Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vinstra megin er þýskt grísakjöt notað í beikon undir íslensku vörumerki. Efri vara hægra megin eru beikonteningar upprunamerktir íslenskir með fánarönd. Sú neðri er beikonvara sem kölluð er dönsk með kjöti upprunnu í Þýskalandi.
Vinstra megin er þýskt grísakjöt notað í beikon undir íslensku vörumerki. Efri vara hægra megin eru beikonteningar upprunamerktir íslenskir með fánarönd. Sú neðri er beikonvara sem kölluð er dönsk með kjöti upprunnu í Þýskalandi.
Fréttaskýring 10. mars 2023

Matvæli undir fölsku flaggi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda um merkingar matvæla, en skyldumerkingar gera vörunum oft ekki nægjanleg skil. Á það bendir formaður samráðshóps um betri merkingar matvæla. Á meðan óunnum vörum sé gert að vera merkt uppruna gegnir öðru máli um það sem skilgreint er unnið. Fyrirtækjum er í sjálfsvald sett hvaða umfram upplýsingar þær setja fram á vörur sem þær vinna að litlu leyti. Neytendum er svo látið í té að velja sér matvörur út frá gefnum upplýsingum – eða skorti á þeim.

Í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um uppruna- merkingar kjöts í matvöru, viðhorfi neytenda, hagkvæmni og áhrif slíkra merkinga, segir að neytendur séu almennt næmari gagnvart uppruna matvæla. Slíkt næmi birtist í meiri meðvitund og kröfu neytenda um upprunamerkingar. Neytendur vilja upplýsingar um uppruna, innihald og kolefnisspor landbúnaðarafurða svo þeir geta meðvitað valið hvað þeir leggja sér til munns.

Matvælafyrirtæki fara ekki varhluta af því og nýta upprunavörumerki sér til hagsbóta. Markaðslegt forskot getur falist í matvöru frá tilteknum löndum, neytendur treysta misvel matvælaframleiðslu ákveðinna landa og landsvæða. Þannig hafa sum lönd og svæði byggt upp sérstöðu sem neytendur treysta og kjósa umfram sambærilegar vörur frá öðrum svæðum. Samkvæmt eðli hagfræðinnar hækkar virði eftirsóknarverðra vara. Öðru máli gildir um uppruna, innihald og kolefnisspor þeirra matvæla sem gætu latt neytendur til kaups og neyslu. Þá er oft betra fyrir fyrirtæki að nýta gloppur í löggjöf og sleppa því að upplýsa væntanlega neytendur.

Tölur sem tala

Fjölmargar kannanir staðfesta að neytendur vilja vita hvaðan maturinn þeirra kemur og undir hvaða kringumstæðum hann er framleiddur. Dæmi um það er afgerandi afstaða neytenda í könnun Maskínu árið 2018 þar sem 96,6% svarenda töldu að merkja ætti upprunaland matvöru í verslunum, 77,1% taldi rétt að merkja upprunaland matvöru á veitingahúsum og 72,4% töldu að merkja ætti matvöru í mötuneytum.

Í könnun Gallup frá árinu 2021 sögðu tæp 90% svarenda að upprunamerkingar væru mikilvægar. Ríflega 80% neytenda sögðust kjósa íslenskar vörur í verslunum væri þess kostur og 63% svarenda óskuðu þess að innlendar matvörur væru upprunamerktar. Rúm 70% svarenda sögðust óánægðir með að erlendar kjötafurðir væru seldar undir íslenskum vörumerkjum.

Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) benda á það í umsögn sinni um nýja þingsályktunartillögu um matvælastefnu að samkvæmt könnun Gallup í ágúst 2016 skiptir uppruni landbúnaðarafurða íslenska neytendur miklu máli en þá svöruðu 82,2% því að þeir veldu eingöngu, mun frekar eða frekar íslenskt kjöt en erlent þegar verslað er og 88,3% sögðu það skipta öllu, mjög miklu eða frekar miklu máli að upplýsingar um uppruna væru á umbúðunum.

