Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Litu á loðnuna sem ódrátt
Fréttaskýring 18. janúar 2019

Litu á loðnuna sem ódrátt

Höfundur: Guðjón Einarsson

Þótt Íslendingar hafi vitað af loðnunni í sjónum kringum landið um aldir og jafnvel gert sér mat úr henni í einhverjum mæli var það ekki fyrr en fyrir röskum 50 árum að farið er að nýta hana fyrir alvöru.

Það sætir nokkurri furðu að loðnan sem oft og tíðum hefur komist næst þorskinum í útflutningsverðmætum og hefur á liðnum áratugum verið einn af mikilvægustu nytjastofnum okkar skuli ekki hafa verið nýtt að neinu ráði fyrr en á sjöunda áratug 20. aldarinnar, eða fyrir röskum fimm áratugum.

Í riti Hjálmars Vilhjálmssonar fiskifræðings um loðnuna frá árinu 1994 segir að helstu heimildir um að menn hafi nýtt sér loðnu til matar sé að finna í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra um Ísland á árunum 1752–1757. Þar kemur fram að í ýmsum byggðum hafi loðnu, sem rak á fjörur á hrygningartímanum, verið safnað saman og hún notuð sem fóður. Reyndar gerðu Eyfirðingar gott betur því  þeir nýttu loðnuna til manneldis á þessum árum.

Nótaveiði hefst um aldamótin

Á 19. öld eru heimildir um að fleiri landsmenn hafi farið að dæmi Eyfirðinga og hafi loðnu þá verið safnað saman á fjörum til manneldis, jafnt á Norðurlandi sem á Suðurlandi, að því er fram kemur í Íslenskum sjávarháttum, bókaflokki Lúðvíks Kristjánssonar. Þar segir að fyrstu eiginlegu loðnuveiðar, sem vitað er til að hafi verið stundaðar á Íslandi, hafi verið í Höfnum á Reykjanesi, en þar hafi menn háfað loðnuna og nýtt til beitu. Hjálmar Vilhjálmsson hefur það eftir Kristjáni Jónssyni á Akureyri að um síðustu aldamót hafi loðnan verið veidd í litlar nætur á fjörðum norðanlands til nota í beitu fyrir línu- og handfærabáta og svipaðri tækni virðist hafa verið beitt á Austfjörðum (Bjarni Sæmundsson 1899).

Tilraun til mjöl- og lýsisvinnslu

Veturinn 1958 stóð tæknideild Fiskifélags Íslands fyrir tilraun sem beindist að því hvort nýta mætti loðnu til mjöl- og lýsisframleiðslu. Niðurstöður þóttu lofa góðu og þær gáfu til kynna að hægt væri að hefja loðnuveiðar og landa aflanum til bræðslu ef ákveðnar breytingar væru gerðar á fiskimjölsverksmiðjunum. Þrátt fyrir það hófust loðnuveiðar ekki að marki fyrr en um miðjan sjöunda áratug aldarinnar. Aflinn árið 1964, þegar nokkur síldveiðiskip fóru til veiðanna, nam 8.600 tonnum en ári síðar var aflinn kominn í 50.000 tonn.

Litið á loðnuna sem hreinan ódrátt

Hrólfur Gunnarsson, skipstjóri á Árna Magnússyni, varð fyrstur til að hefja loðnuveiðar hér við land í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Hann lýsti aðdraganda þess í viðtali við Fiskifréttir árið 1998 og vantrúnni sem eigendur fiskimjölsverksmiðjanna höfðu á því að hægt yrði að nýta loðnu til bræðslu.
„Sjómenn voru lítt hrifnir af loðnunni og það var litið á hana sem hreinan ódrátt,“ segir Hrólfur. „Loðnan hafði oft valdið miklum erfiðleikum á síldveiðum. Þegar loðnan gekk upp að suðausturströnd Íslands og vestur með ströndinni má segja að síldveiðum hafi verið sjálfhætt á meðan. Ef menn lentu í því að fá loðnu í síldarnæturnar þurfti að sigla í land til þess að hreinsa þær.“

Árni Magnússon GK.

