Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kolaveiði í dragnót. Mynd / Einar Ásgeirsson.
Kolaveiði í dragnót. Mynd / Einar Ásgeirsson.
Fréttaskýring 11. maí 2020

Kolinn skilaði 2,7 milljörðum í aflaverðmæti á síðasta ári

Höfundur: Kjasrtan Stefánsson

Kolaveiðar eru ekki mikilvægur þáttur í íslenskum sjávarútvegi en kolinn er góð búbót. Hann skilaði um 2,7 milljörðum króna á síðasta ári í aflaverðmæti og vegur rauðsprettan þar þyngst.

Sumar kolategundir eru með bestu matfiskum sem völ er á. Litlum sögum fer af kolaveiðum Íslendinga fyrr á tímum enda var lengi vel örðugt að veiða og verka kola fyrir erlendan markað. Ekki verður því sagt að Íslendingar hafi verið iðnir við kolann. Þetta orðtak yfir elju og ástundunarsemi er oftast tengt kolaveiðum en gæti allt eins vísað til kolagerðar sem var tímafrek iðja og krafðist yfirlegu.

Eiginlegar kolaveiðar okkar hófust ekki fyrr en langt var liðið á 20. öldina. Áður hafði kolinn verið lítilsháttar veiddur til heimabrúks í kolanet sem lögð voru grunnt frá landi.

Veruleg sókn í kola hófst fyrst hér við land er breskir togarar komu hingað til veiða suður af landinu og í Faxaflóa í lok 19. aldar við litla hrifningu landsmanna. Bretinn stundaði þessar kolaveiðar í fjölda ára en lagði einnig vaxandi áherslu á veiðar á bolfiski þegar á leið. Fleiri þjóðir komu við sögu, meðal annars Þjóðverjar.

Upplýsingar í þessa grein eru sóttar víða, meðal annars í bókina Íslenskir fiskar eftir Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson og einnig í samantekt um nytjafiska við Ísland eftir Hreiðar Þór Valtýsson.

Blómatíminn á níunda áratugnum

Kolaveiðar Íslendinga hófust svo á fjórða áratug síðustu aldar í smáum stíl í fyrstu og voru sveiflukenndar lengi vel, eins og þær eru reyndar ennþá. Erlend skip veiddu mörg árin þar á eftir meira af kolanum en Íslendingar.

Eftir að fiskveiðilögsagan var færð út í 200 mílur á áttunda áratugnum sátu Íslendinga einir að kolanum.

Blómatími kolaveiða Íslendinga var á níunda áratugnum. Á árinu 1997 náði samanlagður kolaafli okkar til dæmis tæpu 21 þúsund tonni.

Kolastofnarnir eru flestir í nokkurri lægð í dag. Á síðasta ári veiddust um 9.700 tonn samanlagt af kola á Íslandsmiðum, innan við helmingur af því sem var þegar best lét, að aflaverðmæti um 2,7 milljarðar króna. Heildaraflaverðmæti í fyrra var um 145 milljarðar. Kolinn er því 1,8% af heildinni í krónum talið.

Kolar finnast hringinn í kringum landið en veiðast aðallega suður og suðvestur af landinu.

Aðalveiðarfærið í beinni sókn er dragnót. Dragnótin er sérhæft veiðarfæri sem danskur bóndi og fiskimaður fann upp á 19. öld til að geta sótt kolann lengra út. Hann mokfiskaði, þénaði vel og hafði loks efni á að kvænast unnustu sinni, en það er önnur saga.

Kolar og aðrir flatfiskar

Við Ísland eru fimm kolategundir, misverðmætar. Þær eru skarkoli, þykkvalúra, langlúra, sandkoli og flundra. Fjórar fyrstnefndu eru nytjategundir en fimmti kolinn, flundra, er nýbúi og hefur ekki verið nýttur hér til þessa hvað sem síðar verður.

Kolar eru af ættbálki flatfiska. Á Íslandsmiðum hafa fundist 13 tegundir flatfiska. Náskyld kolanum eru lúða, grálúða og skrápflúra. Fjarskyldari eru fiskar af hverfuætt. Fimm tegundir hverfu hafa sést hér við land. Flestar eru flökkufiskar en ein þeirra, stórkjaftan, veiðist sem meðafli. 