Þær reglur sem gilda

Ísland innleiddi matvælalöggjöf Evrópusambandsins árið 2014. Innan hennar gilda reglur um merkingar matvæla. Engar sérreglur eru um merkingar matvæla hér á landi, enda er sameiginleg löggjöf innan Evrópusambandslandanna til þess gerð að samræmi sé í regluverki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar fara með eftirlit með merkingum matvæla. Á vefsíðu MAST er hægt að nálgast skýringar á reglunum. Eingöngu er skylt að merkja uppruna flestra ferskra matjurta, hunangs og óunnins kjöts af nautgripum, svínum, sauðfé, geitum og alifuglum.

Munurinn á unnu og óunnu

Í reglugerðunum um upprunamerkingar á kjöti er krafan um upprunamerkingar einskorðuð við tiltekinn tollflokk. Undir þann flokk falla einungis óunnar afurðir, kældar eða frystar. Óunnið kjöt telst allt það sem eingöngu er skorið eða hakkað. Um leið og kjötið hefur verið kryddað, pæklað, sprautusaltað eða bætt í það aukaefnum er það ekki lengur óunnið.

Unnin matvæli lúta ekki kröfu um upprunamerkingu og er því framleiðanda vörunnar í sjálfsvald sett hvort upplýst sé um uppruna hráefnisins.

Í reglugerðum er hægt að finna nánari skilgreiningar á hvað telst til óunninna og unninna vara en einfalt er að skilja það svona:

Ef innihaldslýsingar er þörf, þá er kjötið unnið.

Unnið og óunnið, íslenskt og innflutt ægir saman í matvöruverslunum. Upprunamerkja þarf alla óunna vöru. Ekki er skylda að upprunamerkja unna vöru. Fyrirtæki geta valið að upprunamerkja unnar vörur. Tilhneigingin hefur verið að merkja það sem íslenskt er en fyrirtæki eru í vaxandi mæli að merkja uppruna allra kjötvara.

Heiðursmannasamkomulag og samráðshópur

Í febrúar árið 2019 var undirritað samkomulag milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bænda- samtaka Íslands, Neytendasam- takanna, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka iðnaðarins þess efnis að gerð yrði gangskör í því að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif þeirra.

Oddný Anna Björnsdóttir var formaður og verkefnisstjóri samráðshóps um betri merkingar matvæla.

Í kjölfarið var stofnaður samráðshópur um betri merkingar matvæla sem starfaði á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á tímabilinu apríl 2019 til febrúarmánaðar 2020. Afurð starfs hópsins er skýrsla sem kom út í september árið 2020. Þar voru lagðar fram tólf tillögur til að bæta merkingar matvæla. Oddný Anna Björnsdóttir var formaður og verkefnisstjóri samráðshópsins.

Það sem þarf ekki

Tillögurnar tólf sneru að bættri merkingalöggjöf, tæknilausnum sem aukið gætu upplýsingagjöf um matvæli til neyt enda og notkun á valkvæðum merkingum. Auk þess lagði hópurinn til átaksverkefni til að tryggja betri meðvitund neytenda á rétt sínum til upplýsinga um matvæli.

Oddný Anna bendir á að innleiðing hinnar svokölluðu merkingareglugerðar árið 2014 hafi verið mikið framfaraskref fyrir neytendur hér á landi. Í henni séu mun meiri kröfur gerðar til merkingar matvæla en áður voru og hvetur neytendur til að kynna sér hvaða upplýsingum þeir eigi rétt á, á vef Matvælastofnunar. Sem dæmi séu innihaldslýsingar orðnar fastmótaðri, ofnæmis- og óþolsvaldar sýnilegri, skýrar reglur um næringar- og heilsufullyrðingar og næringargildistaflan staðlaðri.

„Að mínu mati er reglugerðin skýr og engin sérstök vafaatriði í henni, en það þarf að sjá til þess að farið sé eftir reglunum,“ segir Oddný.

Fánaröndin getur verið blekkjandi

Íslenska fánaröndin er mikið notuð á matvæli íslenskra fyrirtækja og sjást tíðum í matvörubúðum. Í lögum um þjóðfána kemur fram að heimilt sé að nota fánamerkingu sé vara framleidd á Íslandi úr innlendu hráefni, en einnig ef hún er framleidd úr innfluttu hráefni hafi hún hlotið „nægilega aðvinnslu“ hérlendis. Þó er þar tilgreint að vara teljist ekki íslensk, og megi þar af leiðandi ekki bera þjóðfánann, sé hún framleidd úr innfluttu hráefni sem telst vera einkennandi hluti vörunnar og sé eðlislík vöru sem ræktuð er og framleidd hér á landi.

