Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Bandarískir sjómenn að veiðum við Alaska. Myndir / NOAA.
Bandarískir sjómenn að veiðum við Alaska. Myndir / NOAA.
Fréttaskýring 7. apríl 2020

Fimmta stærsta fiskveiðiþjóð heims

Höfundur: Kjartan Stefánsson

Bandaríkin eru fimmta stærsta fiskveiðiþjóð í heimi. Bandarískir fiskimenn koma með nærri fjórfalt meira magn af fiski að landi en íslenskir kollegar þeirra. Alaskaufsi er mest veiddur en humar skapar mestu verðmætin.

Fiskveiðar skipta gríðarlega miklu máli fyrir mörg ríki Banda­ríkjanna sem eiga land að sjó. Bandaríkin hafa yfir að ráða stærstu efnahagslögsögu heims. Innan hennar eru mörg gjöful fiskimið og mikil fjölbreytni í veiðum.

Bandarískir fiskimenn komu með 4,3 milljónir tonna af fiski og skelfiski að landi árið 2018 að verðmæti 5,6 milljarða dollara, eða sem samsvarar 785 milljörðum íslenskra króna, miðað við gengi krónunnar í lok síðustu viku.

Bandarískir fiskimenn komu með 4,3 milljónir tonna af fiski og skelfiski að landi árið 2018 að verðmæti 5,6 milljarðar dollara, eða sem samsvarar 785 milljörðum íslenskra króna, miðað við gengi krónunnar í lok síðustu viku. Þetta er um 5,3% samdráttur í magni en 2,8% aukning í verðmætum frá árinu 2017. Til samanburðar má geta þess að Íslendingar veiddu 1.260 þúsund tonn árið 2018 og aflaverðmætin voru 128 milljarðar króna.

Heildarveiði Bandaríkjanna skiptist þannig að fiskur var rúmar 3,7 milljónir tonna en skelfiskur 502 þúsund tonn. Í heild voru fiskar um 88% af lönduðum afla en aðeins 45% að verðmæti.
Árið 2017 voru Bandaríkin í fimmta sæti á lista yfir stærstu fiskveiðiþjóðir heims með rúm 5% heimsaflans.

NOAA, ein allsherjarstofnun

Tölur um fiskveiðar Bandaríkja­manna má finna í nýbirtri skýrslu NOAA, National Oceanic and Atmospheric Administration. NOAA er stofnun sem gegnir víðtæku hlutverki. Segja má að hún hafi á sinni könnu verkefni sem hér á landi heyra að hluta til eða öllu leyti undir Umhverfisstofnun, Veðurstofuna, Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu.

Fjögur ólík hafsvæði

Fiskveiðar Bandaríkjanna fara fram á fjórum mjög svo ólíkum haf­svæðum samkvæmt skilgreiningu NOAA. Þau eru Norður-Atlantshafið meðfram austurströnd­inni niður að Flórídaskaga, Mexíkó­flói, Kyrrahafið og hafsvæðið við Alaska. Flórídaskaginn skiptist á milli Atlantshafssvæðisins og Mexíkó­flóa.

Veiðar í Beringshafi við Alaska eru taldar vera með hættulegustu veiðum í heimi. Þar glíma sjómenn oft við kulda og stórsjói. Hinir þekktu sjónvarspsþættir Deadliest Catch voru teknir þar.

Alaskasvæðið gefur mestan afla, eða 58% af heildinni, en skilar þó ekki nema tæpum þriðjungi af aflaverðmætum. Mexíkóflóinn er næstur í röðinni. Þar eru dregin úr sjó 16% aflans og 16% verðmæta. Úr Atlantshafinu koma 14% aflans en 37% verðmæta. Kyrrahafið rekur lestina með 12% aflans og 13% verðmæta.

Atlantshafið er þannig í fyrsta sæti varðandi aflaverðmæti og helgast það af því að afar verðmætar tegundir, eins og humar, skeljar og krabbar, veiðast þar.

