með um 64 prósent og votlendi um 20 prósent. Binding kolefnis í skóglendi hefur margfaldast undanfarna áratugi.

Hlutfall LULUCF­-flokksins í losunarbókhaldi Íslands er svo það langhæsta, áætlað rúm 66 prósent árið 2020 samkvæmt landsskýrslu Umhverfisstofnunar frá síðasta ári um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2020.

Því má ætla að ávinningurinn geti orðið nokkur inn í losunarbókhald Íslands, með góðum árangri kolefnisbindingar á sviði landnýtingar og skógræktar.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landnotkun og skógrækt, flokki LULUCF. Heimild: Umhverfisstofnun

Losun gróðurhúsalofttegunda frá flokkum á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda árið 2020, auk landnotkunar og skógræktar (LULUCF). Heimild: Umhverfisstofnun

Lokaniðurstöður í árslok 2026

Ráðuneytin hafa unnið í sameiningu að undirbúningi verkefnisins og er gert ráð fyrir að fyrstu niðurstöður liggi fyrir árið 2024 og lokaniðurstöður verði birtar í árslok 2026

Ástæða þess að ráðist er í endurmatið nú er sú að sýnt þykir að talsverður breytileiki sé í losun gróðurhúsalofttegunda frá ólíkum jarðvegstegundum og landsvæðum. Nýlegar rannsóknir þykja einnig benda til að þörf sé á að endurmeta stuðla sem notaðir hafa verið um þessa losun og bindingu frá ólíkum svæðum.

Vísbendingar um mun minni losun frá framræstu landi

Síðasta sumar gaf Landbúnaðar­háskóli Íslands (LbhÍ) út ritið Langtímatap kolefnis í framræstu ræktarlandi. Þar var greint frá niðurstöðum rannsóknar á langtíma afleiðingum framræslu á jarðveg í kolefnisríku votlendi. Verkefnið hafði það meginmarkmið að auka þekkingu á langtímaáhrifum af framræslu ræktarlands á kolefnisbúskap jarðvegs og aðra þætti því tengdu – þannig að betur verði hægt að áætla kolefnislosun í framræstum íslenskum mýrum sem þykja hafa mikla sérstöðu.

Í inngangi að ritinu er bent á að í stöðlum IPCC sé gert ráð fyrir verulegum óvissumörkum og frávikshlutföllum, í landnýtingar­ flokkunum framræst mólendi og akurlendi, sem dragi úr notagildi staðalgilda til að áætla með vissu raunlosun kolefnis á ólíkum svæðum eins og á Íslandi.

Jóhann Þórsson, vistfræðingur og fagteymisstjóri loftslags- og jarðvegs hjá Landgræðslunni.

Vísindaleg óvissa í matinu

Í innganginum kemur einnig fram að staðlar IPCC fyrir Ísland eru metnir í lægsta gæðaflokki aðferðaþrepa (aðferðaþrep 1) sem þýðir að vísindaleg óvissa sé mikil í mati á losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda vegna landnotkunar og breytinga á henni.

„Þetta er einfaldlega staðan sem við stöndum frammi fyrir og Landgræðslan hefur verið að vinna að því að bæta úr allt frá því að umhverfisráðuneytið fól stofnuninni umsjón með landnýtingarhluta loftslagsbókhaldsins á árinu 2018,“ segir Jóhann Þórsson, vistfræðingur og fagteymisstjóri loftslags­ og jarðvegs hjá Landgræðslunni, spurður um áreiðanleika talna um áætlaða losun frá íslensku ræktarlandi.

„Stuðlar IPCC samkvæmt aðferðaþrepi 1 eru oftar en ekki í hærri kanti þess sem gæti verið að gerast, enda hvetur það ríki til að afla sér betri gagna. Það er hins vegar ekkert sem segir að útkoman verði betri þegar komnir eru landsstuðlar, en í tilviki Íslands má alveg gera ráð fyrir að svo verði í einhverjum tilvikum innan sumra landnýtingarflokkanna eða undirflokka þeirra. Þetta gæti til dæmis átt við um framræst land,“ segir Jóhann.

Nýstárlegri aðferð beitt við mat á losun

Í rannsókn LbhÍ var beitt nýstárlegri aðferð við að mæla og áætla magn- og eðlisbreytingar sem verða í lífrænum mýrum fyrir ofan ákveðið gjóskuleiðarlag eftir framræslu, þurrkun og langtíma ræktun og niðurstöðurnar bornar saman við óraskað votlendi sömu gerðar.

