Ráðgátan um humarstofninn
Humarstofninn við Ísland er í dýpstu lægð sem um getur frá því að veiðar úr honum hófust fyrir rúmum sex áratugum. Nýliðun hefur brugðist síðustu níu ár. Aflaheimildir miðast nú eingöngu við könnunarveiði til að fylgjast með ástandi stofnsins. Engar vísbendingar eru um að úr rætist í bráð.
Humaraflinn við Ísland tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Síðan hefur aflinn farið minnkandi og var 728 tonn árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða Íslendinga árið 1957. Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en afli á sóknareiningu er nú í sögulegu lágmarki. Útgefið aflamark hefur ekki náðst síðustu tvö fiskveiðiár.
Snemma á þessu ári ráðlagði Hafrannsóknastofnun að afli ársins 2019 yrði ekki meiri en 235 tonn sem miðaðist við að hægt sé fylgjast með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Sjávarútvegsráðherra kaus að miða aflamarkið við óveiddan kvóta sem fluttur hafði verið milli ára, sem var innan við 300 tonn.
Skýringar skortir
En hvers vegna er svona illa komið fyrir humarstofninum? „Stutta svarið er að við höfum ekki skýringu á því hvað veldur,“ segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, sem stýrir rannsóknum á humarstofninum. „Við sjáum að aðrar tegundir við suðurströndina, svo sem öfugkjafta, langlúra, skötuselur og blálanga, hafa einnig átt undir högg að sækja hvað nýliðun varðar. Sjórinn sunnan við landið hefur verið hlýr og selturíkur. Sílið hefur verið í lægð sem gert hefur að verkum að lundinn hefur ekki getað komið upp ungum. Það hefur verið eins konar hallærisástand í sjónum við suðurströndina nú í allmörg ár. Til samanburðar má benda á að ekkert hrun er í nýliðun hjá fiskistofnum þar sem ungviðið elst upp norðan við landið, svo sem þorsksins.“
Makríllinn varla sökudólgurinn
Getgátur hafa verið um að ástandið megi ef til vill rekja til innflæðis makríls upp að suðurströndinni á liðnum árum en Jónas er ekki trúaður á það. „Nýliðunarbresturinn í humarstofninum hófst frá og með árinu 2005 en makríllinn fór ekki að láta sjá sig sunnan við landið í neinum mæli fyrr en 2–3 árum síðar. Þá ber á það að líta að makríllinn kemur ekki inn á Íslandsmið fyrr en undir lok júní og byrjun júlí. Við höfum verið að safna humarlirfum í fyrrihluta júní bæði í ár og í fyrra. Þær eru á þeim tíma farnar að leita aðeins til botns en makríllinn er uppsjávarfiskur og leitar ætis ofan í sjónum. Auðvitað hefur innflæði makrílsins einhver áhrif en ég fæ ekki séð að það ráði neinum úrslitum,“ segir Jónas.
Breyttar umhverfisástæður líkleg skýring
Jónas telur að breyttar umhverfisaðstæður séu líkleg skýring á nýliðunarbrestinum í humarstofninum en frekari rannsóknir þurfi til þess að ganga úr skugga um með hvaða hætti það gerist. Verið sé til dæmis að skoða út frá gervihnattagögnum hvort frumframleiðslan að vori í hafinu sunnan við landið hafi verið seinna á ferðinni síðustu ár en áður. Eins kunni hærra hitastig sjávar að hafa áhrif á þroskunarferli eggjanna. Vakta þurfi fyrstu stigin á lífsferli humarsins betur en gert hafi verið. Þessi gögn þurfi svo öll að tengja saman til þess að fá svör.
Samfelld veiði í sjötíu ár
Veiðar á humri hafa verið stundaðar samfellt við Ísland frá árinu 1950. Saga veiðanna er rakin í skýrslu sem fiskifræðingarnir Hrafnkell Eiríksson og Jónas Páll Jónasson tóku saman árið 2016. Enda þótt Bretar og Þjóðverjar hafi verið atkvæðamiklir í fiskveiðum hér við land á síðustu öld lögðu þeir sig aldrei eftir humri. Það gerðu Belgar aftur á móti. Frá og með árinu 1950 tilkynntu belgískir togarar humarafla sem þeir veiddu undir lok botnfiskveiðiferða sinna suðaustur af Íslandi, áður en þeir héldu heim á leið. Afli þeirra var nokkur hundruð tonn á ári hverju, mestur 600 tonn árið 1959. Veiðarnar liðu undir lok árið 1974 samhliða útfærslu fiskveiðilögsögunnar hér við land.