Alaskaufsi á toppnum

Helstu fisktegundir sem veiðast við Bandaríkin eru flestum Íslendingum lítt kunnar nema af afspurn.

Alaskaufsi er mest veidda tegundin. Hann veiðist einkum í Beringshafi en einnig víðar í Norður-Kyrrahafi. Á árinu 2018 komu rúmar 1,5 milljónir tonna á land af þessum ágæta fiski, sem er töluvert meira en afli Íslendinga í öllum tegundum var það ár.

Í öðru sæti er lítill bræðslufiskur sem nefnist meinhaddur (e. Menhaden). Veiðar á honum fara fram í

Atlantshafi og Mexíkóflóa. Alls veiddust rúm 717 þúsund tonn af meinhaddi.
Lýsingingur, smár hvítfiskur, er þriðja mest veidda tegundin með um 318 þúsund tonn. Hann veiðist nær eingöngu í Kyrrahafinu.

Kyrrahafslax er í fjórða sæti með 262 þúsund tonn. Hér er um fimm aðskildar tegundir laxa að ræða.

Flatfiskar verma fimmta sætið með 248 þúsund tonn. Fjölda kolategunda og annarra flatfiska er þarna slegið saman. Um 90% aflans veiðast í Kyrrahafi.

Bandaríkjamenn veiða um 233 þúsund tonn af kyrrahafsþorski sem er frábrugðinn atlantshafþorskinum sem Íslendingar veiða. Hér á árum áður veiddist mikið af atlantshafsþorski nyrst við austurströnd Bandaríkjanna. Stofninn hrundi vegna ofveiði og hefur ekki náð sér síðan. Þar veiddust aðeins 976 tonn af þorski árið 2018.

Alaska er mesta fiskveiðiríki Bandaríkjanna, bæði hvað varðar magn og verðmæti.

Humarinn skilar mestum verðmætum

Þegar horft er til aflaverðmæta riðlast röðin á mikilvægi tegunda. Humar er sú tegund sem skilar mestum aflaverðmætum, eða um 648 milljónum dollara, sem er rúmur 91 milljarður íslenskur. Humarinn er nær eingöngu veiddur í Maine og Massachusetts.

Krabbar fylgja fast á eftir með svipuð verðmæti og humarinn. Hér er um nokkrar tegundir krabba að ræða sem veiðast bæði við vesturströndina, austurströndina og við Alaska.

Kyrrahafslax er í þriðja sæti á verðmætalistanum og þar á eftir koma hörpudiskur og rækjur. Rækjurnar veiðast aðallega í Mexíkóflóa en einnig í Kyrrahafi.

Alaskaufsi er aðeins í sjöunda sæti á lista yfir verðmætustu tegundirnar. Verðmæti hans er 451,2 milljónir dollarar, eða rúmir 63 milljarðar íslenskir. Meinhaddur, sem er í öðru sæti yfir mest veiddu tegundir, er í tíunda sæti miðað við verðmæti.

Mestu verðmæti í Massachusetts

Eins og að líkum lætur er Alaska mesta fiskveiðiríki Bandaríkjanna, bæði hvað varðar magn og verðmæti. Þar var landað 2,5 milljónum tonnum af fiski og skelfiski að verðmæti 1,8 milljarðar dollara, eða 253 milljörðum króna. Fyrir utan alaskaufsann kemur mikið á land af kyrrahafslaxi, kyrrahafsþorski og nokkrum verðmætum krabbategundum.

Annað stærsta fiskveiðiríkið er Louisiana sem liggur að Mexíkóflóa. Þar var landað 454 þúsund tonnum af sjávarafla.

Í þriðja sæti er Washington, sem er nyrst á vesturströndinni, með 268 þúsund tonn. Í Washingtonríki er borgin Seattle en þangað hafa allnokkrir íslenskir sjómenn lagt leið sína.