Í riti LbhÍ koma fram vísbendingar um að mun minni kolefnislosun sé af framræstu ræktarlandi á Íslandi en reiknistaðlar IPCC gera ráð fyrir. Í inngangi kemur fram að þörf sé á mun meiri og ítarlegri gögnum en nú liggi fyrir til að geta sagt fyrir með sæmilegri vissu hvað framræst land á Íslandi losi mikið kolefni á ári. Það sé ljóst þegar litið sé til þess hversu stór þáttur slíkra landsvæða er í uppgefnu kolefnisbókhaldi Íslands, sérstöðu íslenskra mýra og takmarkaðra rannsókna á losun og flatarmáli ólíkra mýrargerða. Ástæða sé til að þróa íslenska losunarstuðla yfir framræst land, hvort sem það er nýtt til akuryrkju, túnræktar eða sem úthagi til beitar.

Túlkun niðurstaðna umfram efni

Jóhann segir að rannsókn LbhÍ hafi verið mjög áhugaverð þar sem aðferðarfræði hafi verið beitt sem aðstæður í íslenskum jarðvegi bjóði upp á. Engin ástæða sé til að gagnrýna þá aðferðafræði sem slíka, en borið hafi á að túlkun niðurstaðna hafi verið langt umfram efni. Á það hafi verið bent síðastliðið sumar af hálfu Landgræðslunnar.

„Ástæður þess að erfitt er að nota niðurstöður rannsóknarinnar til að áætla breytingar á kolefnisforða í ræktarlandi í dag eru nokkrar. Sú fyrsta er að einungis eru skoðuð tvö svæði innan sama landshluta og því útilokað að draga ályktanir af niðurstöðunum sem nota megi fyrir Ísland. Nýtingarsaga þessara tveggja svæða er einnig mjög frábrugðin og jafnvel óljós. Svæðin eru með öðrum orðum mjög mismunandi.

Þá var annað svæðanna ræst fram fyrir um 55 árum en hitt 70 árum og gætu niðurstöðurnar því einungis gefið vísbendingar um hvaða breytingar hafa átt sér stað á þeim tíma en hvorki hvaða breytingar eiga sér stað í dag, né frá 1990 eða síðar.

Þá er ekki ljóst hvort hreyft hafi verið við jarðvegi á öðru svæðinu, enefsvoerþáerekkihægtað rekja breytingar á jarðvegi til landnotkunarinnar heldur verður að draga þá ályktun að þar gæti jarðrask haft áhrif á niðurstöðurnar, þá væri ekki hægt að nota gögnin til að spá fyrir um áhrif almennrar ræktunar.

Ekkert þessara atriða dregur þó úr þeirri staðreynd að aðferðafræðin sem beitt var, er allrar athygli verð,“ segir hann.

Niðurstöður um núverandi landnýtingu

Jóhann bendir á að mat á kolefnisbúskap ræktarlands verði að geta skilað niðurstöðum sem varpi ljósi á þær breytingar sem eiga sér stað vegna núverandi landnýtingar, það er þess tíma sem skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum ná til. Slíkar rannsóknir þurfi að vera á hærra rannsóknarplani, að lágmarki aðferðaþrepi 2, og ná til þess breytileika sem vænta megi að sé fyrir hendi eins og kostur sé.

„Þar er bæði átt við landshlutabundinn breytileika, ef við á, en einnig breytileika vegna jarðvegsgerðar og nýtingartegundar (ræktunar). Þannig að það þarf nokkurn fjölda svæða. Til viðmiðunar má benda á að í úttekt Landgræðslunnar á landgræðslusvæðum liggja rúmlega 600 mælireitir til grundvallar,“ segir Jóhann og bætir við að þegar mælisvæðin verði valin þurfi að huga að „landnýtingu“ þeirra sem sérstakri breytu. Hann segir að „aðferðaþrep“ vísi til gagnagæða.

Aðferðaþrep 1 sé þegar notaðir eru alþjóðlegir stuðlar við mat á losun. Aðferðaþrep 2 er þegar notaðir eru landsstuðlar byggðir á innlendum rannsóknum og aðferðaþrep 3 felur í sér að notuð eru reiknilíkön til að meta breytingar á losun, þau byggi þá yfirleitt á gögnum sem er aflað með mælingum samkvæmt aðferðaþrepi 2.