Fyrstu tilraunir Íslendinga til humarveiða fóru fram sumarið 1939 á tveimur litlum togbátum úti af Reykjanesi og við Vestmannaeyjar. Veiðarnar báru takmarkaðan árangur. Aftur var gerð tilraun til humarveiða árið 1951, aðallega úti af Selvogi, og nú gekk allt að óskum en markaðserfiðleikar og tregða hjá lánastofnunum varð til þess að tilrauninni var hætt árið 1954. Frá árinu 1957 hafa íslenskir bátar hins vegar stundað þessar veiðar óslitið.
Veiðar fóru hratt vaxandi
Veiðar Íslendinga fóru hratt vaxandi fyrst í stað og náðu hámarki árið 1963 þegar aflinn nam 5.550 tonnum. Sóknin var greinilega of mikil því á árunum þar á eftir dró úr aflanum og var hann kominn niður í 2.500 tonn árið 1968 samfara aukinni sókn og snarminnkandi afla á sóknareiningu. Einnig kann kólnun sjávar á þessum árum að hafa haft sín áhrif. Stofninn átti þó eftir að hjarna við og komst aflinn í 4.700 tonn árið 1971.
Á fyrstu árum áttunda áratugarins tóku 185 bátar þátt í humarveiðunum og var sóknin án efa umfram afrakstursgetu stofnsins að mati skýrsluhöfunda. Það leiddi til þess að settar voru strangari reglur um veiðarnar og var hámarksafli ákveðinn 3.000 tonn árið 1973 og 2.000 tonn árið 1974 auk þess sem bátarnir voru bundnir hámarkstærð. Á árabilinu 1976–2016 var ársaflinn á bilinu 1.400–2.700 tonn. Árið 2018 seig svo á ógæfuhliðina þegar aðeins náðist að veiða 728 tonn og í ár er einungis leyfilegt að veiða innan við 300 tonn eins og áður sagði.
Fordæmalaus nýliðunarbrestur
Frá því að rannsóknir hófust á íslenska humarstofninum eru engin fordæmi fyrir því að nýliðun hafi brugðist samfellt í svona langan tíma, að sögn Jónasar. Þess eru heldur engin dæmi við strendur nágrannalandanna, en þessi humartegund er algeng við Bretland og Írland, svo og við strendur Danmerkur og Svíþjóðar. Erlendis er humarinn veiddur yngri og smærri og þar hrygnir kvendýrið einu sinni á ári en hér við land aðeins annað hvert ár. Hafa ber í huga að humarinn við Ísland er á jaðri útbreiðslusvæðis tegundarinnar.
Ný aðferð við stofnmat
Árið 2016 tók Hafrannsóknastofnun í notkun nýja aðferð við stofnmat humars sem felst í því að telja humarholur á veiðislóðinni með hjálp neðansjávarmyndavélar. Fram að því hafði hérlendis eingöngu verið stuðst við togprufur með humarvörpu auk gagna úr veiddum afla, en holutalning hefur verið aðalrannsóknaaðferðin í nágrannalöndum okkar í langan tíma. Í ljós hefur komið að þéttleiki humarhola er miklu minni hérlendis en erlendis. Við Ísland mælast 0,07 holur á hvern fermetra en annars staðar er algengur þéttleiki 0,5–1,0 holur á fermetra á humarslóð.
Nýja aðferðin virðist gefa nokkuð góða mynd af fjölda humra á hverri humarslóð (einn humar er í hverri holu) því komið hefur í ljós að það er innra samræmi milli svæða frá einu ári til annars. Sem dæmi má nefna að Breiðamerkurdjúpið hefur alltaf komið sæmilega út úr þessari mælingu en við Vestmannaeyjar er humarþurrð ár eftir ár. Að sögn Jónasar er útbreiðsla humarsins algjörlega háð ákveðinni botngerð og þarf hún helst að vera tóm leirdrulla. Þannig aðstæður hafa skapast t.d. í jökulsporðum fyrir suðaustan land þar sem jökullinn hefur sorfið botninn og skilið eftir fínan leir. Inn á milli eru svo grunn þar sem botninn er miklu harðari og þar er engan humar að finna.
Svart útlit
Rannsóknir þessa árs á humarstofninum gefa enga vísbendingu um að stofninn sé að hressast. Áætlað er að veiðiráðgjöf næsta árs verði birt fyrir jólin. Jónas var spurður hvort það stefndi í að veiðar yrðu alfarið stöðvaðar.
„Í rauninni hafa veiðarnar verið hér um bil stöðvaðar því aflamarkið er svo lítið. Við köllum þetta könnunarveiði. Með henni getum við fylgst með ástandi stofnsins og einkum því hvort eða hvenær nýliðun kemur inn,“ sagði Jónas Páll Jónasson.