 

Fyrsti farmurinn fór í beitu

Útgerð Árna Magnússonar lét setja upp nót sem var 30 faðma djúp og 130 faðma löng, en mun smáriðnari en síldarnæturnar, sem notaðar voru á þeim tíma. Hún var einnig helmingi grynnri en hefðbundnar síldarnætur. Með þetta veiðarfæri fóru Hrólfur og félagar austur undir Hornafjörð í byrjun febrúar árið 1964 og fengu strax 130 tonn af loðnu.

Við höfðum því sýnt fram á að það var enginn vandi að veiða loðnuna, eins og menn þóttust reyndar vita, en erfiðara reyndist að telja menn á að kaupa hana til bræðslu og gera tilraun til að búa til úr henni mjöl og lýsi,“ segir Hrólfur.

„Það varð því niðurstaðan að mest af loðnunni úr fyrstu veiðiferðinni seldum við til beitu til útgerðarmanna á öllu Suðvesturlandi og allt til Vestfjarða. Á meðan stjórnendur fiskimjölsverksmiðjanna fussuðu og sveiuðu tóku útgerðarmenn línubátanna okkur fagnandi.“

Lét loks til leiðast

Það var ekki fyrr en eftir aðra veiði­ferð Árna Magnússonar á loðnu­miðin að hægt var að selja aflann til bræðslu.

„Guðmundur Jónsson sem var með bræðslu í Sandgerði lét loksins til leiðast og ákvað að gera tilraun til þess að bræða smávegis af þessum „verðlausa“ fiski. Hann greiddi okkur, að mig minnir, helmingi lægra verð fyrir loðnuna en þá var greitt fyrir síld. Þetta var ekki af því að hann ætlaði að hlunnfara okkur, heldur hafði hann einfaldlega enga trú á því að hægt væri að nýta loðnuna til mjölframleiðslu. Hann og fleiri urðu hins vegar hissa þegar í ljós kom að loðnumjölið reyndist vera mjög gott og hið sama má segja um lýsið,“ segir Hrólfur.

Undir lok þessarar fyrstu loðnuvertíðar höfðu tveir aðrir bátar, Gullfaxi NK og Vonin KE, tekið þátt í veiðunum. Á vertíðinni 1965 fjölgaði bátunum svo enn meira og þá hækkaði hráefnisverðið um helming, að því er Hrólf minnir.

Seint byrjað á loðnuveiðum

Hrólfur segist oft hafa hugsað til þess hve miklum verðmætum þjóðarbúið hafi orðið af vegna þess hve loðnuveiðar hófust seint. „Við hefðum vel getað hafið loðnuveiðar í kringum 1960 eða um leið og kraftblökkin kom til sögunnar í síldveiðum og við losnuðum við nótabátana. Eftir að veiðarnar hófust stóð það þeim helst fyrir þrifum að við urðum að háfa allan aflann úr nótinni og upp í skipið. Það var ekki fyrr en á vertíðinni 1969 eða 1970 að byrjað var að dæla loðnunni um borð.“

Tugmilljarða verðmæti

Eins og getið var um í upphafi er loðnan einn af mikilvægustu nytjafiskum þjóðarinnar. Auk þess sem loðnan hefur verið nýtt til mjöl- og lýsisvinnslu hafa fryst loðna og loðnuhrogn skapað mikil verðmæti. Í bestu árum fór afli Íslendinga yfir milljón tonn, síðast árið 2001. Eftir það tók loðnustofninum að hnigna verulega og er breyttum umhverfisaðstæðum í hafinu í kjölfar hlýnunar sjávar einkum kennt um.

Á síðasta ári nam loðnuaflinn tæplega 200.000 tonnum að verðmæti 18 milljarða króna í útflutningi. Það er 9,1% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða. Samkvæmt því var loðnan sú fisktegund á Íslandsmiðum sem skilaði næstmestum verðmætum, næst á eftir þorskinum sem enginn skákar. Útflutningsverðmæti þorskafurða nam 84 milljörðum eða 43% af heild.

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...