Íslensk framleiðslufyrirtæki sem nota innflutt hráefni geta sett íslenska fánann á vörur sínar ef uppistöðuhráefnið er ekki eðlislíkt íslenskri búvöru. Mörg dæmi eru hins vegar um að þjóðfáninn sé misnotaður en viðurlög við slíkum brotum virðast lítil. „Það virðist vera mjög lítil áhætta að brjóta þessa reglu. Ef þú ert með vanmerkta vöru með óþolsvalda þá er hún innkölluð hin snarasta. En ég hef hins vegar ekki heyrt af innköllun á vöru sem var merkt íslenska fánanum sem talið var villandi,“ segir Oddný.

Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu hafa þrettán fyrirspurnir og ábendingar borist varðandi villandi framsetningu, upprunamerkingar eða markaðssetningu á búvöru síðan skýrslu samráðshópsins var skilað árið 2020. Tekin hafa verið fyrir tvö mál til meðferðar sem snúa að notkun þjóðfánans, á ullarsæng og á umbúðum hóffylliefnis. Í fyrrnefnda tilvikinu var niðurstaða stofnunarinnar að notkun fánans væri réttmæt en í því síðarnefnda var látið af notkuninni. Stofnunin hefur ekki beitt sekt í málum sem þessum sem snúa að búvöru en samkvæmt lögum er Neytendastofu heimilt að leggja á stjórnvaldssektir, allt að 10 milljónir króna, ef ekki er farið að fyrirmælum stofnunarinnar.

Ekki er skylt að upprunamerkja búvörur á veitingastöðum og mötuneytum. Reglurnar eru þó þannig að þeir sem bjóða upp á matinn eiga að hafa upplýsingarnar til reiðu.

Misfellurnar tvær

Þó réttur neytenda sé mikill samkvæmt merkingareglugerðinni stendur tvennt út af sem dregur úr möguleikum neytenda á upplýstu vali, að sögn Oddnýjar. „Annars vegar er ekki skylt að upprunamerkja búvörur á veitingastöðum, mötuneytum og öðrum stöðum sem selja óforpökkuð matvæli. Reglurnar eru þó þannig að þeir sem bjóða upp á matinn eiga að hafa upplýsingarnar til reiðu ef spurt er.“ Tilfinning hennar sé sú að mikill hluti kjöts á veitingastöðum og í mötuneytum sé innfluttur nema frá því sé sérstaklega sagt. „Ef þeir þurfa ekki að gefa það upp þá er enginn hvati til þess að nota íslenskt, nema staðurinn geri sérstaklega út á að bjóða upp á íslenskt.“Hún sé þeirrar skoðunar að skylda ætti þessa staði til að hafa uppruna búvaranna sýnilegan. Ein tillaga samráðshópsins sneri einmitt að því að ráðherra skoðaði að taka upp hina svokölluðu „Finnsku leið“ sem gangi út á að skylda þá til að upplýsa viðskiptavini sína um uppruna þess ferska kjöts og hakks sem þeir hafa á boðstólum, til dæmis á töflu eða í bæklingi. Það myndi bæta skilyrði og stöðu neytenda til að taka meðvitaða og upplýsta ákvörðun.

Hitt atriðið sem dregur úr möguleikum neytenda á upplýstu vali að mati Oddnýjar er að ekki þurfi að upprunamerkja unnar kjötvörur.

„Tilhneigingin er sú að þeir sem eru með unnar vörur úr íslensku kjöti segi frá því, en þeir sem eru ekki með íslenskt kjöt nýti sér gjarnan að þurfa ekki að segja frá því. Samráðshópurinn hvatti framleiðendur til að merkja umfram skyldu til að koma til móts við kröfur neytenda og mér hefur í raun fundist það vera reglan fremur en undantekningin að sjá uppruna kjöts á vörum eins og beikoni í matvöruverslunum í dag. Mörg fyrirtæki eru að merkja, að minnsta kosti hluta af vörum sínum með upprunalandi, þó þeim sé það ekki skylt. En svo eru vörur inn á milli sem margir halda að séu íslenskar en eru það ekki, sem er auðvitað óásættanlegt.“

Neytendur ættu ekki gera ráð fyrir að merkingar á íslensku eða íslensku fyrirtæki gefi til kynna kjöt af íslenskum uppruna, segir Katrín Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun.