Sérkennileg líffræði

Líffræði flatfiska er afar sérstök. Á lirfustigi eru þeir eins og aðrir fiskar, synda með kviðinn niður, bakið upp og augu á hvorri hlið eins og vera ber. Þegar því skeiði líkur umbreytast þeir. Annað augað færist yfir á hina hliðina, ýmist þá vinstri eða hægri. Kjálkinn skekkist líka og fleiri breytingar eiga sér stað. Augu kola og lúðu færast á hægri hliðina en augu fiska af hverfuætt færast á vinstri hlið. Blinda hliðin verður hvít eða ljós en hliðin sem hefur tvö augu verður dökk.

Flatfiskar eru botnfiskar og þegar þeir hreiðra um sig á botninum liggja þeir í raun á annarri hliðinni.

Afbökun á danska orðinu rödspætte

Skarkoli er mikilvægasta kolategundin við Ísland. Annað nafn yfir þennan kola, og mun algengara í daglegu tali, er rauðspretta. Nafngiftin rauðspretta er afbökun á danska orðinu rödspætte, þ.e. fiskur með rauða díla. Íslendingar hafa skotið inn stafnum „r“ því spretta hljómar kunnuglegra en spetta.

Eftir að Íslendingar sátu einir að kolaveiðunum fór skarkolaafli mest í 14.500 tonn árið 1985. Aflinn hefur annars sveiflast mikið frá um 5 þúsund tonnum á ári upp í um 10 þúsund tonn.
Árið 2019 veiddust 6.835 tonn af skarkola að aflaverðmæti 1,9 milljarðar króna. Algeng stærð í afla er 30 til 50 sentímetrar. Árið 2018 veiddust 67% aflans í dragnót, 29% í botnvörpu og 4% í önnur veiðarfæri.

Skarkoli er afar vinsæll matfiskur víða í Evrópu, einkum í Danmörk og á Bretlandi. Þess má geta að Danir veiddu 21.700 tonn af skarkola á árinu 2019 að aflaverðmæti 294 milljónir danskra króna, um 6,2 milljarðar íslenskra króna.

Sólkolinn afar verðmætur

Þykkvalúra er önnur mikilvægasta kolategund á Íslandsmiðum. Hún er með verðmætustu fisktegundum sem hér veiðast. Um 670 tonn af þykkvalúru voru seld á fiskmörkuðum landsins í fyrra og meðalverðið var um 488 krónur á kíló. Aðeins lúðan seldist á hærra verði af nytjafiskum, fór á krónur 498 á kíló að meðaltali. Til samanburðar má geta þess að meðalverð á þorski var 330 krónur á kíló.

Þykkvalúra gengur líka undir nafninu sólkoli sem er dregið af enska heiti þessa fisks, lemon sole. Þykkvalúran var mjög eftirsótt af erlendum togurum. Afli þeirra náði hámarki, um 3.000 tonnum, árið 1937. Mestur afli íslenskra skipa varð tæp 2.700 tonn árið 2006.

Árið 2019 veiddust hér tæp 1.450 tonn af þykkvalúru að aflaverðmæti 580 milljónir króna. Megnið er veitt í dragnót og algeng stærð í afla er um 30 sentímetrar.

Langlúran og listaskáldið góða

Langlúra er miðlungsstór, frekar langur og þunnur flatfiskur. Fyrstur til að lýsa langlúru við Ísland var náttúrufræðingurinn og listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson. Langlúra var annars lítið þekkt hér þar til erlendir togarar fóru að veiða hana.

Fyrst veiddist hún aðeins sem meðafli íslenskra skipa en árið 1986 hófust tilraunaveiðar á langlúru í dragnót á Íslandsmiðum. Langlúruafli okkar fór mest í tæp 4.600 tonn árið 1987. Í fyrra veiddist 881 tonn að aflaverðmæti rúm 161 milljón króna.

Langlúran er eingöngu veidd í dragnót í beinni sókn en vaxandi hluti aflans hefur fengist hin seinni ár sem meðafli í humartroll.