Gögnum sem verður safnað við endurmatsvinnuna fram undan, verða notuð til að reikna losunarstuðla á aðferðarþrepi 2

Hugtökin og heitin mikilvæg fyrir umræðuna

Jóhann segir mikilvægt að átta sig á hugtökum þegar fjallað er um þessi mál. „Þegar votlendi er ræst fram ræðst það af landnýtingunni sem fylgir í kjölfarið hvernig það skilgreinist inn í losunarbókhaldið. Sumt finnst fólki ekki rökrétt en þá lýtur það lögmálum loftslagssamninganna sem Ísland er aðili að og flokkuninni þar,“ segir hann og bendir á að borið hafi á því í umræðunni að fólk hafi lent á villigötum vegna misskilnings á þessum hugtökum.

„Þetta sem við erum að tala um núna eru kallaðir „landnýtingarflokkar“. Framræst votlendi getur þannig flust í biðflokk sem kallast „wetland converted to cropland on organic soil“, ef það er nýtt sem ræktarland. En ef ekkert er gert umfram framræsluna þá myndi það fara í biðflokk sem kallast „wetland converted to grassland on organic soil“. Það köllum við framræst land, hitt landið myndum við kalla ræktarland.

Land er yfirleitt 20 ár í hverjum biðflokki en færist þá í að vera einfaldlega ræktarland eða mólendi (e. grassland) í bókhaldinu. Utan um þessar breytingar á landnýtingu og flatarmáli er haldið eins nákvæmlega og hægt er frá ári til árs. Það er lykilatriði að skilja þessar skiptingar því það er litið þannig á að þessar landgerðir hafi mismunandi eiginleika og þar með ættu þar að vera notaðir mismunandi losunarstuðlar.

Í umræðu um kolefnislosun frá ræktarlöndum og framræstum löndum hef ég séð þessu tvennu ruglað saman,“ segir Jóhann.

Kýótóbókanir

Fyrri Kýótóbókunin var gerð við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og samþykkt í japönsku borginni Kýótó í lok árs 1997. Hún gilti fyrir árin frá 2008 til 2012. Ísland var aðili að bókuninni, þar sem gert var ráð fyrir að sameiginlegur samdráttur aðildarríkja í útstreymi gróðurhúsalofttegunda yrði að lágmarki 5,2 prósent á þessu tímabili, miðað við útstreymið eins og það var árið 1990.

Á öðru tímabili Kýótóbókunarinnar, frá 2013 til 2020, bar Íslandi að draga saman losun um 20 prósent árið 2020, miðað við losun ársins 1990. Skuldbindingar Kýótóbókunarinnar náðu ekki til losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum né losunar frá landnotkun, breyttri landnotkun eða skógrækt (LULUCF).

Ísland og Evrópusambandið (ESB) gerðu með sér tvíhliða samning um sameiginlegar efndir við bókunina á öðru skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar. Því fylgdi að Ísland fékk úthlutaðar losunarheimildir fyrir losun sem telst á beinni ábyrgð Íslands og að Ísland byrjaði að taka þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

Parísarsáttmálinn

Parísarsáttmálinn gildir frá 2021 til 2030 og er samkomulag undir Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC). Fyrir tímabilið hafa aðildarríki ESB, auk Íslands og Noregs, sett sér sameiginlegt markmið um 40 prósent samdrátt í losun árið 2030 miðað við 1990; það markmið var svo hækkað í 55 prósent árið 2020.

Evrópusambandsríkin, ásamt Íslandi og Noregi, taka öll þátt í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Ísland setti sér það markmið að draga úr losun um 29 prósent árið 2030 miðað við árið 2005, frá þeim flokkum sem eru á beinni ábyrgð Íslands og er þetta markmið í endurskoðun samhliða öllum breytingum sem fylgja uppfærðu markmiði Evrópusambandsins.

Ekki ásættanlega staða

Núverandi losunarbókhald er, að sögn Jóhanns, byggt á þeim besta gagnagrunni sem tiltækur er á hverjum tíma. „Íslandi, eins og öðrum aðildarríkjum samningsins, ber skylda til þess, og með þessu fylgist eftirlitsnefnd á vegum loftslagssamningsins til dæmis gaumgæfilega með og gerir athugasemdir ef við á. Gögn verða ekki ónýt með tímanum og það er ekkert sem segir að gögn frá 1975 eigi ekki vel við í dag.