Hvetja framleiðendur til að ganga lengra en löggjöfin

Regluverkið nær eingöngu visst langt og eftirlitsaðilar geta ekki gert kröfur á fyrirtæki umfram það sem fram kemur í reglunum.

„Ísland getur ekki gert kröfu um að kjöt sem kemur hingað til lands og er þegar unnið sé upprunamerkt, þ.e. ekki gengið lengra hvað varðar vörur frá EES, vegna EES samningsins. En hvað varðar kjöt sem kemur hingað ferskt eða frosið og er svo unnið hérlendis ætti að vera hægt að setja sér íslenskar reglur um að það verði upprunamerkt þó það sé unnið hér. Það er spurning um vilja löggjafans til að setja strangari kröfur á íslenska framleiðendur en gert er á EES svæðinu,“ segir Katrín Guðjónsdóttir, fagsviðsstjóri hjá MAST.

Hún segir þó að Matvælastofnun hvetji framleiðendur til að ganga lengra í upplýsingagjöf en reglur kveða á um.

„Ef neytendur vilja alltaf vita hvaðan kjötið sem þeir neyta er upprunnið þá er leiðin að því annaðhvort að kaupa óunnið kjöt, sem á reglum samkvæmt að vera upprunamerkt, eða kaupa unnið kjöt sem er upprunamerkt þrátt fyrir að það sé ekki krafan. Neytendur ættu ekki að gera ráð fyrir að merkingar á íslensku eða íslensku fyrirtæki gefi til kynna kjöt af íslenskum uppruna.“

Gengur gróflega gegn hagsmunum neytenda

Þann 10. febrúar sl. birti matvælaráðherra á samráðsgátt drög að þingsályktunartillögum um matvælastefnu annars vegar og landbúnaðarstefnu hins vegar. Í báðum drögunum er vikið að upprunamerkingum.

Í þeirri fyrrnefndu er sagt að stuðla þurfi að því að neytendur séu vel upplýstir um uppruna, innihald og kolefnispor matvæla. Bændasamtök Íslands benda á það í umsögn að erfitt geti verið fyrir neytendur að átta sig á hvaðan matvælin koma.

„Fjölmörg dæmi eru um að matvælum sé stillt fram í verslunum með þeim hætti að erfitt er að gera greinarmun á innfluttum og innlendum vörum. Skýrt dæmi um það má oft finna í grænmetisborði verslana. Þar eru oft og iðulega grænir kassar merktir Sölufélagi garðyrkjumanna, undan íslensku grænmeti, endurnýttir undir innflutt grænmeti í lausu, hvaðanæva að í heiminum. Hafa margir bændur af þeim sökum kosið að pakka vörum sínum sjálfir, með tilheyrandi plastnotkun, því ekki sé hægt að treysta því að grænmeti í lausu sé ekki blandað saman við grænmeti með annan uppruna.

Starfsskilyrðin hér á landi eru önnur og notkun varnarefna í garðyrkju eru nær engin, sem tæplega er hægt að fullyrða með innflutta vöru. Blandaður uppruni og óljósar merkingar eru þannig fallnar til að neytendur taka ákvarðanir sem þeir myndu líklega aldrei taka væru þeir nægilega upplýstir.

Þá eru aðrar vörur seldar í umbúðum sem gefa til kynna að varan sé íslensk þegar raunin er önnur, og þá oftast með íslenska þjóðfánanum, eða án fána og óþægilega oft í nafni rótgróinna íslenskra vörumerkja.“

Samtökin víkja að notkun þjóðfánans á umbúðir vara og matvæla sem þau telja vera nánast stjórnlausa. Með breytingu á fánalögum árið 2016, á þann veg að heimilt var að nota þjóðfána í ríkari mæli í markaðssetningu og á umbúðir vara og matvæla, hefur notkun hans orðið nánast stjórnlaus.