Sandkolinn ekki hátt skrifaður

Sandkoli hefur ekki verið hátt skrifaður á Íslandi. Þetta er verðlítil tegund sem lengi vel var ekki sinnt um að hirða þegar hún veiddist sem meðafli. Hins vegar er sandkoli vinsæll víða erlendis, meðal annars í Danmörk, Hollandi og Skotlandi.

Veiðar á sandkola hér til útflutnings hófust ekki fyrr en eftir 1984. Hæst fór aflinn í tæp 8 þúsund tonn árið 1996 en hefur hrunið síðan. Hann fór niður í 230 tonn árið 2017. Á síðasta ári veiddust 502 tonn að aflaverðmæti um 35 milljónir.

Sandkoli er nær eingöngu veiddur í dragnót. Hann er lítill samanborið við aðra flatfiska sem teljast til nytjategunda hér, um 20 til 35 sentímetrar á lengd.

Flundran jafnvíg á ferskvatn og saltan sjó

Fimmta kolategundinn hér við land, flundran, er nýbúi eins og áður er getið. Flundran líkist mest skarkola og sandkola. Fyrsta flundran sem veiddist hér við land svo vitað sé fékkst í Ölfursárósi haustið 1999. Flundran hefur dreift sér víða við strendur landsins en er algengust suður og vestur af landinu.

Flundran lifir á grunnsævi og hrygnir í sjó. Hún virðist einnig kunna vel við sig í fersku vatni sem er óvenjulegt. Á sumrin heldur hún sig við árósa og gengur gjarnan upp í ár og læki. Hún er þar ekki aufúsugestur. Hún keppir um búsvæði við bleikju og gæti spillt veiði á henni á vinsælum bleikjusvæðum.
Flundra er nýtt víða erlendis og eru Danir mesta veiðiþjóðin. Engum sögum fer af atvinnuveiðum á flundru hér við land en væntanlega getur hún orðið nytjafiskur í framtíðinni.

Gert út á tröllafisk

Árið 1889 varð fyrst vart við breska togara á Íslandsmiðum. Bretarnir sóttust þá aðallega eftir flatfiski, bæði kola og lúðu. Þeir fundu fljótlega auðug kolamið á Faxaflóa.

Bretarnir þóttu haga sér eins og villimenn og fóru af þeim ófagrar sögur. Þeir voru sagðir skemma veiðarfæri íslenskra skipa. Óttast var að botntrollið, hið nýja veiðarfæri, myndi spilla fiskimiðunum. Þá hentu þeir gjarnan stórþorski og öðrum fiski fyrir borð í miklum mæli til að hafa sem mest lestarrými fyrir flatfiskinn dýrmæta.

Þótt Bretarnir væru illa liðnir sóttu margir Íslendingar í að fá þorskinn hjá þeim sem annars var hent, gefins eða gegn gjaldi. Þessi fiskur var kallaður tröllafiskur. Nafngiftin er líklega afbökun á trawl-fiskur, þ.e. fiskur sem veiddur var trollið. Fyrstu heimildir um tröllafisk eru frá árinu 1894.

Í byrjun reru menn út á árabátum, fengu fisk fyrir smávarning, en seinna fóru menn hreinlega að gera út á tröllafisk á stærri bátum sem komu oft með góða farma af togarafiski að landi. Margir bátar voru jafnvel í föstum viðskiptum við togarana.

Jón Þ. Þór sagnfræðingur ritaði fróðlega grein í Ægi árið 1981 um tröllafiskinn og eru upplýsingar hér að framan sóttar í hana. Hann nefnir sérstaklega eina ferð sem bátur fór í til að kaupa tröllafisk. Skipverjar höfðu með í för tvo kassa af whisky, 50 bjóra og tvö hvít gæruskinn. Nokkurn tíma tók að finna einn togara sem var ekki þegar kominn í föst viðskipti. Gengið var frá skiptum á vínföngum og þorski og íslenski báturinn sigldi í land með góðan afla!

Íslensk stjórnvöld beittu sér mjög gegn þessum viðskiptum og talið er að þau hafi lagst af árið 1903.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...