Spóluhnýðissýking, smitandi veirungar
Spóluhnýðissýking sem greinst hefur í tómötum hér á landi stafar af veirungi sem kallast Potato spindle tuber viroid. Veirungar eru minnsta smitandi eining sem þekkt er og samsett úr stuttum hringlaga og einstengdum RNA kjarnasýrum án próteinhjúps.
Potato spindle tuber viroid er fyrsti veirungurinn sem greindist og eru tómatar og kartöflur náttúrulegir hýslar hans. Veirungar hafa einungis greinst í háplöntum. Til eru mismunandi afbrigði Potato spindle tuber viroid og allir valda þeir sýkingum í háplöntum og uppskeruminnkun í nytjaplöntum.
Sýkingareinkenni mismunandi Potato spindle tuber viroid eru allt frá því að vera vægar yfir í að vera mjög alvarlegar. Einkenni geta verið misalvarleg eftir umhverfisaðstæðum. Þau aukast við hærra hitastig og eftir því hversu lengi veirungurinn fær að grassera óáreittur.
Almenn einkenni eru að blöðin verða minni, verpast og taka á sig gulan eða fjólubláan lit. Undirvöxtur í kartöflum verður minni og tómatar líka og þeir fá á sig gulleitar skellur.
Spóluhnýðissýking er landlæg víða um heim, í Norður-Ameríku, bæði Bandaríkjunum og Kanada, Kína, mörgum ríkjum fyrrum Sovétríkjanna og mörgum Evrópuríkjum. Þrátt fyrir það hefur tekist að útrýma sýkingunni á mörgum svæðum.
Sýkingin getur breiðst út með blaðlús en hér á landi er mest hætta á að hún berist út með fjölnotaumbúðum og vörubrettum.