„Fánalögin nr. 34/1944, ásamt reglugerð um notkun þjóðfánans í markaðssetningu, nr. 618/2017, setja ýmis skilyrði fyrir notkun, svo sem um nægilega aðvinnslu hérlendis. Er það eftirlátið dreifingaraðila að meta hvað sé nægileg aðvinnsla en augljóst má vera að innflutt blóm pökkuð í íslenska fánann uppfylla tæpast þau skilyrði. Eða þegar innflutt kjöt er kryddað, marinerað og umpakkað með íslenskum vörumerkjum. Þannig er hæpið að löglegt sé að gefa í skyn að vara sé íslensk að uppruna þegar hún er merkt íslensku letri einu saman, undir íslensku vörumerki, sé innflutta hráefnið áfram einkennandi hluti vörunnar eða hún er eðlislík íslenskri búvöru eða eldisfisk. Þessu verður að breyta og lögin þarf að skýra með leiðbeiningum frá eftirlitsaðilum.

Þessi dæmi um villandi viðskiptahætti og markaðssetningu má finna á hverjum degi í nánast öllum verslunum með matvæli. Slíkt er ekki einungis andstætt settum reglum heldur gengur það gróflega gegn hagsmunum neytenda og skýlausum rétti þeirra til að vita hvað þeir láta ofan í sig.

Neytendum er þar með gert mun erfiðara fyrir með að taka upplýsta ákvörðun við val á matvælum með tilliti til uppruna og annarra eiginleika þeirra.

Villandi framsetning á hamborgurum merktum með íslenska fánanum.

Vilja skylda framleiðendur til að upprunamerkja

Í síðarnefndu drögunum að þingsályktunartillögu, landbúnaðarstefnunni, er stefnt að því að sérstaklega verði hugað að leiðum til að auðvelda neytendum að velja vörur eftir eigin gildum og afstöðu til landbúnaðarframleiðslu, m.a. með bættum upplýsingum um uppruna, innihald og kolefnisspor landbúnaðarafurða. Í greinargerð segir: „Neytendur munu gera auknar kröfur um öryggi og hollustuhætti í matvælaframleiðslu, sem og að hugað sé að sjálfbærni, kolefnisspori og umhverfisþáttum í allri virðiskeðju matvæla. Þá kalla neytendur eftir því í auknum mæli að upplýsingar um framangreint séu aðgengilegar. Hér liggja því mikil tækifæri fyrir innlenda landbúnaðarframleiðslu.“

Í umsögn sinni leggja Bændasamtök Íslands til að framleiðendur verði lögbundið skyldaðir til að upprunamerkja innlendar landbúnaðarvörur með upprunamerkinu Íslenskt staðfest auk þess sem skoðaður verði sá möguleiki að færa eftirlit með upprunamerkingum til Neytendastofu sem fái fjármagn og mannafla til eftirlits og skýrar og virkar heimildir til viðbragða.

Íslenskt staðfest er upprunamerki sem framleiðendur íslenskra búvara, matvæla og blóma geta notað ef þau uppfylla skilyrði um íslenskan uppruna. Kjöt, egg, sjávarafurðir og mjólk skulu vera í öllum tilfellum 100% íslenskt, en ef um samsetta vöru er að ræða má allt að 25% innihalds vera innflutt. Með notkun merkisins eiga neytendur að geta treyst því að varan sé sannanlega íslensk. Verið er að vinna í innleiðingu og merkingu fjölmargra vara með upprunamerkingunni og er von á frekari kynningu í tengslum við Búnaðarþingið í lok mars.

Ekki er skylt að upprunamerkja búvörur á veitingastöðum og mötuneytum. Reglurnar eru þó þannig að þeir sem bjóða upp á matinn eiga að hafa upplýsingarnar til reiðu.

Matvælaráðuneytið mun beita sér fyrir bættri upplýsingagjöf

Skýr upplýsingagjöf er forsenda fyrir því að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir um vöruval, segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að skýr upplýsingagjöf sé forsenda fyrir því að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir um vöruval.

„Ætla má að fyrirtæki muni í auknum mæli svara þessum kröfum, enda sé það í þeirra þágu.

Ráðuneyti mitt fylgist með þróun í því regluverki sem við erum aðilar að í gegnum EES samninginn og mun beita sér fyrir bættri upplýsingagjöf til neytenda eftir því sem tækifæri gefast.“

Skylt efni: upprunamerkingar

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver
Fréttaskýring 30. desember 2024

Betri rekstrargrundvöllur fyrir lífgasver

Stefnt er að stofnun rekstrarfélags á næstunni utan um starfsemi á lífgas- og áb...

Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...