Þegar litið er á aflaverðmæti þá skýst Massachusetts upp í annað sæti á eftir Alaska með 647,2 milljónir dollara, um 91 milljarð íslenskan. Maine er í þriðja sæti með 587,4 milljón dollara, tæpir 83 milljarðar íslenskir. Bæði þessi ríki eru norðarlega á austurströndinni.

Stærsta fiskihöfnin

Dutch Harbor í Alaska hefur í áraraðir verið stærsta fiskihöfnin í Bandaríkjunum. Árið 2018 var engin undantekning. Þar komu á land 365 þúsund tonn af sjávarfangi að verðmæti 182 milljónir dollarar, eða 25,6 milljarðar króna. Ekki kemur á óvart að alaskaufsi er rúmlega 90% þessa afla.

New Bedford í Massachusetts er hins vegar sú fiskihöfn þar sem mestum verðmætum var landað. Verðmæti afla þar var 431 milljón dollara, eða rúmir 60 milljarðar íslenskir. Á bak við þessi miklu verðmæti eru að langstærstum hluta veiðar á hörpudiski.

Þess má geta til samanburðar að stærsta fiskihöfn á Íslandi í tonnum talið árið 2018 er Neskaupstaður með 214 þúsund tonn. Mest verðmæti komu á land í Reykjavík eða 17,7 milljarðar. Helgast það meðal annars af því að margir frystitogarar landa þar afurðum sem unnar hafa verið um borð.

Gríðarlegur innflutningur

Þrátt fyrir miklar fiskveiðar eru Bandaríkin stór innflytjandi á sjávarafurðum. Reyndar er ekkert annað ríki í heiminum sem flytur inn jafnmikið af sjávarafurðum og Bandaríkin.

Um 85 til 95% af sjávarafurðum sem Bandaríkjamenn neyta eru innflutt. Þetta segir ekki alla söguna því verulegt magn, sem bandarískir fiskimenn veiða, fer til vinnslu erlendis og er síðan flutt inn sem afurðir.

Helstu innfluttar tegundir eru hlýsjávarrækjur og flök ýmissa hvítfisktegunda.

Hér á árum áður voru Banda­ríkin einn helsti markaður fyrir botnfiskafurðir frá Íslandi. Þessi viðskipti hafa dregist mikið saman en hafa reyndar verið örlítið á uppleið síðustu árin. Árið 2018 voru fluttar út sjávarafurðir héðan til Bandaríkjanna fyrir tæpan 21 milljarð króna, sem eru tæp 9% af virði fiskútflutnings okkar það ár.

Öflug fiskvinnsla

Megnið af fiskafla Bandaríkjanna var ráðstafað til manneldisvinnslu, eða um 76% af lönduðum afla. Um 17% fóru í vinnslu á fiskimjöli og lýsi. Restin fór í beitu, dýrafóður o.fl.

Fiskvinnsla er mjög öflug í Bandaríkjunum og er bæði unnið úr sjávarafla sem fenginn er heimafyrir og úr innfluttu hráefni. Helstu tegundir sem teknar eru til vinnslu eru alaskaufsi, rækjur, kyrrahafslax, túnfiskur og kyrrahafsþorskur.

Í heild voru framleiðsluverðmæti sjávarafurða 10,1 milljarður dollara, um 1.420 milljónir íslenskar. Til samanburðar má geta þess að framleiðsluverðmæti útfluttra sjávarafurða frá Íslandi voru um 240 milljarðar árið 2018.

Eldi á verðmætum tegundum

NOAA fjallar einnig um fiskeldi í skýrslu sinni en nýjustu tölur um þá grein eru frá árinu 2017. Fiskeldið skilaði 1,5 milljörðum dollara, eða um 211 milljörðum íslenskum. Framleidd voru 284 þúsund tonn. Lögð er áhersla á eldi á verðmætum tegundum, svo sem ostrum, skeljum og atlantshafslaxi.

Samanlögð verðmæti fiskveiða og eldis er rétt tæpir þúsund milljarðar íslenskra króna. Eldið er um 21% af verðmætum veiða og eldis samanlagt en í magni um 7%. 

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...