Ég get auðvitað ekkert fullyrt um það, en til þess eru fyrirhugaðar rannsóknir einmitt, að skoða þessa hluti betur því staðan er augljóslega ekki ásættanleg,“ segir Jóhann spurður um trúverðugleika fyrirliggjandi gagna. „Hvort það þýði að losunarbókhaldið sé byggt á veikum grunni hlýtur að byggja á mati hvers og eins, en þó er hægt að fullyrða að það er byggt á þeim besta grunni sem hægt er á hverjum tíma. Að hafa samþykkt gögn samkvæmt aðferðaþrepi 2 fyrir 55 prósent einhvers landnýtingarflokks ætti að teljast mjög góð staða þegar ekki liggja fyrir neinar sérstakar mælingar til að miða við.

En það breytir því ekki að þetta er ekki ásættanleg staða og á það hefur Landgræðslan bent á frá því henni var falin umsjón með landnýtingarhluta losunarbókhaldsins. Fram að því var þessi hluti bókhaldsins hjá LbhÍ og hafði verið um árabil og fórst það raunar prýðilega miðað við þann stakk sem þar var skorinn.“

Notkun á bindingareiningum inn í losunarbókahaldið

Nicole Keller, teymisstjóri á sviði loftslagmála hjá Umhverfisstofnun.
Mynd / Sigurður Bragason

Samkvæmt upplýsingum fá Nicole Keller, teymisstjóra á sviði loftslagmála hjá Umhverfisstofnun, var Íslandi heimilt á seinna Kýótó-tímabilinu að nota bindingareiningar úr landnýtingarflokkum inn í loftslagsbókhaldið eins og þær eru skilgreindar í 3. og 4. málsgrein 3. greinar Kýótóbókunarinnar.

Um þrjá bindingarflokka er að ræða: „afforestation“ (nýskógrækt), „forest managment“ (skógarumhirða eða skógarstjórnun) og „revegetation“ (landgræðsla). Hún segir að misjafnt sé hvernig nákvæmlega bindingareiningar eru reiknaðar eftir flokkum, í sumum tilfellum sé horft til nettóbindingar og í sumum tilfellum sé stuðst við muninn á milli bindingar (losunar/ bindingar) á ákveðnu viðmiðunarári eða viðmiðunartímabili.

Skylda sé að taka inn í reikninginn losun vegna skógarhöggs (deforestation). Þak var á því hversu margar bindingareiningar var leyfilegt að nota frá flokknum „forest managment“ (samtals rúmlega 1.000 kílótonn CO2-íg) en á Íslandi var reiknuð binding langt fyrir neðan þakið (eða 156 kílótonn CO2-íg) og því hafði þakið ekki áhrif á möguleika Íslands til að nýta umræddar bindingareiningar í sínu uppgjöri.

Sameiginleg markmið á Parísartímabilinu

Nicole segir að á Parísartímabilinu séu Ísland, Noregur og aðildarríki ESB með sameiginleg markmið fyrir árið 2030. ESB hefur sett ýmsar reglugerðir um framtal og uppgjör á losun gróðurhúsalofttegunda, og fyrir LULUCF flokkinn gildi reglur sem kallaðar eru LULUCF Regulation. Í stuttu máli muni Ísland hafa heimild til að nýta í sínu uppgjöri gagnvart ESB um 0,2 milljón tonn koltvísýringsígilda á tímabilinu (eða 20 kt á ári) frá LULUCF flokknum á móti losun frá þeim geirum sem teljast á beinni ábyrgð Íslands. Hvernig bindingin sé reiknuð nákvæmlega sé misjafnt, eins og var á Kýótótímabilinu.

Hún segir að í sumum flokkum sé hún reiknuð sem nettóbinding en í flestum öðrum flokkum er tekinn munurinn á milli uppgjörstímabila og viðmiðunartímabila.

Hafa þurfi í huga að reglugerðin sé í endurskoðun og til umfjöllunar nú á Evrópuþingi eftir hækkun á yfirmarkmiði ESB, Noregs og Íslands sem tilkynnt var árið 2020 til Loftslagssamningsins. Líklegast er að þessar reglur gildi að minnsta kosti á fyrsta helming tímabilsins (2021-2025) en uppgjörsreglurnar muni breytast fyrir seinni helminginn (2026-2030). Sem dæmi megi nefna að Evrópusambandið ætli að setja markmið um nettóbindingu í landnýtingarflokknum fyrir árið 2030 og þessu markmiði verður skipt upp á milli landa.

Skylt efni: framræst ræktarland

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...